Tíu bestu pólitísku gjörðir ársins
Austurfrétt fékk hóp sérfræðinga og áhugamanna til að leggjast yfir helstu aðgerðir stjórnmálamanna árið 2013 og velja þær bestu og verstu. Hér koma þær sem við teljum hafa verið þær bestu.1. Jón Gnarr hættir
Indíáninn og pönkarinn sem kom inn í kosningar og vann. Jón Gnarr hefur vakið athygli á kjörtímabilinu fyrir að vera einn af fólkinu fremur en stjórnmálastéttinni og fyrir einlæga og hispurslausa tjáningu. Hann hefur stigið fram í mannréttindamálum með yfirlýsingum í tengslum við Gleðigönguna og bræddi Yoko Ono og Lady Gaga með því að mæta sem Jedi-riddari.
Alltof algengt er að stjórnmálamenn þekki ekki sinn vitjunartíma. Jón Gnarr hefur hins vegar á fjórum árum vakið athygli heimspressunnar. Vissulega eru verk hans ekki hafin yfir gagnrýni en hann hættir með eins jákvæða ímynd og hægt er og ekki er vafi á að honum standa dyrnar opnar út í heim sem vinsæll ræðumaður.
2. Sigurinn í IceSave
Dómur féll í IceSave Íslendingum í vil í lok janúar. Menn gátu glaðst saman yfir niðurstöðunni og því að einhverju lengsta, leiðinlegasta og erfiðasta þrætumáli Íslandssögunnar var lokið.
3. Frammistaða Katrínar Jakobsdóttur
Báðir stjórnarflokkarnir skiptu um formenn fyrir kosningarnar í vor. Hjá Vinstri grænum var arftakinn tilbúinn, tímasetningin kom á óvart en skiptin fumlaus. Í kjölfarið var efnt til sóknar fyrir kosningarnar og flokkurinn stærði sig af þeim verkum sem unnin höfðu verið á kjörtímabilinu. Strax daginn eftir kosningar var farið að tala um Katrínu sem framtíðar forsætisráðherra og hún hefur haldið áfram á þeirri braut sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar það sem af er hausti.
4. Árni Johnsen hættir á þingi
Stór hluti kjósenda hefur aldrei áttað sig á hvernig þingmaður sem dæmdur var fyrir brot í starfi gat komist aftur til metorða. Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi gerðu sér loks grein fyrir að Árni væri dragbítur á ímynd og fylgi flokksins og skiptu honum út.
5. Norðfjarðargöng
Byrjað var að sprengja fyrir nýjum Norðfjarðargöngum í nóvember. Loksins, loksins. Á tímabili var uppi sterkur orðrómur um að verkefninu yrði frestað í hagræðingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar, en stjórnvöld settu verkefnið þvert á móti í forgang.
6. Sveitastjórnir sem hækkuðu ekki gjaldskrár
Þjóðarsáttin gekk út á það að hið opinbera lofaði umhverfi til að draga úr víxlhækkunum launa og vöru. Nokkur af stærstu sveitarfélögum landsins sýndu slíkan vilja í verki í lok árs þegar þau hættu við boðaðar gjaldskrárhækkanir til að leggja sitt af mörkum til að halda aftur af verðbólgunni. Önnur sveitarfélög, meðal annars á Austurlandi, höfðu þá þegar ekki gert ráð fyrir hækkunum á sínum gjaldskrám. Íbúar áttu þetta inni því undanfarin ár hafa álögur verið hækkaðar á þá til að fylla upp í tóma sveitasjóði.
7. Píratar
Oft er talað um að nýjan kost vanti til viðbótar við fjórflokkinn, fyrir þá sem hafa fengið nóg af honum. Píratar tefldu fram ferskasta kostinum. Í svörtum stuttermabolum og slitnum gallabuxum stigu þeir upp frá tölvuskjánum og fóru að tala um atriði eins og friðhelgi einkalífsins og aðra kosti í atvinnumálum en áður höfðu verið ræddir. Hugmyndaauðgin birtist í vikunni fyrir kjördag þegar þeir birtu mætingalista þingmanna. Víst er að Píratar eru til í alvörunni.
8. Framsóknarflokkurinn
Hversu illa sem sumum kann að vera við flokkinn þá átti hann fyrstu fjóra mánuði ársins. Hann öðlaðist trúverðugleika með IceSave-dóminum og talaði um skuldaleiðréttingar og afnám verðtryggingar í kosningabaráttunni sem lét vel í eyrum kjósenda. Í kosningabaráttunni náði flokkurinn að feta beinu línuna á meðan andstæðingarnir kepptust um að tortíma sjálfum sér. Og hversu umdeilt sem það er þá sýndu kjósendur með atkvæðum sínum að þeir vildu skuldaleiðréttingar í forgang. Flokkurinn stóð svo að eigin mati við stóra loforðið með tillögum sem kynntar voru í lok nóvember.
9. Kveðjuathöfn Jóhönnu Sigurðardóttur
Daginn fyrir kjördag safnaðist fólk saman fyrir framan Stjórnarráðið og færði fráfarandi forsætisráðherra rauðar rósir. Þó Jóhanna hafi oft verið umdeildur stjórnmálamaður þá var þetta einmitt réttur tími til að hefja sig upp yfir dægurþrasið. Yfirleitt er það þannig að stjórnmálamenn fá bara skammirnar en hér var um viðeigandi kveðjuathöfn að ræða fyrir merkan leiðtoga. Jóhanna var fyrsti íslenski kvenforsætisráðherrann, fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherrann á heimsvísu og ekki má heldur gleyma að hún tók við nánast vonlausu verkefni 2009 með þjóðarbúið í rúst eftir hrunið.
10. Varnarsigur Bjarna Benediktssonar
Vikum saman hafði verið sótt að Bjarna, utan flokks sem innan. Frambjóðendur voru orðnir hundleiðir á að verja hann á hverjum einasta fundi og að lokum kom kornið sem fyllti mælinn: könnun sem benti til þess að fleiri myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem formann.
Sennilega hefur Bjarni lokað sig af heilan dag inni í Valhöll með sínum ráðgjöfum sem hafa baunað á hann spurningum og prófað hugsanleg svör fyrir yfirheyrslu kvöldsins á RÚV. Bjarni mætti þar, auðmjúkur og svo tilfinninganæmur að honum tókst að skapa sér samúð. Hann varð aftur óumdeildur leiðtogi og tókst að koma flokknum í höfn í kosningabaráttunni. Sjálfstæðisflokkurinn fékk flest atkvæði allra flokka og settist á ný í ríkisstjórn.