Upplýsingafundir á Austurlandi
Frá því að Alcoa Fjarðaál hóf framleiðslu í Reyðarfirði árið 2007 hefur skapast sú hefð að boða til upplýsingafunda um starfsemi fyrirtækisins fyrir íbúa á Austurlandi einu sinni á ári. Að þessu sinni munu stjórnendur fyrirtækisins heimsækja sex staði á áhrifasvæði álversins, kynna starfsemina, sitja fyrir svörum og vonandi eiga gæðastund með áhugasömum yfir léttum hádegisverði. Boðað verður til svokallaðra súpufunda á eftirfarandi stöðum og tímum:Mánudagur 31. mars – Egilsbúð í Neskaupstað
Miðvikudagur 2. apríl – Kaffihúsið á Eskifirði
Föstudagur 4. apríl – Hótel Austur á Reyðarfirði
Mánudagur 7. apríl – Kaffi Sumarlína á Fáskrúðsfirði
Miðvikudagur 9. apríl – Hótel Aldan á Seyðisfirði
Föstudagur 11. apríl – Hótel Hérað á Egilsstöðum
Allir fundirnir hefjast kl. 12 og er miðað við að þeir taki eina klukkustund. Við vonum að íbúar á Austurlandi nýti þessa fundi til að koma og kynna sér starfsemi Alcoa Fjarðaáls, fræðast um það sem er helst á döfinni og ekki síst að koma sínum ábendingum á framfæri. Fundirnir eru öllum opnir og velkomið er að sækja hvaða fund sem er. Á fundunum munu forstjóri og framkvæmdastjórar Alcoa Fjarðaáls fara yfir rekstur 2013, raforkuskerðingar og umhverfismál en að öðru leyti verður orðið laust og hvatt til uppbyggilegrar umræðu um áhrif og starfsemi fyrirtækisins í samfélaginu á Mið-Austurlandi.
Fundir sem þessir eru stóru fyrirtæki á borð við Alcoa Fjarðaál afar mikilvægir. Við leggjum mikið upp úr því að vera í góðum tengslum við samfélagið sem við störfum í og viljum standa okkur vel þegar kemur að hinum ýmsu samfélagsmálum. Þar er skilvirk upplýsingagjöf veigamikill þáttur og því vonum við að fólk sjái sér fært að mæta og taka þátt í þessum fundum með okkur.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Höfundur er upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls