Nýbúinn – Íbúinn: Febrúar

asdis helga bjarnadottir jan14Eitt af því sem æskilegt er að nýbúar geri er að skrá lögheimili sitt í viðkomandi sveitarfélagi, þ.e. ef þeir stefna á að vera lengur en sex mánuði á staðnum. Fljótlega lagði ég því leið mína á skrifstofu Fljótsdalshéraðs. Fyrir allnokkru frétti ég að á hverju ári sendi sveitarfélagið bréf til nýbúa þar sem þeim er boðið að taka þátt í skrúðgöngu undir nýbúamerkjum í tengslum við Ormsteiti – við mismikla ánægju viðtakenda.

Ég átti því von á mikilli uppákomu þegar ég afhenti, með nokkru stolti, útfyllt eyðublaðið. Vonbrigðin leyndu sér ekki þegar viðtakandinn sagði bara: „Ég tek við þessu." Engar spurningar, engar upplýsingar til nýbúa og ekkert húllumhæ.

Ég varð engu nær um neitt er varðar mig og sveitarfélagið. Hélt því heldur súr út af skrifstofunni. Hvers vegna var ég að standa í þessu? Aðsetursbreyting hefði kannski verið nóg?

Eftir nokkra dvöl á Héraði tók ég eftir því að flestir eru með mjög útfærða flokkunaraðferðir á sorpi. Þaðan sem ég kem er tveggja tunnu flokkun – græn og grá. Þó eru mjög margir með lífræna flokkun sem hent er í kassa úti í garði eða farið með á gámastöð. Ungmennafélagið kemur reglulega í hús til að safna gler- og gosflöskum.

Það var því nokkuð ljóst að eitt í aðlögunarferlinu var að kynna sér frekar þessi mál, leiðin lá því að Íslenska gámafélaginu. Kaffiilminn lagði langt út á plan. Þar tóku indælir karlmenn á móti mér og leiddu mig í allan sannleikann um sorpflokkun á svæðinu sem og um það sem fólk klikkar á: 1) Frauðplast fer í almennt sorp, nema það sé merkt með plastmerki. 2) kassar undan mandarínum fara í almennt sorp eða í timburgáminn (vona að ég hafi náð þessu rétt).

Áður en ég kvaddi fékk ég tilheyrandi sorpflokkunarílát og upplýsingamiða um sorphirðu og flokkun, sem og að frekari upplýsingar væru að finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Hélt kát og glöð heim eftir þessar fínu móttökur.

Einn góðviðrisdag rölti ég um götur bæjarins. Mjög víða eru að finna óskaplega falleg hús sem og stóra og fallega garða. Sérstaklega vakti athygli mína ýmsar útfærslur á trjástofnum – trjám sem hafa verið söguð niður og stubbarnir fengið hlutverk sem kofar, fuglaböð, útsýnispallar o.fl. Mjög áhugavert.

Eitt truflaði mig þó á annars ágætri göngu. Reglulega þurfti ég að horfa niður þar sem gangstéttarnar eru nokkuð víða með ólistrænu munstri og í nokkrum víddum sem sjónsvið mitt náði ekki alveg að skynja. Ítrekað rak ég tær í misfellur og var nær farin á hausinn. Svona gerist þegar maður er forvitinn.

Eftir þetta ráp ákvað ég að leggja leið mína á veitingahús. Hef alltaf fundist notalegt að setjast niður með gott kaffi og meðlæti, rýna í blöð og fylgjast með fólki sem fer hjá. Ég þurfti líka að bæta upp orkutapið af göngutúrnum. Eftir að hafa komið mér fyrir með kaffi og girnilega ostaköku, gjóaði ég augunum eftir blöðum.

En, því miður lágu ekki frammi nein blöð, hvorki dagblöð, héraðsfréttablöð, tímarit, Dagskráin eða neitt slíkt nema, The Reykjavík Grapevine. Það blað fjallar 95% um það sem er að gerast í Reykjavík eins og nafnið ber með sér. Varð því engu nær um dægurmál svæðisins eða heimsmálin.

Það er alltaf gott veður á Héraði, segja heimamenn og brottfluttir Héraðsbúar. Er þetta ekki allt spurning um við hvað er miðað? Það hefur að minnsta kosti komið sér vel að vera vön að setja undir sig höfuðið og strunsa á móti vindi. Það hefur líka komið sér mjög vel að eiga þokkalegan útifatnað til að verjast vætunni.

Viðbrigðin frá Hvanneyri eru því afar lítil, veðurfarslega. Sömu stillurnar oft á morgnanna og á kvöldi. Það er því yndislegt, eins og áður, að taka göngutúr fyrir svefninn. Njóta þess að horfa á stjörnurnar, trjágreinarnar svigna undan snjónum, finna ilminn frá kamínum og heyra í fjarska snjóruðningstæki að störfum á Fjarðarheiði. Það er eitthvað notalegt og jafnvel heimilislegt við þetta, a.m.k. fyrir þann sem ekki þarf að leggja á heiðina.

Höfundur er búfjáreftirlitsmaður og nýbúi á Egilsstöðum

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.