Heill heilsu: RS–veirusýking í börnum

Michael Clausen og Þórður ÞórkelssonÁ hverju ári gengur yfir vetrarmánuðina kvefvírus sem kallast RS-vírus, eða Respiratory Syncytial vírus og lýsir sýkingin sér einkum sem kvef og hósti. Allir aldurshópar geta smitast, en hann leggst þyngst á börn á fyrsta æviári og eldra fólk. Rúmlega helmingur allra barna fá RSV-sýkingu á fyrsta aldursári og nánast öll börn hafa fengið hana þegar þau eru orðin 2-3ja ára gömul. Hægt er að fá RSV–sýkingu oftar en einu sinni.

Flestir fá einungis kvefeinkenni en þriðjungur barna fær hvæsiöndun með surgi í lungunum og kallast ástandið bráð berkjungabólga. Það er hin eiginlega „RS-sýking" sem svo er nefnd í almennu tali.

Það líða yfirleitt 4-5 dagar frá smiti þar til einkenni bráðrar berkjungabólgu koma fram. Fyrstu einkenni eru nefrennsli og nefstífla, en fljótlega fer að bera á hósta og minnstu börnunum getur orðið þungt um andardrátt og það surgar í lungunum við öndun.

Yfirleitt fá börnin einnig vægan hita. Eyrnabólga er algengur fylgikvilli RSV-sýkingar. RSV-sýking hjá eldri börnum og fullorðnum hefur yfirleitt í för með sér mun vægari einkenni en hjá þeim yngri, þ.e. kvef, hálssærindi, vægan hósta og lítilsháttar hita.

Börnum sem fædd eru fyrir tímann eða eru með hjarta- eða lungnasjúkdóm er hættara við að fá meiri einkenni en önnur börn. Sjúkdómurinn gengur yfirleitt yfir á 10-14 dögum. Ýmsar aðrar veirur geta valdið sömu einkennum og RS-veiran þó að í almennu tali séu þessi einkenni öll heimfærð á hana.

Veiran er mjög smitandi og berst einkum milli fólks með hnerra og hósta, en jafnframt með snertismiti. Hún getur lifað á höndum fólks, fötum og yfirborði hluta, svo sem hurðarhúnum og öðru sem fólk snertir. Því er handþvottur mjög mikilvægur til að fyrirbyggja smit.

Það er ekki til nein sértæk meðferð við sjúkdómnum og þolist sýkingin í flestum tilvikum vel. Einstaka sinnum verða börnin hins vegar það móð að þau eiga erfitt með að nærast og þurfa jafnvel að fá meðferð með súrefni.

Þarf þá að leggja þau inn á sjúkrahús á meðan mestu einkennin eru að ganga yfir. Það á einkum við yngstu börnin. Í flestum tilvikum duga hefðbundin astmalyf lítið sem ekkert gegn einkennum þessarar sýkingar. Því miður hefur ekki enn tekist að þróa bóluefni gegn RS-veirunni.

Höfundar er sérfræðingar í barnalækningum og starfa þrisvar sinnum á ári hjá HSA.

HEILL HEILSU
- úr þekkingarbrunni heilbrigðisþjónustu -

Innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands starfar afar hæft fagfólk sem býr yfir mikilli þekkingu. Að áeggjan stofnunarinnar birtist nú greinaflokkur á vef Austurfréttar um heilbrigðistengd málefni. Eru höfundar greinanna starfandi á ýmsum sviðum innan HSA og hafa brugðist vel við þeirri málaleitan að miðla af þekkingu sinni út fyrir stofnunina. Höfundar skrifa þó í eigin nafni en ekki á ábyrgð stofnunarinnar.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.