Dómgreindarleysi eða dónaskapur?

fanney sigurdardottirÉg heiti Fanney Sigurðardóttir og er búsett á Egilsstöðum. Í desember síðastliðnum ákváðum við vinkonurnar að fara á til Reykjavíkur á jólatónleika Sigríðar Beinteins í Háskólabíói. Við keyptum miða á midi.is en þar sem ég er bundin við hjólastól og ekkert hægt að gera grein fyrir því þegar miðarnir eru keyptir, ákvað ég að hringja í Háskólabíó til að kanna hvernig aðgengi þar væri háttað.

Starfsmaður tjáði mér að það væri ekkert mál fyrir hjólastólafólk að að koma á viðburði hjá þeim og hann sagðist ætla að láta starfsfólkið vita að ég væri væntanleg. Og til að kóróna allt saman, lét þessi elskulegi maður mig hafa símanúmerið sitt og nafn ef að eitthvert vesen yrði.

Þegar við vinkonurnar mættum í Háskólabíó á tónleikana, var mér strax vísað á þennan ákveðna starfsmann til að fá upplýsingar um það hvar ég ætti að vera í salnum. Ég kynnti mig og rifjaði upp símtal okkar sem hann kannaðist alveg við.

Mér fannst engu að síður sérkennilegt að í þessu spjalli, beindi hann alltaf orðum sínum að vinkonu minni. Hann sagðist ætla að sýna okkur hvar við yrðum staðsettar, vinkona mín fylgdi honum að sjá staðinn, en hann sagði mér að bíða því að þetta tæki svo stuttan tíma.

Þegar tímabært var að fara inn í salinn þá sýndi hann mér pallalyftu sem lá ofan á stiganum. Lyftunni var stjórnað með sveif sem ég ætlaði að stjórna sjálf en maðurinn taldi greinilega að ég þyrfti frekari hjálp því hann hélt sveifinni niðri og labbaði með lyftunni sem fór á hraða snigilsins upp stigann. Þegar upp var komið, tók við milligólf og stúka fyrir ofan og neðan.

Ég hélt að ég yrði við enda annarrar stúkunnar og vinkona mín við hliðina á mér, en svo var ekki. Starfsmaðurinn sagði okkur að við ættum að vera á þessu milligólfi og vinkona mín var sett á eldhússtól við hliðina á mér. Hvorug okkar var því í raun að fá það sem við borguðum fullt verð fyrir, þ.e. sæti.

Í hléinu bauð Sigga uppá konfekt og jólaöl og vinkona mín fór að sækja það fyrir okkur. Á meðan ég beið eftir henni kemur starfsmaður hússins og ég taldi í einfeldni minni að hann ætlaði ef til vill að bjóða mér að fara niður í hléinu en svo reyndist hreint ekki vera.

Áður en ég vissi af, hafði hann snúið hjólastólnum á hlið og sagði um leið að það færi minna fyrir mér svoleiðis á meðan fólkið væri á ferð í hléinu. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum en náði ekki að svara fyrir mig því hann hvarf jafn snögglega af braut og hann hafði birst.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessar móttökur sem voru talsvert aðrar en ég hafði vonast eftir. Ég velti því fyrir mér hvort þeir einstaklingar sem eru í hjólastól og mæta í Háskólabíó séu ávallt meðhöndlaðir sem mállausir og settir til hliðar sem annars flokks. Þannig upplifði ég að minnsta kosti mína fyrstu tónleikaferð í Háskólabíó sem fullorðinn einstaklingur.

Ég sæki talsvert tónleika og hef farið nokkru sinnum í Hörpu og Laugardalshöll og aldrei upplifað neitt þessu líkt, þvert á móti. Þar hef ég fengið sérstaka stúku fyrir hjólastólinn þannig að ég sá vel og naut tónleikana eins og aðrir, án þess að upplifa mig sem annars flokks gest.

Vert er að taka það fram að þrátt fyrir þessar móttökur voru tónleikarnir góðir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.