Er stytting náms byggðamál?
Eftir að hafa hlustað á Illuga Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra í viðtali á Bylgjunni fyrir skömmu, er ég mjög hugsi yfir orðum háttvirts menntamálaráðherra um kjaramál framhaldsskólakennara.Eitt er víst að hann þarf að kynna sér betur málefni landsbyggðanna og vinna þarf miklu betur í málefnum um styttingu framhaldsskólans.
Ef af styttingu námsins verður, sem virðist vera hans krafa ef ríkið á að mæta launakröfum kennara, þá mun skólaárið lengjast og hvernig mun það koma út fyrir landsbyggðirnar?
Það getur verið mjög langt í næsta framhaldsskóla fyrir nemendur í dreifðari byggðum landsins. Þar hefur fólk ekki val um annað en að senda börn sín frá sér 15 og 16 ára gömul til náms. Kostnaðurinn er mikill enda þurfa flest ungmennin að leigja sér húsnæði á heimavist eða á frjálsum markaði, kaupa sér fæði og svo ég tali ekki um þann dýra ferðakostnað sem við búum við. Við bætist að sjálfsögðu skólagjöld, tölvu- og bókakostnaður eins og hjá öllum framhaldsskólanemum á Íslandi.
Það hafa ekki allir foreldrar efni á því að halda uppi tvöföldum kostnaði við að reka heimili þó svo fullur vilji sé til þess. Því hafa flestir nemar af landsbyggðunum nýtt sumrin vel til vinnu og sparað fyrir náminu. Með lengingu skólaársins munu sumartekjurnar rýrna mikið og varla duga fyrir námi og uppihaldi í eitt skólaár.
Að sjálfsögðu eru það forréttindi að hafa framhaldsskóla í sínu sveitarfélagi og hafa val um að hafa börnin lengur heima, svo ég tali ekki um þann fjárhagslega sparnað sem fjölskyldur hafa af því.
Ég get ekki annað en velt fyrir mér þeirri spurningu hvort að brottfall framhaldsskólanema, búsetta utan höfuðborgarsvæðisins, muni aukast ef skólaárið lengist og fólk muni hreinlega ekki hafa efni á því að fara í nám?
Stytting framhalsskólanáms er byggðamál að mínu mati, það þarf að vinna vel og betur í þeim málum ef af verður. Það er trú mín og von að þetta sé eitt af þeim sjónarmiðum sem verður litið til í samhengi við styttingu á framhaldsskólanámi. Finna verður úrræði til að koma til móts við ungmenni sem geta ekki stundað nám í sinni heimabyggð.
Höfundur er framhaldsskólakennari og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð