Áramótamarkmiðin
Núna í byrjun árs var ég að hangsa á Facebook, eins og svo oft áður. Þá birtist skyndilega uppfærsla frá frænku minni í í Reykjavík. Þetta var færsla í 50 liðum þar sem þessi ofurfrænka (allavega á Facebook!) setti sér markmið fyrir árið 2014.Fimmtíu markmið...ég hélt að kerlan væri orðin alveg rugluð, en þegar ég las yfir listann varð ég frekar hrifin. Og eftir því sem ég las hann yfir oftar, þeim mun heillaðri varð ég af þessari hugmynd.
Þetta voru ekki brjálæðislega erfið markmið (ég lýg því, eitt af þeim er að hlaupa NY maraþon), flest snérust um litla hversdagslega hluti sem gaman er að minna sig á (s.s. ekki þessi klassísku sem allir (enginn!) ákveður að gera um áramót, t.d. borða minna, borða hollar, mæta í ræktina o.s.frv.)
Ég tók mig því til og bjó mér til minn eigin 2014 markmiðalista. Ég hélt að minn yrði nokkur atriði en ég var fljótt komin upp í 50...og ég er ennþá að fá hugmyndir að einhverju til að bæta á listann minn. Hér koma nokkur markmið sem ég hef sett mér fyrir 2014...sum stolin frá frænku, en flest bara frá mér.
- Elda 12 rétti uppúr uppskrifabókum á árinu (á nokkrar bækur, langar í eitt og annað, elda alltaf það sama!)
- Óska fólki til hamingju með daginn á Facebook (það er gaman að fá kveðjur á afmælisdaginn sinn, hef verið helst til löt við að smella þeim á vegginn hjá fólki undanfarið)
- Prjóna meira (meira að segja komin með undirmarkmið, 5 pör vettlingar, 5 pör sokkar, 3 peysur, 1 sjal, 10 jólakúlur)
- fara í berjamó (í haust, duh!)
- taka til i handavinnudótinu (eiginmanninum til mikillar gleði væntanlega, m.a. þar sem þar leynast einhver götótt föt af honum sem frúin hefur ekki nennt að gera við)
- bjóða „nýju" fólki í mat (alltaf hugsar maður um þetta en er ekki nógu duglegur að framkvæma)
- slökkva á sjónvarpinu þegar ég (eða aðrir) erum ekki að horfa á það
- prófa ávaxta+grænmetis boost (á eitthvað erfitt með að setja spínatið útí)
- lesa 12 „nýjar" bækur á árinu (ekki alltaf að lesa sömu bækurnar aftur og aftur, við mæðgur förum á bókasafnið í hverjum mánuði, ætti ekki að vera erfitt !!)
- baka sörur (hef tæpt ár til að undirbúa mig)
- baka meira með eldri dótturinni (og jafnvel bjóða fólki í kaffi!!)
- framkalla myndir (fékk þau skilaboð frá tölvukarli að vera með afrit þar sem ég væri með svo mikið af myndum á tölvunni hjá mér...spurning um að koma þeim bestu úr tölvunni)
- setja myndir í ramma (fengum ramma í jólagjöf fyrir tveimur (þremur!) árum þar sem maður setur nokkrar myndir í rammann...það eru ennþá myndir af strönd og fjöllum og ókunnu fólki í rammanum...)
- vera með skemmtilegu fólki
- nýta afganga (allt of dugleg við að hunsa þá og henda þegar of langt er liðið)
- horfa á 5 GÓÐAR kvikmyndir (ekki alltaf þær sömu aftur...eða bara heilalausu gamanmyndirnar. Horfði t.d. loksins á Intouchables um jólin...hún var góð og svo skemmtileg, vúhú 1 af 5 komin )
- njóta hversdagsleikans
- segja betri brandara (fæ of margar augngotur frá eiginmanninum vegna lélegra fimmaurabrandara)
- nota tannþráð oftar (mér finnst það svooo leiðinlegt)
- setja oftar á mig maska og a.m.k. einu sinni heimatilbúinn
- fara með eldri dótturina á skauta (ooohh ætlaði að setja „tékk" við þetta markmið en við fórum á gamlársdag....en það var gaman svo ég hlakka til að fara aftur)
- fara með eldri dótturina í bíó
- vera dugleg að fara út að ganga með barnavagninn
- mála nokkur húsgögn (má mála tré húsgögn með akríl málningu ?)
- vera oftar með fínar neglur
- eignast a.m.k. eina handavinnubók (á alveg einhverjar, en langar í fleiri)
Ég ætla s.s að gera mitt besta á 2014 til þess að standa við þessi litlu markmið mín. Ef það tekst þá - vei fyrir mér! Nú ef ekki, þá er það ekki hættulegt.
Já og eitt markmið í viðbót
- komast að sem greinahöfundur á Austurfrétt!