Skapaðu þér sérstöðu og vertu stoltur af henni
Þjónusta er óáþreifanleg vara sem ekki er hægt að eiga en kemur viðskiptavini engu að síður til góða og fær hann til að tala vel um þig og koma aftur.Á Austurlandi erum við að upplifa mikla grósku í ferðamálum. Hingað koma sífellt fleiri ferðamenn bæði með skipum, flugi og bílum. Ekki nóg með að við séum rík af ferðamönnum þá höfum við vakið athygli kvikmyndatökufólks sem hefur áhuga á að nýta sér okkar fallegu auðlind, Austurland.
Okkar landsvæði bíður upp á svo margt og í framtíðinni veit ég að fleiri vilja njóta svæðisins. Það er því mikilvægt að spyrja hvort við sem samfélag séum tilbúin undir það. Tilbúin að veita góða þjónustu, taka aukaskref fyrir aðilann og gera dvöl þeirra ánægulega. Víst er að fjölmargir þjónustuaðilar eru nú þegar að standa sig mjög vel í því.
Það fyrsta og mikilvægasta er að senda út réttmæt loforð. Þetta snertir okkur öll og sérstaklega þá sem markaðssetja Austurland. Getum við lofað Norðurljósum? Nei, en við getum lofað eltingaleik við Norðurljós sem endar jafnvel í heitu baði utandyra. Getum við lofað góðu veðri? Nei, en við getum nefnt sjarmann við þokuna, rokið og rigninguna og hætt að hafa myndir af sól og logni í öllum auglýsingum.
Það að stýra væntingum og loforðum er mikilvægt. Dæmi um loforð: Þú ert með gistiaðstöðu, flokkar þig sem hótel en þú ert hvorki með salerni inni á herbergjunum eða móttöku fyrir gesti. Þú ert með verslun og auglýsir opnun alla daga en ert svo einungis með opið þrisvar í viku. Þú rekur kaffihús/bar en þeir sem vinna hjá þér hafa ekki nægilega þekkingu á kaffivélinni til þess að útbúa alla þá valmöguleika sem fyrir hendi eru. Á matseðlinum er fjöldinn allur af réttum en það er einungis hægt að gera nokkra þeirra þar sem viðskiptavinahópurinn er ekki nægilega stór til þess að standa undir hráefniskaupum í alla fjölbreytnina.
Ef þú sérð þig og þinn rekstur í þessum sporum er það í lagi því þessu er hægt að breyta. Gistiaðstöðu ætti jafnvel að flokka sig sem farfuglaheimili en ekki hótel. Verslunin gæti mögulega stytt opnunartímann og boðið upp á toppþjónustu t.d. þrisvar í viku. Kaffihúsið gæti fengið aðstoð frá sérfræðingi til að þjálfa þjóna upp í að gera gott kaffi. Veitingahúsið með alla réttina gæti búið til flottan matseðil með færri réttum og sparað þar með mikinn pening í hráefniskaupum og minnkað vonbrigði viðskiptavinarins sem fær ekki það sem hann langaði í og ekki var til.
Staðsettu þig rétt og lofaðu því sem þú getur staðið við. Þegar þú auglýsir eitthvað þá hefur viðskiptavinurinn vissar væntingar. Ef þú auglýsir að þú sért með bændagistingu býst viðskiptavinurinn ekki við hóteli. Ekki reyna að vera allt fyrir alla. Vertu bara það sem þú getur boðið uppá. Það er ekkert að því að vera staðurinn sem sérhæfir sig í kjötsúpu, já eða sjoppan sem tók ákvörðun að selja einungis hollan skyndibita.
Skapaðu þér sérstöðu og vertu stoltur af henni.
Nýttu þér þjónustu fagaðila sem í boði er á Austurlandi varðandi reksturinn þinn og fáðu aðstoð ef þú veist ekki hvað þú ert að selja, til hvers og hvaða sérstöðu þú getur boðið uppá. Orðspor okkar Austfirðinga er í húfi. Undirbúum okkur undir framtíðina í sameiningu og aukum ánægju heimafólks sem og ferðamanna með okkar gæðaþjónustu. Lofum rétt, stöndum við það sem við segjum, stýrum væntingum svo fólk verði ekki vonsvikið. Þetta skiptir okkur öll máli!