Nýbúinn – íbúinn: Mars
Á Egilsstöðum er frábær sundlaug og heitir pottar. Ég hef reglulega lagt leið mína í sund, enda mikilvægt að stunda heilsurækt. Lenti þó í sérkennilegri stöðu einn daginn. Í sakleysi mínu stakk ég mér til sunds og synti 25 metra. Ákvað að stoppa ögn og draga að mér andann. Þá sé ég á næstu braut fyrrum skólasystur sem ég hafði ekki séð í töluverðan tíma. Hún heilsar mér og bíður mig velkomna „Ætlar þú að vera með okkur í vetur?"Ég áttaði mig ekki alveg strax hvað hún var að fara. Á annarri braut kemur þá kunnuglegt höfuð upp úr vatninu og viðkomandi snýr sér að mér og heilsar. Viðkomandi er að vinna í sama húsnæði og ég. Þarna var ég óvænt komin inn á sundæfingu. Þetta kom mjög flatt uppá mig.
Ég var búin að heita mér því að ef ég fengi vinnu fyrir austan myndi ég stunda reglulega sund, en hafði alls ekki í huga að fara á formlegar æfingar með menntuðum þjálfara. En viti menn. Ég þekkti nánast alla á æfingunni sem og þjálfarann! Hvaða líkur eru á því miðað við að vera nýflutt og þekkja nánast enga á svæðinu. Auðvitað komst ég því ekki upp með neitt annað en að fara að stunda sundæfingar.
Það eru ekki allir sem hugsa eins, sem betur fer. Eftir miklar vangaveltur og fyrirspurnir um þorrablótin og skemmtanalífið hér á Héraði var ljóst að febrúar er mánuðurinn sem fólk fer út á lífið. Fyrir utan þorrablótin virðist ekki margt vera í boði. Því er jafnvel enn mikilvægara en ella að láta uppákomurnar ekki framhjá sér fara.
Ákvað því að skella mér á Egilsstaðablótið. Þar þarf bara að panta miðann með góðum fyrirvara, en engar kröfur eru um sérstakan fatnað, hjúskap, skyldleika eða uppruna, o.fl. Frétti svo af afspurn að æskilegra væri að vera með einhverjum, falla inn í einhvern hóp og vera snemma í því að tilkynna hópinn til að fá gott borð.
Þá fóru að renna á mig tvær grímur. Kannski ætti ég að hugsa þetta eitthvað betur. Fékk ég þá ekki þetta yndislega símtal: ,,Ætlar þú á blót? Ertu ekki til í að taka manninn minn með þér? Ég þarf nefnilega að vinna og kemst ekki."
Jú, ég var sko heldur betur til í það og mun seint sjá eftir því, þar sem ég hafði þarna skemmtilegan sessunaut og góðan dansherra allt kvöldið. Verð þó að viðurkenna að ég gat ekki annað en glott þegar hinir og þessir, sérstaklega konur, fóru að gjóa augunum að okkur og jafnvel ganga upp að honum til að fá að vita hver þessi kvenmaður væri. Fyrr um daginn hafði barn þeirra hjóna sagt í skólanum – Nei, mamma fer ekki á blót, hún er búin að lána pabba!
Þetta kvöld var ósjaldan pikkað í öxlina á mér, nánast alltaf karlmenn, og sagt: „Þú átt eftir að heimsækja mig!" og glott út í annað eða sett í brýrnar. Í fyrstu kippti ég mig ekkert upp við þetta en í annað og þriðja sinn, hugsað ég með mér – hvers konar „pikkup-lína" er þetta? Ætli þær séu mismunandi milli landshluta og staða – áhugavert rannsóknarefni!
Það var ekki fyrr en leið vel á nóttina og ég stefndi heim sem ég tengdi enda var ég alls ekki að hugsa um vinnuna! Þarna voru þá nokkrir búfjáreigendur á blóti sem mega eiga von á óvæntri heimsókn frá mér sem eftirlitsmanni með dýravelferð. Hef skemmt mér yfir þessu síðan.
Ég náði líka að leggja leið mína á þorrablótið í Fljótsdal. Þar ganga menn hreinna til verks að kynna sig: „Þú ert nýi dýraeftirlitsmaðurinn" og svo var hver felling tekin út frá hvirfli til ilja og upp aftur með óræðum svip. Þetta er þá ekki ósvipað og gerist stundum á Kollubar á Hvanneyri. Um tíma var sent út SMS með textanum „Nýtt blóð á pöbbnum" þegar utan að komandi einstaklingar létu sjá sig þar inni, enda staður þar sem kynbótafræði er í hávegum höfð. Er nokkuð viss um að þeir hafi fengið svipað augnaráð og ég fékk þarna í Végarði. Ég veit þó ekki hversu áhugavert er að heyra niðurstöður þeirrar úttektar.
En, hvað gerir fólk sér til skemmtunar eftir þorrablótstímann – það er spurning nýbúans?