Íslendingar vilja græða á kostnað þeirra sem minna mega sín

throstur jonsson 0004 webUndanfarin misseri hefur verið mikil umræða um olíuleit og vinnslu íslendinga á svonefndu Drekasvæði. Margir ganga með dollaramerkin í augunum og geta vart beðið þeirrar stundar að komast í skjótfenginn skyndigróðann, eins og Íslendingum er einum lagið.

Fer þar forsætisráðherra vor, manna fremstur í flokki, meðal annars í viðtali í tengslum við ráðstefnu á vegum Austurbrúar fyrir skemmstu. Eins og fyrri daginn eru efasemda raddir umhverfissinna kveðnar í kútinn og áróður ljósvakafjölmiðlana er nánast á einn veg: „olía, græða, græða."

Sömu sögu má segja um fyrirætlanir íslendinga að stórgræða á þeim náttúruhamförum þegar ísinn hverfur af norðurskautinu. Jafnvel forsetinn gerðist „klappstýra" þessara afla í nýársávarpi sínu.

Í hrunadansinum gleyma menn algjörlega hvað er að gerast hér á móður jörðu sem elur okkur öll. Loftslagsbreytingar eru nú orðnar svo hraðar að ólíklegt má teljast að einhverju versta umhverfisslysi sem mannkyn hefur lent í, verði afstýrt.

Það er sama hvert er litið: Eyðing regnskóga nemur hálfum hektara hverja einustu sekúndu. Hlýnun og bráðnun, ekki síst fyrir tilstuðlan kolefnisorkugjafa (svo sem olíu), valda sífellt verri fárviðrum og flóðum sem bitna verst á þeim sem síst skildi, fátækum þjóðum þessa heims svo sem Bangladesh og Filippseyjum.

Nei, í olíudansinum er okkur skítsama. Græðgi og skammtímasjónarmið ráða för. Svo þegar fréttir berast af hamförum réttum við þeim sem fyrir þeim verða nokkra þúsund-kalla til að sætta samviskuna og gleymum svo bágindum þessa fólks um leið og fréttaflutningur af þeim hættir.

Grátandi og niðurbrotinn fulltrúi Filippseyja, sem á þingi Sameinuðu Þjóðanna bað Vesturlönd að fara að gera eitthvað í loftslagsmálum, virðist engin áhrif hafa haft þrátt fyrir skelfilegar afleiðingar einhvers versta fellibyls sem nokkru sinni hefur sést og gekk yfir eyjarnar fyrir skemmstu.

Nei, nú skal græða og fitna eins og púkinn á fjósbitanum með aðstoð Norðmanna og Kínverja.

Ef loftslag hér á landi verður einhvern tíma hagstætt fyrir ópíum- og kókalaufs-framleiðslu, ætla stjórnvöld og fjölmiðlar að hvetja bændur til að snúa sér að slíkri ræktun á þeim forsendum að ef við gerum það ekki, ja þá gera bara einhverjir aðrir það? Skítt með þá sem lenda í neyslunni, þetta er stórgróðadæmi!

Nú er það því miður svo að vart verður við snúið. Miklar líkur eru til að af olíuvinnslu verði á íslenska hluta Drekasvæðisins innan næstu 10 ára. Um það hafa íslensk stjórnvöld gert bindandi samninga við þá aðila sem hafa fengið leyfi til olíuleitar á svæðinu. Samningar sem gerðir voru undir forystu Vinstri grænna. Eða á maður að segja Vinstri svartra, með tilvísun til svartra sanda og olíu?

Um er rætt að stofna sjóð til að taka við auðlindagjaldinu af olíuvinnslunni, líkt og Norðmenn gera til að tryggja afkomu komandi kynslóða. Hvers virði verða þeir peningar komandi kynslóðum, sem munu berjast við skelfilegar umhverfisafleiðingar þeirrar olíu sem brennt hefur verið? Verða lífvænleg umhverfisgæði keypt fyrir peninga eftir 40-50 ár? Sennilega ekki. Slíkur sjóður lýsir best hugsunarhætti þeirra sem í safna, þ.e. hugsunin nær ekki út fyrir naflann á þeim.

Ég ætla því að leyfa mér hér að leggja það til sem einskonar málamiðlun að íslenski olíusjóðurinn verði notaður til fjárfestingar eingöngu í umhverfisiðnaði og þróunaraðstoðar til handa þeim þjóðum sem verða verst fyrir barðinu á græðgi okkar Íslendinga.

Til að fjármagna rannsóknir á sviði endurnýtanlegra orkugjafa og sjálfbærni, fjárfestingar í fyrirtækjum á borð við Tezla Motors, byggingu flóðvarnagarða á Filippseyjum, Bangladesh og víðar. Aðeins þannig getum við, að hluta, bætt fyrir græðgi og skammsýni „gróðapunganna" á meðal okkar.

Þannig minnkum við líka mest skaðann fyrir komandi kynslóðir. Þá má einnig leiða að því líkum að umhverfisiðnaðurinn verði einn mikilvægasti og ábatasamasti „bissnesinn" í komandi framtíð. Slíkur sjóður er því einnig klókt framtak viðskiptalega séð fyrir íslenska þjóð og komandi kynslóðir.

Olíuvinnsla á Drekasvæðinu er eitthvert mesta og versta umhverfisvandamál sem íslendingar koma að. Einhver rofabörð utan við Þjórsárver eða raflína yfir Sprengisand er eins og lítið sandkorn í samanburði.

Eins og fulltrúinn frá Filippseyjum, grátbið ég samlanda mína að hugsa málið vandlega áður en gengið verður kringum „gleðinnar olíutunnu."

Kannski er kominn tími til að spyrja sig hvort stærðfræðijafnan „hagvöxtur = hamingja" sé rétt? Ef ekki, hvort viljum við hagvöxt eða hamingju?

Höfundur er rafmagnsverkfræðingur að mennt

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.