Það þarf engin kona að skammast sín fyrir fæðingarþunglyndi
Á dögunum var viðtal á Stöð 2 við unga konu sem lýsti sinni reynslu af fæðingarþunglyndi. Mjög áhugavert viðtal þar sem móðirin sagði á opinskáan hátt frá reynslu sinni. Margt í viðtalinu hljómaði óþægilega kunnuglega í mínum eyrum og ýfði upp erfiðar minningar.Þess vegna ákvað ég að fara sömu leið og lýsa minni reynslu af þessum dulda vágesti sem fæðingarþunglyndi getur verið, bæði í því skyni að létta af mér þeirri byrði sem slíkar minningar eru og ekki síður ef ske kynni að mín reynsla gæti hjálpað einhverjum í sömu sporum.
Dóttir mín er fædd í ágúst árið 2004. Meðgangan hafði gengið eins og í sögu og sama var að segja um fæðinguna sjálfa, barnið heilbrigð og falleg stelpa, alveg mátulega stór fyrir smávaxna móður. Fyrstu dagarnir liðu eins og í móðu þar sem við fengum að kynnast hvor annarri í öruggu umhverfi sjúkrahússins á Neskaupstað.
Ekkert rak á eftir okkur heim og ljósmóðirin hvatti mig jafnvel til að vera lengur. En sú staðreynd að bóndi minn var á leið í skóla suður á landi tveimur dögum síðar varð til þess að ég afþakkaði boðið og fór heim.
Auðvitað á það að vera eintóm gleði að koma heim af fæðingardeild með heilbrigt barn. En þar sem við ókum um fjallvegi og firði frá Norðfirði til Egilsstaða þyrmdi yfir mig, tárin fóru að renna og mér fannst ég engan veginn ráða við þetta nýja hlutverk. Heima biðu tvö eldri stjúpbörn með sínar kröfur og heimilisfaðirinn að fara í burtu í tíu daga!
Síðar reyndi ég að ræða líðan mína við hann. "Hvaða vitleysa, þú getur þetta víst" eða "hættu þessum aumingjaskap" voru einu svörin úr þeirri áttinni. Næst reyndi ég að tala um þetta við mömmu. "Elskarðu þá ekki barnið þitt?" var hennar svar. Ég veit að þau sögðu þetta ekki af illum hug, heldur aðeins af vanþekkingu.
Mín vanþekking var líka algjör. Í staðinn fyrir að senda ákveðnari hjálparbeiðni tók ég þessi orð þeirra sem staðfestingu á því að vanlíðan mín var bara mín eigin vitleysa og ég ætti bara að skammast mín fyrir þvílíkt vanþakklæti.
Hvorki í mæðraskoðunum á meðgöngunni, né heldur í vitjunum hjúkrunarfræðings fyrstu vikurnar eftir fæðingu var minnst á líðan móðurinnar. Barnið var heilbrigt í alla staði og ég líkamlega hress... hvern fjandann hefði ég átt að vera að kvarta? Jú vissulega var ég þakklát og lærði fljótlega að elska barnið mitt af öllu hjarta og rúmlega það. Hvers vegna leið mér þá svona illa?
Þannig leið tíminn í heil þrjú ár, sá dýrmæti tími sem ég hefði átt að njóta þess að fylgjast með dóttur minni vaxa og þroskast leið í tómu svartnætti. Það sem hjálpaði mér mest að lokum var námskeið í hugrænni atferlismeðferð eða HAM sem byggir í mjög einföldu máli á því að ná stjórn á eigin hugsunum og um leið eigin líðan. Þetta námskeið, breytt hugsun ásamt hollri hreyfingu og útivist hjálpaði mér út úr svartnættinu.
Margt getur ýtt undir fæðingarþunglyndi. Í mínu tilviki held ég að þar eigi stærstan þátt rósrauðar væntingar um móðurhlutverkið og sambúðarerfiðleikar. Til að bæta gráu ofan á svart fékk ég óvænta og fyrirvaralausa uppsögn þegar ég mætti til starfa eftir fæðingarorlof.
Það er vissulega sæla að vera móðir en ekki eintóm sæla. Svefnlitlar nætur, óbærileg þreyta, samviskubit yfir þvottafjallinu eða óhreina gólfinu voru einfaldlega ekki til umræðu í mæðraskoðuninni.
Núna, níu árum síðar er ég reynslunni ríkari og myndi gera margt öðruvísi við barn númer tvö. En þar sem barn númer tvö verður líklega aldrei að veruleika í mínu tilviki get ég aðeins ráðlagt nýbökuðum mæðrum sem finna fyrir vanlíðan.
Leitið ykkur hjálpar, ekki burðast með samviskubit yfir eigin vanmætti. Ef ykkar nánustu eru ekki tilbúnir að styðja ykkur, talið þá við heilbrigðisstarfsfólk. Það þarf engin kona að skammast sín fyrir fæðingarþunglyndi.