Burt með trén - veghefillinn er að koma!

laufas1 haustmynd webVegna framgöngu bæjarstarfsmanna Fljótsdalshéraðs gegn trjágróðri á lóð okkar að Laufási 1 langar mig að skrifa nokkur orð til forsvarsmanna sveitarfélagsins og allra sem áhuga hafa á eðlilegum vinnubrögðum og samskiptum þeirra við íbúa. Og kannski ekki síst til þeirra er finnst þetta allt vera stormur í vatnsglasi og frekja og merkilegheit að vera ósáttur við þessi vinnubrögð. Tré sé bara tré.

Framganga mannanna gagnvart gróðrinum er með ólíkindum; 50 – 60 ára gamalt birkitré er tekið af lífi, annað tré eyðilagt og limgerði nagað með bitlausri keðjusög þannig að hreindýrahópur hefði skilið betur við eftir sig en þetta. Hver var t.d. þörfin fyrir að „snyrta" limgerði garðsins í línu 30 cm frá gangstéttarbrún, þegar hér utar í götunni er látið óátalið að girðing framan við íbúðarhús stendur ofan á gangstéttarbrúninni? Þar voru greinar sagaðar af tré í línu m.v. girðinguna.

Auðvitað sköguðu þessi tré út fyrir lóðrétt dregin lóðamörk en ekki ein einasta grein neðan við 2,5 til 3 metra hæð, um það getur fjöldinn allur af fólki vitnað. Ástæðan er sú að einu sinni til tvisvar á hverju sumri hef ég farið út með klippur og klippt það sem einhver hætta hefur verið á að sé til ama, ég þoli nefnilega ekki að geta ekki gengið óáreittur um gangstéttir fyrir gróðri.

Í september og október munu hafa birst auglýsingar í Dagskránni um hvað til stæði, sem og tilkynning inni á vef sveitarfélagsins í janúar sl. Inn á vef sveitarfélagsins fer ég aldrei nema eiga þangað erindi og held að svo sé um ansi marga almenna íbúa, hef kannski opnað hann 3-5 sinnum allt síðasta ár.

Ég játa mig sekan í öllum ákæruliðum um að hafa ekki tekið auglýsingarnar í haust til mín, vegna þess að ég taldi allt vera í lagi vegna aðgerða minna. Rak reyndar augun í það í gær að fasteigna- og þjónustufulltrúi sá sem er yfirmaður áhaldahúss hefur greinilega ekki tekið þær til sín heldur þrátt fyrir aðgang að „inside information" en sást í gær, fimmtudag mæla með málbandi hæðina undir trjákrónur sínar svo sem til að athuga sína stöðu.

Þá komum við kannski að kjarna málsins. Ef við okkur og t.d. þjónustufulltrúa þennan hefði verið talað og okkur bent á vandamálið hefðum við brugðist við, ég hefði í öllu falli lagað til hjá okkur hið snarasta eða svo skjótt sem Helgi Hjálmar vinur minn á Setbergi hefði getað komið með sögina sína (hann kann nefnilega til verka) og það sem meira er, hefur sótt námskeið um meðferð keðjusaga, svo lítil hætta stafar af honum. Ekki veit ég um hvort starfsmenn sveitarfélagsins hafa sótt slíkt námskeið, en skógarmenn á Íslandi hafa það sem vinnureglu að þeir sem starfa með keðjusagir hafi gert það.

Í flestum siðuðum sveitarfélögum á Íslandi gildir það verklag að ekki er farið í svona aðgerðir án undangenginnar skriflegrar viðvörunar inn um dyralúgu fólks. Ekki er vaðið af stað án þess svo mikið sem reyna að tala við fólk um úrbætur. Staðfest hefur verið að ekki hafi verið reynt að ná sambandi við okkur frekar en neinn annann þar sem „snyrt" hefur verið á einkalóðum, þrátt fyrir að í auglýsingu og tilkynningu á vef standi orðrétt: „Reynt verður að ná samkomulagi við lóðahafa þegar klipping er fyrirhuguð. Ef ekki næst í lóðahafa, eða samkomulag næst ekki, verður trjágróður snyrtur eins og starfsmenn sveitarfélagsins telja nauðsynlegt." Menn fara ekki einu sinni eftir eigin verklagsreglum.

Fann þessar greinar í stjórnsýslulögum en þar sem ég er ekki lögfræðingur og kann að túlka hluti mér í hag eða óhag þá veit ég ekki hvort þetta á við, en spyr sá sem ekki veit:

  • „Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.
  • "IV. kafli. Andmælaréttur.
  • 13. gr. Andmælaréttur.Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
  • 14. gr. Tilkynning um meðferð máls.Eigi aðili máls rétt á að tjá sig um efni þess skv. 13. gr. skal stjórnvald, svo fljótt sem því verður við komið, vekja athygli aðila á því að mál hans sé til meðferðar, nema ljóst sé að hann hafi fengið vitneskju um það fyrir fram.

Lykilorðið í þessu öllu er SAMSKIPTI. Starfsmenn sveitarfélaga eru í vinnu hjá okkur íbúunum og til að vinna með okkur að betra samfélagi. Það má aldrei verða svo að þeir séu yfir okkur hafnir og við séum fyrir þeim.

Þau gríðarmiklu og sterku viðbrögð (aðallega inni á því annars hvimleiða fyrirbæri facebook) sýna að íbúar hér og reyndar fólk um land allt vill ekki svona vinnubrögð.

Undarlegt þykir mér líka að sennilega situr stundum hópur snjóruðningsmanna annars vegar og bæjarstarfsmanna hins vegar og mala um bjánana sem eru fyrir þeim. Af hverju prófar þetta fólk ekki að tala við mann og leita lausna?

Og þá komum við að ástæðunni fyrir þessu; nefnilega snjóruðningur.

Í þeim sveitarfélögum sem ég hef í stuttri könnun athugað, er krafan um lágmarkshæð gróðurs við gangstéttar um 3 metrar, Reykjavík og fleiri hafa 2,8 metra, en hér er krafan 4 metrar. Ástæðan er víst sú að það þarf að vera hægt að stunda snjómokstur á gangstéttum með 10 -15 tonna hjólaskóflu og 20 tonna veghefli með 3-4 metra breiðri tönn! Þegar ég á leið minni til vinnu á morgnana horfi á frekar smávaxinn (m.v. veghefilinn) japanskan pallbíl með tönn ryðja fyrirhafnarlaust allt bílastæðið við Nettó og þá er hann þegar búinn að hreinsa hjá okkur inni í mjólkurstöð og sjálfsagt víðar, þá velti ég fyrir mér vegheflinum. Þarf virkilega heilan veghefil til að ryðja gangstéttar sem eru kannski að jafnaði 150 cm breiðar? Gangstéttin þar sem tréinu var slátrað er 80 cm. Athugið að ég er að tala um snjóhreinsun að jafnaði yfir veturinn, en ekki snjó eftir góðan vetrarbyl.

Það hlýtur að vera sveitarfélagið sem verkkaupi sem ræður því hvaða tæki verktakinn notar á t.d. gangstéttar. Er það nett tæki sem kallar ekki á aðstoð loftrýmiseftirlits NATO eða fullvaxinn veghefill og hjólaskófla ?

Ég hvet bæjaryfirvöld eindregið til að sjá til að þessu verklagi verði breytt. Íbúum sé sýnd sú virðing að tala við þá um það sem betur má fara. Að athugað verði hvort beita megi aðeins smávaxnari verkfærum við snjómokstur á gangstéttum svo afturkalla megi loftrýmiseftirlitið. Að semja við einhvern af þessum reynsluboltum í grisjun sem við eigum orðið hér um allt til að sjá um þessar „snyrtingar."

Það sem við viljum fyrst og fremst er að þetta gerist ekki aftur, neins staðar, menn viðurkenni mistök sín eins og menn og læri af þeim og jú komi og hirði hræið af trénu, þeir mega eiga það til minningar um afrek sín.

Lokaspurningin er sú, hvað viljum við íbúarnir? Viljum við ferkantaða keðjusagarlínu svo stórvirkar vinnuvélar geti athafnað sig á gangstéttum nokkur skipti á ári? Gangstéttin er ekkert betur rudd með veghefli en gamla Kubota. Viljum við fallegar götumyndir með fjölbreyttum, litskrúðugum gróðri sem er okkur til sóma án þess að angra gangandi umferð, sem er jú sú umferð sem á heima á gangstéttum?

Við vitum hvað við viljum.

Góðar stundir.

Höfundur er íbúi á Laufási 1

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar