Afríka eða Austurland

elin karadottirÓtrúlega margir Íslendingar hafa meiri áhuga á og þekkja betur til Afríku en Austurlands. Þetta er ekki vísindalega sannað, heldur eitthvað sem ég hef fengið á tilfinninguna eftir mörg samtöl við kunningja og vini sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sama fólk hefur aldrei farið í innanlandsflug en getur ekki talið ferðarnar sem það hefur farið í utanlandsflug.

Auðvitað er ekki samasemmerki á milli þess að hafa aldrei farið í innanlandsflug og þess að hafa aldrei ferðast innanlands. En raunin er því miður mjög oft sú að þeir sem hafa ekki ferðast mikið innanlands hafa mun oftar farið til útlanda. Þetta sama fólk þekkir METRO kerfið í London, Kaupmannahöfn og Amsterdam eins og lófann á sér, en veit ekki muninn á Oddskarði og Fjarðarheiði.

Nú er það ekki glæpur að þekkja betur til annarra landa heldur en sitt eigið, en þetta fær mann óneitanlega oft til að hugsa: er þetta eðlileg þróun? Er eðlilegt að það sé að jafnaði ódýrara eða jafn dýrt að fljúga til stórborga erlendis heldur en til Ísafjarðar, Akureyrar og Egilsstaða. Ég get fullyrt að margt fallegt er að sjá og ýmislegt skemmtilegt hægt að gera.

Skilningsleysi fólks er ótrúlega mikið í báðar áttir. Fólk út á landi skilur oft ekki kröfur höfuðborgabúa um stækkun og breikkun þyngstu umferðargatna í Reykjavík. Á móti kemur að höfuðborgarbúar sjá oft ekki tilganginn með göngum í gegnum Fjarðarheiði yfir á Seyðisfjörð, reglulegu flugi til Vestmannaeyja eða tilganginn með jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Rökin fyrir öllum þessum samgöngubótum eru til staðar en skilningur almennings er ekki mikill. Ég hef oft sagt að eitt af undirstöðuatriðum samfélagsins séu bættar samgöngur um allt land. Margir gagnrýna þessa skoðun mína og finnst að ég ætti frekar að huga fyrst að heilbrigðismálum eða jafnrétti kynjanna, þar sem ég er jú kona.

Öll þessi mál eru jafn mikilvæg í mínum huga, en ef fólk kemst ekki til vinnu til hvers er þá atvinna? Og til hvers eru sjúkrahús ef enginn kemst á þau vegna slæmra samgangna? Samgöngur eru jafnréttismál; er eitthvað eðlilegt við það að ófrískar konur geti ekki verið heima hjá sér vegna þess að mögulega verður ófært þegar þær þurfa að eiga - eða það er ekki flogið þann daginn?

Þörf er á almennilegri byggðarstefnu á Íslandi. Er ætlunin að byggja upp Austurland, Vesturland og Vestmannaeyja eða er planið að drepa þessa staði niður kerfisbundið? Til þess að fýsilegt sé fyrir ungt fólk að flytja aftur „heim“ þurfa samgöngur að vera í lagi, bæði veg- og flugsamgöngur.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.