Matur er mannsins megin..
..segir máltækið. Því er ég hjartanlega sammála. Mér finnst fátt dásamlegra en að sitja á góðum veitingastað og gæða mér á ljúfum mat og víni, helst í góðum félagsskap. Því þykir mér mjög miður að næsti veitingastaður sem uppfyllir þær kröfur sem matgæðingar gera til veitingahúsa skuli vera á Egilsstöðum. Ég þarf sumsé að keyra í klukkutíma til að kaupa þessa upplifun.Nú er ég ekki að halda því fram að það sé engin leið að kaupa ætan mat annars staðar en á Egilsstöðum. Ég hef oft fengið ágætan mat á veitingastöðum á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Ég hef bara mjög sjaldan fengið þá upplifun að ég sé á alvöru veitingahúsi hér niðri á fjörðum og ég held að allir áhugamenn um mat og matarmenningu deili þessari skoðun með mér. Afleiðingin er auðvitað sú að maður nennir ekki „út að borða" í Fjarðabyggð. Og það finnst mér barasta alveg ferlegt.
Ég ætla því, alveg ókeypis, að gera veitingamönnum hér á svæðinu þann greiða að útskýra hvað þarf til uppfylla mínar væntingar til veitingahúsa. Og eins og áður var gefið í skyn, þá tel ég að matgæðingar séu almennt sammála um þessar kröfur:
Þegar ég geng inn á veitingastað, þá vill ég koma inn í notalegt og snyrtilegt umhverfi
Ef einhver tónlist er á fóninum, þá er það lágstemmd tónlist sem truflar ekki samtöl eða dregur athyglina of mikið frá mat og samskiptum (og í guðs nafni ekki hafa stillt á FM957 eða Bylgjuna, því þá missi ég bæði matarlyst og lífsvilja).
Þegar ég geng inn á veitingastað, þá býst ég við því að hitta einhvern sem lætur mér finnast ég vera velkominn og vísar mér til sætis.
Um leið og ég er sestur lætur þessi sami aðili mér í té matseðil, segir frá rétti dagsins og býður upp á drykki.
Viðkomandi sækir svo drykkina og spyr hvort ég sé tilbúinn að panta eða hvort ég þurfi nokkrar mínútur í viðbót. Vilji svo ólíklega til að ég þurfi nokkrar mínútur aukalega, þá hefur þjónustuaðili auga með því hvenær ég er tilbúinn til að panta.
Hvað matseðilinn varðar, þá ættu eingöngu að vera á honum réttir sem matreiðslumaðurinn ræður við að elda, úr góðum hráefnum sem eru til taks þegar á þarf að halda. Annars ætti rétturinn ekki að vera á matseðlinum. Því er oftast vænlegt að hafa matseðil sem inniheldur fáa en pottþétta rétti. Mér finnst svo persónulega mjög æskilegt að veitingastaðurinn leggi sem mest upp úr ferskum lókal hráefnum.
Þegar ég panta á þjónninn að geta svarað spurningum um matinn. Hann á að vita í grófum dráttum hvað er í hverjum rétti og ef ekki þá á hann að bjóðast til þess af fyrra bragði að spyrja kokkinn. Ef ég panta steik, þá á að spyrja hvernig ég vilji fá hana eldaða.
Ég á ekki að þurfa að minnast á að ég vilji panta drykk með matnum. Það er eðlileg spurning þegar búið er að taka niður matarpöntun. Þjóninn á að geta ráðlagt mér um það hvaða vín gæti passað með hverjum rétti og hann á að geta lýst hverju víni í grófum dráttum (þurrt, ávaxtaríkt, sætt....) og hann á að þekkja og kunna að bera fram nöfn á helstu vínþrúgum og vita hvaðan vínin koma.
Eftir að pöntun hefur verið tekin á ekki að líða heil eilífð áður en fyrsti réttur kemur á borðið. Ég á helst að fá matinn minn á undan fólki sem pantar á eftir mér. Þetta á sérstaklega við ef biðin eftir matnum er í lengri kantinum.
Ef eitthvað er sérstakt við matinn sem er borinn fram (sem ekki var minnst á við pöntun), er sterkur leikur að segja frá því, hvort sem um er að ræða ferskleika, uppruna, meðhöndlun eða eldun.
Maturinn á að vera í samræmi við lýsingu á matseðli og óskir mínar um eldun. Kjöt á að vera steikt eins og ég bað um það og fiskur á ekki að vera ofeldaður eða þurr.
Þegar ég er byrjaður að borða finnst mér ágætt að vera spurður hvernig mér líki maturinn. Ef ég hef eitthvað út á matinn að setja, þá býst ég við liprum viðbrögðum (t.d. ef steikin er fullhrá...)
Þegar ég er búinn að borða vill ég að mér sé boðið að kíkja á eftirréttaseðilinn, jafnvel þótt ég hafi ekki pantað eftirrétt. Ég vil jafnframt að mér sé boðið kaffi eða drykkur. Ef ég spyr hvernig viskí eða koníak sé til, þá á þjóninn að geta svarað því eða náð í lista til að leyfa mér að skoða. Ef ég panta mér drykk þá vill ég fá hann borinn fram í viðeigandi glasi á viðeigandi hátt.
Þegar ég yfirgef staðinn þá vill ég fá kveðju sem bendir til þess að veitingamaðurinn hafi verið ánægður með að fá mig í heimsókn og vilji glaður sjá mig aftur.
Eflaust mætti telja upp fleira, en þetta er það helsta. Þetta virðist vera langur og ógnvekjandi listi, en þetta eru bara þær kröfur sem flestir sæmilega sjóaðir matgæðingar gera þegar þeir fara út að borða. Ef veitingahúsi tekst ekki að uppfylla eitthvað af þessum kröfum, þá tek ég undantekningalítið eftir því. Slík mistök eru auðvitað misalvarleg, en ef þau eru mörg, þá hefur það veruleg áhrif á upplifunina. Það er helst að maður fyrirgefi mistök ef viðmót er notalegt og þá tekur maður viljann fyrir verkið. Staðreyndin er sú að það vill enginn eyða 20.000 kalli í máltíð nema að þessar kröfur séu flestar sæmilega uppfylltar. Á síðustu árum hef ég borðað á sirka þremur stöðum hér eystra sem uppfylltu allar þessar kröfur sæmilega: Gistihúsinu Egilsstöðum, Hótel Héraði og Öldunni á Seyðisfirði.
Mér dettur ekki í hug að halda því fram að það sé einfalt mál að reka gott veitingahús hér „in the middle of nowhere," en margt af því sem finna má á þessum lista er alls ekki flókið. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju veitingahús á Héraði geta uppfyllt þessar kröfur, en ekki veitingahús í Fjarðabyggð (hér vill ég reyndar slá þann varnagla að það er orðið nokkuð langt síðan ég hef reynt að fara út að borða á sumum veitingahúsum í Fjarðabyggð og að ég prófaði ekki t.d. Randulfssjóhúsið í sumar..).
En...eníveis...þetta er það sem til þarf að mínu mati. Ég fer ekki að eyða alvöru peningum í að fara út að borða nema að sem flestum þessara krafna sé mætt.
P.S: Smá viðbót um vín: Velja þarf vandlega á vínlista. Vín þurfa að vera í samræmi við þann mat sem er í boði. Ef áherslan er á steikur, þá þurfa að vera til einhver kick-ass rauðvín sem ganga með alvöru steik. Allir alvöru veitingastaðir eru með sæmilegt vín sem „vín hússins". Og plís ekki hafa „Gato Negro" eða „Drostdy Ho"" sem vín hússins. Það er ekkert mál að finna ljúf, vönduð og fjölhæf vín frá t.d. Ítalíu og Frakklandi á samkeppnishæfu verði sem eru mun áhugaverðari en þessi dæmigerðu húsvín.