Samtal við samfélagið eða brotakenndar myndir – Svæðisútvörpin og Landinn

hrafnkell larusson headshotEftir að stjórnendur RÚV ákváðu síðla árs 2009 að leggja niður svæðisbundnar útsendingar starfsstöðva stofnunarinnar á landsbyggðinni (en þær hættu snemma árs 2010) voru kynntar nýjungar í dagskrárgerð sem ætlað var að koma í stað þeirra. Sá dagskrárliður sem mest var haldið á lofti í því efni var frétta- og þjóðlífsþátturinn Landinn, sem hóf göngu sína árið 2010. Hann var kynntur sem hluti af viðleitni RÚV til að bæta þjónustu við landsbyggðina og hefur verið fastur liður á vetrardagskrá Ríkisútvarpsins síðan.

Eins og flestum er kunnugt hefur Landinn átt sinn sess eftir sjónvarpsfréttir á sunnudagskvöldum, sem er einn besti útsendingartími fyrir sjónvarpsefni, en þátturinn hefur notið umtalsverðra vinsælda meðal áhorfenda. Landinn hefur frá byrjun verið undir ritstjórn Gísla Einarssonar, frétta- og dagskrárgerðarmanns.

Tilurð könnunar

Í júní 2013 hófst vinna við rannsókn á svæðisbundinni fjölmiðlun á Íslandi á tímabilinu 1985-2010. Um er að ræða tímabundið rannsóknarverkefni sem unnið er á vegum Háskóla Íslands, en að því hef ég starfað sjálfstætt. Meginmarkmið rannsóknarinnar eru annars vegar að meta gagnkvæm áhrif svæðisbundinna fjölmiðla og nærsamfélög þeirra og hins vegar hvort svæðisbundnir fjölmiðlar eigi þátt í að móta sjálfsmynd íbúa síns svæðis og með hvaða hætti það birtist. Rannsóknin miðast einkum við svæðisbundna fjölmiðlun á Austurlandi en hefur líka víðari skírskotun.

Ríkisútvarpinu eru í lögum og þjónustusamningi við ríkið falin ýmis hlutverk, þ.á m. almannaþjónustuhlutverk, en í því felst m.a. að RÚV leitist við að þjónusta íbúa alls landsins. Með hliðsjón af þessu hlutverki, niðurlagningu svæðisbundinna útsendinga RÚV og endurtekinna fullyrðinga forsvarsmanna RÚV og ritstjóra Landans þess efnis að Landinn hafi fyllt í skarðið sem svæðisstöðvarnar skildu eftir í þjónustu við landsbyggðina, taldi ég ástæðu til að leggja örlitla lykkju á leið minnar rannsóknar. Hún fólst í að kanna efnisval og uppruna efnis Landans á ákveðnu tímabili og nota til samanburðar við niðurstöður rannsóknar minnar á hlutverki og efnistökum Svæðisútvarps Austurlands. Hér er þó vitanlega um sitt hvort tímabilið að ræða enda verið að meta þróun, þ.e. hvað var áður gagnvart því hvað er nú.

Vegna takmarkaðs tímaramma sem rannsókn mín á svæðisbundinni fjölmiðlun er unnin innan gat ég ekki leyft mér að gera heildarúttekt á efnisvali og uppruna efnis í Landanum frá upphafi til þessa dags, enda er hér um útúrdúr að ræða sem ákveðið var í janúar sl. að bæta við rannsóknina. Könnunin miðast því við 19 þætti á yfirstandandi vetri, frá fyrsta þætti vetrarins þann 6. október 2013 til 9. febrúar 2014. Síðari tímamörkin ákvarðast af því að tími rannsóknarinnar var senn á þrotum, öðrum þáttum hennar ólokið og skilafrestur lokaskýrslu nálgaðist.

Þær spurningar sem lagt var upp með eru eftirfarandi:
a) Hvert er efni Landans sótt?
b) Hvaða dagskrárgerðarmenn vinna efnið?
c) Hverjar eru helstu áherslur í ritstjórn þáttarins?
d) Hvers konar efni kemur frá Austurlandi og hversu mikið er það?

Niðurstöður könnunar

Í grein sem þessari gefst ekki rúm til ræða allt það sem könnunin leiddi í ljós. Hér verður athyglinni því einkum beint að uppruna efnis í Landanum og hlutfalls austfirsks efnis, en þó eru í lok greinarinnar birtar helstu ályktanir og svör við öllum fjórum spurningunum hér á undan.

Í mynd 1 [sem sjá má með að fletta myndunum hér að ofan] gefur að líta skiptingu innslaga eftir landshlutum. Af myndinni má sjá að flest innslög koma frá Reykjavík (23), Norðurlandi eystra (19), Vestfjörðum (15) og Suðurlandi (11). Af innslögunum frá Norðurlandi eystra eru 15 úr Eyjafirði, 3 úr Mývatnssveit og 1 frá Húsavík.

Yfirleitt er tilgreint í þættinum til hvaða byggðarlags eða sveitarfélags efni hvers innslags er sótt. Þetta er þó ekki alltaf gert og því þurfti í nokkrum tilvikum að meta út frá viðmælendum eða öðrum upplýsingum hvert innslagið væri sótt. Niðurstaðan varð sú að af 102 innslögum voru 96 skráð á sveitarfélag eða byggðarlag, fjögur ótilgreind og tvö frá Grænlandi. Hafa ber í huga að nokkur innslög höfðu víða skírskotun, þ.e. fjölluðu um efni sem snertir mestan hluta landsins eða landið allt. Þar var þó aðeins um að ræða um tug tilvika, sem flest voru skráð á Reykjavík eða Akureyri þar sem viðmælendur voru sóttir þangað.

Á myndinni er mjög afgerandi hversu fá innslög eru upprunnin á Austurland og Suðausturlandi (Múlasýslum og A-Skaftafellssýslu) miðað við aðra landshluta, en þaðan koma aðeins 9 innslög af 96 sem tilgreind eru. Það þýðir að innslag upprunnið úr Austurlandsfjórðungi birtist að jafnaði einungis í öðrum hverjum þætti Landans.

Í mynd 2 gefur að líta skiptingu innslaga eftir umsjónarmönnum (EÞ: Einar Þorsteinsson – GE: Gísli Einarsson – GP: Guðmundur Pálsson – KS: Kristín Sigurðardóttir – SH: Sigríður Halldórsdóttir – ÞO: Þórgunnur Oddsdóttir – ÞÓ: Þórhildur Ólafsdóttir). Af töflunni má sjá að Gísli og Sigríður eru samanlagt með rúman helming innslaga tímabilsins (56 af 102). Dagskrárgerðarmenn Landans sem búa á Akureyri (Þórgunnur og Þórhildur) eru með fæst innslög þeirra sem hafa reglulega innkomu í þáttinn (samtals 17). Þeirra innslög eru raunar færri en þau sem eiga uppruna á Norðurlandi (alls 23). Aðrir dagskrárgerðarmenn Landans eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu (Einar, Guðmundur, Kristín og Sigríður) og í Borgarnesi (Gísli).

Athyglisvert er að einungis tveir umsjónarmenn Landans, Gísli og Sigríður, gera innslögin sem koma frá Austurlandi, en þau eru bæði búsett mun fjær Austurlandi en Þórgunnur og Þórhildur.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að sé litið á skiptingu efnis Landans eftir landshlutum rekur Austurland lestina (með 9 innslög) og nær ekki að vera hálfdrættingur á við þá fjórðunga sem koma þar næstir á undan (Suðurland og Vesturland með 19 innslög hvor). Athygli vekur að af einstökum landshlutum skuli flest innslög eiga uppruna sinn í Reykjavík en það er í nokkurri mótsögn við þá ímynd þáttarins að hann sinni fyrst og fremst málefnum landsbyggðarinnar.

Helmingur fastra dagskrárgerðarmanna Landans býr á höfuðborgarsvæðinu, einn á Vesturlandi og tveir á Norðurlandi. Höfuðborgarsvæðið og Norðurland (einkum þó Eyjafjarðarsvæðið) eru með flest innslög einstakra svæða og er freistandi að setja það í samhengi við búsetu dagskrárgerðarfólksins. Hér mætti benda á að þetta séu tvö þéttbýlustu svæði landsins og með tilliti til búsetudreifingar sé þetta eðlilegt, en það skarast aftur óhjákvæmilega við hugmyndina um Landann sem landsbyggðarþátt. Á móti má líka benda á að Vestfirðir eru sá landshluti sem er í þriðja sæti hvað varðar fjölda innslaga, en þar eru íbúar færri en t.d. á Suðurlandi, Suðurnesjum eða Austurlandi.

Efnisval Landans er fjölbreytt og er óhætt að hrósa dagskrárgerðarfólki hans fyrir að vera á tíðum hugmyndaríkt á því sviði. Áberandi þættir í efnisvalinu eru þó umfjöllunarefni sem mjög hafa verið til umræðu í samfélaginu undanfarin misseri, s.s. ferðaþjónusta, tónlist og ýmis náttúrutengd umfjöllunarefni. Sérstaka athygli vekur áhersla á matarmenningu, einkum ýmis konar matarhefðir, flestar þjóðlegar og þekktar en þó ýmsar minna kunnuglegar. Einnig er vert að staldra við að rúman fjórðung innslaga Landans má flokka sem kynningu á vöru eða þjónustu.

Áherslur þeirra dagskrárgerðarmanna Landans sem sækja efni á Austurland (Sigríðar og Gísla) eru nokkuð ólíkar. Á meðan innslög Sigríðar hverfast um náttúru svæðisins, með einum eða öðrum hætti, eru innslög Gísla fjölbreyttari. Hve innslögin eru fá gerir hins vegar að verkum að erfitt er að draga af þeim ályktanir um ritstjórnaráherslur.

Hlutverk Svæðisútvarps Austurlands

Síðustu árin sem Svæðisútvarpið starfaði sendi það út fjóra daga vikunnar (undir það síðasta voru útsendingar fimm daga) í um 30 mínútur í senn. Almennt byggðust svæðisbundnar útsendingar á fréttum, auglýsingum og viðtölum og/eða umræðum. Hver hlutföll efnis innan útsendingar voru gat verið breytilegt en algengt var að þau væru 15% auglýsingar, 35% fréttir og 50% viðtöl eða umræður. Allt efnið var um Austurland eða austfirsk málefni. Til viðbótar við svæðisbundnar útsendingar sinnti frétta- og dagskrárgerðarfólk Svæðisútvarpsins fréttaöflun fyrir fréttastofu RÚV (bæði útvarp og sjónvarp) auk innslaga í þætti á landsrásum og sérstakrar dagskrárgerðar fyrir landsrásir. Fréttamaður RÚV sem nú starfar á Austurlandi sinnir nær eingöngu fréttaöflun fyrir landsrásir (útvarp og sjónvarp), en hluti austfirskra frétta þar hefur þó ekki aukist þrátt fyrir breytinguna.

Starfsemi Svæðisútvarpsins sinnti, gagnvart Austurlandi öllu, þeim þremur hlutverkum sem ætlast er til af hefðbundnum fjölmiðlum, þ.e. aðhalds-, upplýsinga- og umræðuhlutverkum. Aðhaldshlutverkinu var t.d. sinnt með fréttaflutningi af framkvæmdum, atburðum og ákvörðunum er vörðuðu almenning á svæðinu og upplýsingahlutverkinu með auglýsingum fyrir viðburði, umfjöllunum um atvinnu- eða menningarlíf og almennum fréttum, svo dæmi séu tekin. Umræðuhlutverkinu var svo m.a. sinnt með því að fá aðila til að skiptast á skoðunum um álitamál er vörðuðu fjórðunginn og ákveðin byggðarlög innan hans eða með viðtölum við forsvarsmenn sveitarfélaga um efni er snertu almenning (s.s. opinberar framkvæmdir eða skólamál). Af þessu má sjá að hlutverk Svæðisútvarpsins var víðtækt og snerti marga þætti samfélagsins og var ekki síst mikilvægt fyrir lýðræðislega umræðu og skoðanaskipti.

Ályktanir

Sem fyrr segir leiðir könnunin í ljós að stór hluti efnis Landans er uppruninn í stærstu þéttbýliskjörnum landsins. Á þeim takmarkaða tíma sem er til ráðstöfunar í vikulegum hálftímalöngum sjónvarpsþætti segir sig nokkuð sjálft að ýmis byggðarlög verða afskipt og innslög upprunnin þaðan sjást sjaldan eða ekki. Landinn sækir þó efni víða um landið, en það „landsbyggðaryfirbragð" sem er á honum er þó öðru fremur birtingarmynd þess hversu lítið efni ættað frá landsbyggðinni er á dagskrá RÚV. Í sumum sjónvarps- og útvarpsþáttum RÚV telst það nánast til tíðinda að sóttir séu viðmælendur út fyrir höfuðborgarsvæðið.

En hver er munurinn á þeirri þjónustu sem Landinn veitir Austurlandi og þeirri sem Svæðisútvarp Austurlands veitti? Hann er mjög skýr. Svæðisútvarpið sinnti viðamiklu og fjölþættu hlutverki. Það hélt uppi öflugri fréttaþjónustu, innan svæðis og utan, og sinnti annarri upplýsingadreifingu ásamt því að styðja við lýðræðislega umræðu. Svæðisútvarp Austurlands sendi út í um 480-600 mínútur á mánuði (120-150 mínútur á viku). Þó útsendingar þess væri bundnar við starfssvæðið var efni Svæðisútvarpsins síðustu árin aðgengilegt á vefnum þannig að fólk gat nálgast það hvar sem var í heiminum.

Svo viðamiklu hlutverki sem Svæðisútvarpið gerði skil getur vikulegur sjónvarpsþáttur eins og Landinn ekki sinnt. Formið leyfir það einfaldlega ekki. Meðan svæðisútvörpin gátu átt í samtali við samfélagið getur Landinn einungis miðlað af því brotakenndum myndum. Gagnvart Austurlandi sinnir þátturinn einungis mjög takmörkuðu upplýsingahlutverki (að jafnaði tvö ca. fimm mínútna löng innslög frá Austurlandi á mánuði). Til viðbótar er sú hætta ávallt til staðar þegar frétta- eða dagskrárgerðarmenn sækja efni um langan veg að efnisumfjöllunin verði grunn og tilviljanakennd vegna þess að viðkomandi hefur takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu og samfélagsgerðinni.

Eins ágætur sjónvarpsþáttur og Landinn jafnan er þá var hann fyrst og fremst viðbót við íslenska dagskrárgerð í sjónvarpi þegar hann hóf göngu sína. Sú fullyrðing að Landinn hafi komið í stað Svæðisútvarpanna (tilkoma þáttarins hafi jafnvel verið þjónustuaukning við þá landshluta sem áður höfðu svæðisútvarp) stenst hins vegar ekki skoðun og er í raun fráleit. Henni hefur enda jafnan verið slegið fram án teljandi rökstuðnings. Þetta tvennt er ekki sambærilegt og hefur aldrei verið það.

Höfundur er sagnfræðingur og verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands.

landinn hl t1landinn hl t2hrafnkell larusson headshot

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.