Hugleiðing um hamfarabakkelsi, hugsanafrelsi og hefðbundnar staðalímyndir kvenna

hildur bergsdottir 0023 webÉg heiti Hildur, ég er hamfarakokkur!

Ég sker mig þannig illilega frá hefðbundnum kvenstaðalímyndum formæðra minn. Mig skortir nefnilega nánast alla þá natni, þolinmæði og vinnugleði sem þarf til að galdra fram kræsingar, á þann hátt sem formæður mínar langt aftur í ættir báru fram, geislandi í útsaumuðum kniplingasvuntum, í eldhúsum sem voru álíka geislandi og þar að auki með handbróderuðum gardínuköppum.

Þegar til minna kasta kemur í eldhúsinu verður tsk. óvart að msk. eða allra helst dassi, 10 mín í ofninum mögulega að því þar til mystískar reykjarslæður liðast um eldhúsið. Að viðureigninni lokinni minnir eldhúsið einna helst á súrrealíska harmræna senu úr evrópskri framúrstefnu kvikmynd, þar sem ægir saman ólíkum hráefnum um borð og bekki, áhöld ýmiskonar liggja sem hráviði um allar trissur og glaðhlakkalegt barn liggur á eldhúsgólfinu og gerir engla í hveitinu.

Þar sem ég stend mitt í óreiðunni og horfi á heimilisfólkið kveinka sér ámótlega undan hamfarabakkelsinu finnst mér sem ég heyri þytinn af pilsföldum formæðra minna sem fárast yfir ómyndarskap mínum. En ég læt það ekki á mig fá, heldur minni þær góðlátlega á að þrátt fyrir augljósa annmarka í eldhúsfimi hafi ég sitthvað annað til brunns að bera og hafi þrátt fyrir allt spjarað mig alveg bærilega í lífinu.

Í beinu framhaldi þakka ég í hljóði öllum þeim rauðsokkaklæddu Bríetum sem ruddust fram undan eldavélum og kröfðust þess að njóta réttinda og sannmælis á við karlmenn. Þess að konur skyldu vera metnar að verðleikum sökum gáfna sinna og hæfni til góðra verka á hinum ýmsu sviðum samfélagsins.

Meðan frelsistilfinning nútímakonunnar sem laus er undan oki hefðbundinna kvenstaðalímynda og óraunsærra samfélagsvæntinga, hríslast um mig, verður mér litið á auglýsingabækling sem læðst hefur inn um lúguna. Þar blasir við mér tölvuteiknuð ung kona bíkíníklædd, með tælandi augnaráð og ætli ásjónu hennar verði ekki best lýst með orðunum „hún var mittismjó, en meira af öðru hafði og ekkert af því lafði".

Ekki laust við að mér finnist hún taka undir með Ásdísi Rán og benda mér á í nokkuð ásakandi tón að „mér veitti nú ekki af því að fara í brúnkumeðferð" og „ég þurfi að taka mig verulega á ef ég ætla mér að komast í gallabuxur í stærð 6". Ja hver rækallinn, í stundarsælu hafði ég gleymt að staðalímynd kvenna hefur ekki horfið, bara breyst.

Í skilaboðum samfélagsins til kvenna, um hvernig þær eigi að vera, hafa ,,átján sortir á aðventunni" verið leystar af hólmi með kröfunni um að vera sæt, sexý og til í tuskið. Bótox og brasilískt vax komið í stað sleifa og kökukefla í verkfæratösku konunnar. Og af lostafullu augnaráði tölvuteiknaðrar kynsystur minnar að dæma þá hefur sæmdarheitið hamhleypa til allra verka, sem allar formæður mínar gátu státað af, hefðu þær ekki verið annálaðar fyrir lítillæti og auðmýkt mögulega öðlast aðra og kynferðisþrungnari merkingu.

Ja svei, nú eru góð ráð dýr því bíkíníið klæðir mig síst skár en svuntan. Verandi fjögurra barna móðir og hreint ekki fædd í gær þá læt ég ekki hugfallast. Minnug þess að þó sitthvað megi segja um samtíma okkar þá býður hann alltént upp á val, raunar endalaust val um alla skapaða hluti þar á meðal um hvernig ég hugsa og hvort eða hvernig ég læt strauma og stefnur samfélagsins móta mig.

Á þessari stundu nýti ég val mitt til að klappa fáklæddri kynsystur minni kumpánlega á öxlina í huganum, vona að hún finni sér skjólgóða flík í vetrarkuldanum og bíð henni jafnvel smá hamfarabakkelsi í nesti, henni virðist ekki veita af næringu. Held svo ótrauð áfram í að vera ég sjálf. Hamfarakokkur með hangandi brjóst, en hreint ekki verri fyrir vikið!

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.