Svissneskur Seyðfirðingur „fyrir Íslands hönd"

huginn 100ara 0014 webEins og alþjóð er kunnugt er List með stóru L-i í hávegum höfð á Seyðisfirði. Má þar nefna Skaftfell - miðstöð myndlistar á Austurlandi, Lunga - listahátíð ungs fólks sem haldin er árlega og ungir listamenn og leiðbeinendur víða að úr heiminum sækja. Afkvæmi Lunga-hátíðarinnar er Lungaskólinn - Listalýðháskóli, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Hann mun hefja starfsemi sína nú í mars.

Listaháskóli Íslands, í samvinnu við Skaftfell-Dieter Roth Academy, sendir árlega 10-20 listnema til Seyðisfjarðar að vetri til þar sem þeir starfa með kennurum og heimamönnum að viðfangsefnum sínum nokkrar vikur. Nokkrir erlendir og íslenskir listamenn dvelja á Seyðisfirði um lengri og skemmri tíma. Sumir hafa fest sér húsnæði á staðnum og búa þar mislangan tíma í senn.

Einn þessara listamanna er svissneski Seyðfirðingurinn Cristoph Buchel sem býr með íslenskri konu sinni Nínu Magnúsdóttir. Þau keyptu fyrir rúmum 6 árum húsið Þórshamar við Hafnargötu 25 (byggt 1882) á Búðareyrinni. Það hafa þau endurbyggt og innréttað þar vinnustofu og komið sér upp heimili. Börn þeirra sækja nú skóla á Seyðisfirði. Tillaga Cristophs var valin sem framlag Íslands til sýningar í íslenska skálanum í Tvíæringnum í Feneyjum. Nína verður þar sýningarstjóri.

Fyrri reglur um val fagráðs á listamönnum til Tvíæringsins hafa sennilega þótt staðnaðar. Að minnsta kosti var reglum þessum nú breytt til þess m.a., að sögn framkvæmdastjóra íslenska skálans, að „opna fyrir hið óvænta". Það virðist svo sannarlega hafa tekist.

Eitthvað virðist það fara fyrir brjóstið á nokkrum listfræðingum þjóðarinnar sem hafa kosið að tjá sig. Helst er áberandi að þeir virðast lítt þekkja til listamannsins, enda Cristoph ekki búsettur í 101 Reykjavík. Hann dvelur m.a. á landsbyggðinni með fjölskyldu sína, nánar tiltekið í litlum alþjóðlegum kaupstað á Austurlandi sem heitir Seyðisfjörður.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur veltir þessu fyrir sér og skrifar athygliverða grein í Morgunblaðið þann 17. febrúar sem ber yfirskriftina „Fyrir Íslands hönd". Þar skrifar hann m.a. „Sjálfur hefi ég ekki heyrt manninn nefndan og jafnvel Morgunblaðið ekki heldur".

Áfram skrifar hann „Fyrsta sinni er gengið framhjá mörgum íslenskum listamönnum sem hafa lagt mikið til myndlistarlífs í landinu á liðnum árum" og hann spyr „Eru það næg meðmæli með erlendum listamanni að hafa sýnt hér tvisvar í mýflugumynd árið 2008?" og „Ennfremur má setja spurningamerki við þá ákvörðun Kynningarmiðstöðvar að fela eiginkonu listamannsins stjórn sýningarinnar."

Ég tel rétt að láta öðrum mér skarpari á „leikvelli listarinnar" að meta þessar hugleiðingar listfræðingsins en vil koma eftirfarandi á framfæri.

Listamenn koma og fara eins og farfuglarnir og dvelja þar sem þeir nærast best á hverjum tíma. Það hafa þeir gert um aldir. „Listin er án landamæra" heyrist oft. Í því umhverfi og viðmóti sem Seyðisfjörður skapar listafólki sínu, íslensku og erlendu, á það vel við.

Það er því ekki tilviljun að nokkrir ungir og eldri listamenn velja að dvelja þar mislengi til þess meðal annars að sækja sér rétt andrými, tengingu, skerpa á listagyðjunni og sækja sér fóður til sköpunar. Eigum við ekki að óska Cristoph og Nínu til hamingju með verkefnið, sem til þess réttbærir aðilar völdu, og óska þeim góðs gengis sem verðugir fulltrúar Íslands í Feneyjum?

Höfundur er eldri borgari á Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar