Útrýmum ofbeldi gegn börnum

vitundarvakning neskFræðsluþing Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum var haldið í Neskaupstað þriðjudaginn 25. febrúar s.l. að frumkvæði Verkmenntaskóla Austurlands. Slíkt fræðsluþing var haldið á Reyðarfirði í október 2013 fyrir íbúa Fjarðabyggðar en Norðfirðingum fannst ástæða til að halda einnig slíkt þing í Neskaupstað með það að markmiði að ná til sem flestra sem starfa með börnum.

Á Norðfirði eru stærstu leik- og grunnskólar Fjarðabyggðar, auk Verkmenntaskóla Austurlands og Fjórðungssjúkrahússins. Stór hluti starfsmanna þessara stofnanna mætti og einnig fólk frá íþróttahreyfingunni, lögreglunni og víða annars staðar úr samfélaginu. Þörfin var greinilega mikil því 120 manns tóku þátt og er þetta eitt fjölmennasta fræðsluþing Vitundarvakningarinnar.

Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi varðandi ofbeldi gegn börnum. Um er að ræða samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta, innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis sem hófst árið 2011.

Fræðslunni er einkum beint að réttarvörslukerfinu, fólki sem starfar með börnum og að börnunum sjálfum. Brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu, sem nú er sýnt í öllum 2. bekkjum, er liður í fræðsluátakinu og einnig stuttmyndin Fáðu já! sem dreift hefur verið til allra grunn- og framhaldsskóla.

Umfjöllunarefni fræðsluþingsins var áhugavert en sumt var líka erfitt og átakalegt. Brynhildur Björnsdóttir dagskrárgerðarkona ræddi um fræðsluefni fyrir börn, Hjördís Eva Þórðardóttir réttindafræðslufulltrúi hjá UNICEF fjallaði um réttindafræðslu og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Þorbjörg Sveinsdóttir sálfræðingur í Barnahúsi ræddi einkenni þolenda kynferðisbrota, skaðlega kynhegðun barna og klám og Stefán Eiríksson lögreglustjóri fjallaði svo um rannsóknir kynferðisbrota og annarra brota gegn börnum. Að lokum stýrðu svo fyrirlesarar umræðum í hópum.

Vegna gífurlegs áhuga á fræðsluþinginu dugði fyrirlestrarsalur Verkmenntaskóla Austurlands ekki til og var það því fært í góðan fyrirlestrarsal Nesskóla. Ég vil þakka Norðfirðingum kærlega fyrir þessa miklu þátttöku sem sýnir að við búum í góðu samfélagi þar sem íbúar standa saman í því verkefni að útrýma hvers kyns ofbeldi gegn börnum.

Höfundur er íslenskukennari og jafnréttisfulltrúi VA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar