Eric Green: Við veitum Austurlandi sérstaka athygli út af Alcoa

eric__green_0001_web.jpg

Varasendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Eric Green, segir sendiráðið fylgjast sérstaklega með þróun mála á Austurlandi því það geymi stærstu fjárfestingu bandarísks fyrirtækis á Íslandi, álver Alcoa. Hann fylgist eins og aðrir landar hans hérlendis með bandarísku forsetakosningunum en má ekki gefa upp hvern hann styður. 

Austurfrétt settist niður með Green þegar hann var hér á ferðinni fyrir skemmstu og ræddi við hann um samvinnu á Norðurslóðum, samband Íslands og Bandaríkjanna og hvernig það var að vera í bandaríska sendiráðinu í Moskvu þegar kommúnistastjórnin féll fyrir tuttugu árum. 

Það má segja það sama um diplómata og blaðamenn: Þeir fá borgað fyrir að vera forvitnir. Það er Eric sem hefur frumkvæðið í byrjun samræðna okkar rigningarlegt hausteftirmiðdegi á Egilsstöðum. „Hvaðan ertu?“ spyr hann. „Hvaða menntun hefurðu?“ heldur hann áfram. Og áfram. Hlutverkin virðast hafa snúist við, hann spyr spurninganna og við svörum. Sem var ekki ætlunin. 

Eric var eystra í tvo daga. Fyrri daginn heimsótti hann álver Alcoa Fjarðáls og Fljótsdalsstöð, þann seinni Gunnólfsvíkurfjall. Álverið er stærsta fjárfesting bandarísks fyrirtækis hérlendis og Eric segir að sendiráðið fylgist því sérstaklega með hvernig gangi.

„Við veitum því athygli því þetta er áhugavert dæmi um fjárfestingu sem hefur lukkast vel. Við komum sannarlega oftar hingað en á önnur dreifbýlissvæði vegna álverkssmiðjunnar, þótt ég sé hér í fjórðungnum í fyrsta sinn. 

Það var virkilega heillandi að heyra hvernig þetta verkefni hófst fyrir tíu árum, að koma í álverið, sjá hvernig álið er framleitt, tæknina sem er notuð og verkstjórnina. Alcoa virðist hafa unnið sína heimavinnu. Tengslin við nærsamfélagið eru frábær.“

Fylgdist með skriðdrekunum keyra um götur Moskvu

Eric var skipaður aðstoðarsendiherra á Íslandi (Deputy Chief of Mission) í ágúst í fyrra. Hann kom hingað frá Rússlandi þar sem hann starfaði í sendiráðinu í Moskvu 2009-11. Hann hefur áður starfað sem sendiráðsmaður í Tyrklandi, Norður-Írlandi, Úkraínu og Filippseyjum.

Ferilinn hóf hann í Moskvu árið 1990 þar sem hann fylgdist með skriðdrekunum á götum borgarinnar þegar Sovétríkin liðuðust í sundur.

„Það var heillandi reynsla að sjá söguna skrifaða fyrir framan mig. Við í sendiráðinu vorum jafn forvitin og allir aðrir. Við fórum á mótmælin til að fylgjast með því sem fram fór, bæði fundi til stuðnings Boris Jeltsín og gamla kommúnismakerfinu. Ég fann samt til innilegrar samúðar með Rússum. Þetta var þeim ekki ánægjulegur tími, þeir gengu í gegnum mikla óreiðu og efnahagshrun. 

Ég man eftir að hafa séð skriðdreka víða á ferð um götur Moskvuborgar. Ég minnist þess ekki að hafa verið hræddur. Að hluta til var það vegna þess að ég var ungur og vitlaus og taldi mig ósnertanlegan en við skildum líka að átökin voru milli mismunandi hópa innan rússneska kerfisins.

Bandaríska sendiráðið var nærri Hvíta húsinu þar sem Jeltsín klifraði upp á skriðdrekana. Við töldum okkur aldrei í hættu þótt við vissum að skot gæti hæft sendiráði fyrir slysni.

Ég fór á svæði þar sem fólk stóð og varði húsin sín. Ég talaði við fólkið og heillaðist af fólkinu sem var tilbúið að fórna lífi sínu til að verja hugmyndina um lýðræði. Ég var þar samt ekki yfir nóttina sem var sá tími sem helst var hætta á árásum skriðdreka.“

Sterkari tengsl Bandaríkjanna og Rússlands

Green, sem er með BA gráðu í rússnesku, telur að ástandið í Rússlandi sé betra og stöðugra í dag í tíð Vladimirs Pútíns forseta heldur en það var fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Samskipti Bandaríkjanna og Rússlands hafa aukist og styrkst þótt alltaf sé ágreiningur um ákveðin málefni.

„Rússland er stöðugra og þar ríkir meiri velmegun. Ég er bjartsýnn fyrir hönd Rússlands. Þar er að verða til miðstétt og heimurinn er að opnast fyrir Rússum sem ferðast og sækja sér menntun út fyrir landssteinana. Þessi þróun mun breyta rússnesku samfélaginu og krafan um öryggið sem við sækjumst flest eftir, stöðugleika, ábyrga ríkisstjórn og lög og reglu, eykst.

Efnahagstengsl Rússlands og Bandaríkjanna hafa styrkst og við höfum unnið að sameiginlegum markmiðum, til dæmis samningum um fækkun kjarnaodda. Bandaríkin studdu inngöngu Rússa í Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og hafa veitt ráðgjöf við opnun Rússlands fyrir alþjóðlegri fjárfestingu og samkeppni. Við höfum líka unnið saman að þvingunum gegn Írönum fyrir að þróa kjarnavopn.

Við eigum okkur samt okkar ágreiningsmál, til dæmis aðgerðir við ástandinu í Sýrlandi. Bandaríkin gagnrýndu líka framkvæmd síðustu kosninga í Rússlandi.“

Gefandi að taka þátt í friðarferlinu á Norður-Írlandi

Af öðrum verkefnum Erics í bandarísku utanríkisþjónustunni minnist hann sérstaklega á veru sína í Úkraínu og Norður-Írlandi. Í fyrra ríkinu kom hann að afvopnunarsamningi um kjarnorkuvopn, í hinu að friðarsamningi.

„Ég var í Úkraínu 1994-96. Þá var ríkið að taka síðustu skrefin í að losa sig við kjarnorkuvopn. Það var gríðarlega stórt skref fyrir land sem fyrir slysni sat uppi með fjórða stærsta kjarnorkuvopnabúr veraldar þegar Sovétríkin liðuðust í sundur. Það var áhugavert ferli, ekki síst fyrir þær sakir að þáverandi leiðtogar tóku þá ákvörðun að gefa það sjálfviljugir eftir.

Annað ferli sem ég var þeirrar gæfu njótandi að taka þátt í var friðarferlinu á Norður-Írlandi en friðarsáttmálinn var undirritaður 1998. Að því máli vann ég bæði í Washington og í Belfast. Það var heillandi og gefandi að sjá samfélag, sem hafði verið lengi klofið af svo hatrömmum átökum, byrja að gróa.“

Við erum heppin og ánægð að vera í Reykjavík

Eric segist ánægður með að hafa verið sendur til Íslands. „Ég var í stóru sendiráði í Rússlandi en það er gaman að skipta um og komast á smærri skrifstofu. Við vorum mjög ánægð þegar við fengum þær fréttir að við ættum að fara til Íslands því landið er mjög fjölskylduvænt. Krakkarnir okkar elska Ísland.“

Sumir sendiráðsstarfsmenn eru fastráðnir meðan aðrir ferðast um og eru gjarnan þrjú ár í einu á hverjum stað. Eric reiknar með að vera í 2-3 ár á Íslandi og verða þá kallaður til Washington hafandi verið um níu ár að heiman.

Þung áföll dundu á bandarísku utanríkisþjónustunni þegar starfsmenn hennar, meðal annars sendiherrann í Líbýu, voru myrtir eftir hörð mótmæli í nokkrum múslimaríkjum sem beindust að Bandaríkjunum. 

„Okkur þykir sárt að sjá á bak samstarfsfólki okkar og finnum til djúprar samúðar með fjölskyldum þeirra. Við finnum til með þeim sem þurfa að kljást við óeirðir nánast daglega. Þetta hefur sannarlega verið erfiður tími fyrir fjölskyldur starfsmanna utanríkisþjónustunnar.

Öryggi er aðalmálið hvar sem við erum. Við erum heppin í Reykjavík. Það er sannarlega fólk þar sem er ósammála stefnu bandarískra stjórnvalda en mótmæli þessu er ávallt friðsæl, yfirveguð og virðuleg. Ísland er mjög stöðugt ríki, lýðræðislegt og friðsælt. Við fáumst við aðrar áskoranir annars staðar.“

Tækifæri í hátækninni

Verkefni sendiráðsstarfsmanna í Reykjavík eru margþætt. Fyrst nefnir Eric efnahags- og viðskiptatengsli milli ríkjanna sem álverið í Reyðarfirði er meðal annars dæmi um. Sendiráðið aðstoðar til dæmis litlum og meðalstórum bandarískum fyrirtækjum við að koma sér á framfæri á Íslandi.

„Það er víða tækifæri til samstarfs, sérstaklega í hátækni,“ segir Eric. Tengslin ganga í báðar áttir. Tölvufyrirtækið CCP Games og stoðtækjaframleiðandinn Össur sækja starfsfólk til Bandaríkjanna og eru þar með framleiðslu. Menn geti nýtt sameiginlega þekkingu og bandarískir fjárfestar stutt við íslenska atvinnuuppbygginu.

„Íslenskt viðskiptafólk ber með sér það besta bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum sem er eðlilegt miðað við legu landsins. Hér er sterkari frumkvöðlaandi heldur en víða á meginlandi Evrópu.“

Málefni Norðurslóða taka sífellt meiri tíma

Eitt stærsta viðfangsefnið í dag er málefni Norðurslóða. Þar ræða menn um tækifæri til vísindarannsókna, efnahagsþróun og þarfir svæðisins.

„Þetta er nokkuð sem tekur sífellt meiri tíma. Við ræðum til dæmis um allan þann fjölda ferðamanna sem siglir um svæðið á skipum og að til staðar séu björgunaráætlanir er slys ber að höndum.“

Þeirri ábyrgð deila átta ríki við Norðurskautið með sér. „Ísland ber ábyrgð á nokkuð stóru svæði. Reyndin er samt alltaf sú að ef skip á í vanda kemur næsta skipt til hjálpar, hverrar þjóðar sem það er. Austurströnd Grænlands er býsna nálægt Íslandi og oft eru skip eða flugvélar íslensku Landhelgisgæslunnar í bestri stöðu til að bregðast við ef eitthvað gerist þar, þótt það sé danskt yfirráðasvæðið.

Það eru haldnar sameiginlegar björgunaræfingar til að æfa samskipti, skilning og þekking á hvaða búnaði hvert ríki hefur yfir að ráða. Landhelgisgæslan hefur til dæmis styrkt sig með nýju varðskipi. Þar á bæ vita menn að þeir hafa þurft að herða sig.“

Íslenskt efnahagslíf á réttri leið

Í síðari heimsstyrjöldinni var nánast litið á Ísland sem eitt af ríkjum Bandaríkjanna. Bandarískur her var hérlendis í um sextíu ár og styrkti mjög samband landanna. Eric viðurkennir að samskipti ríkjanna hafi breyst síðan herinn fór árið 2006.

„Hann hafði gríðarleg efnahagsleg áhrif, sérstaklega í Keflavík en það sköpuðust líka menningarleg tengsl, fjölskyldubönd og vinátta. Sambandið hefur breyst en við stöndum fullkomlega við varnarskuldbindingar okkar gagnvart Íslandi.“

Þegar Íslendingar ferðast erlendis fá þeir enn spurningar um efnahagslífið á Íslandi, sem fékk rækilegan skell fyrir fjórum árum. Sá skellur var reyndar ekki staðbundinn, kreppan byrjaði á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum. Báðar þjóðir eru nú að rétta úr kútnum.

„Tölurnar tala sínu máli. Hagvöxtur á Íslandi hefur verið 2-3% undanfarin ár, sem er mjög gott miðað við Bandaríkin og Evrópu. Atvinnuleysi hefur minnkað og samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gekk vel. Ég held að fyrirsagnirnar hljóti að vera á þá leið að efnahagur Íslands sé á réttri leið eftir kreppuna 2008. 

Hér er samt enn fólk sem þjáist og er með miklar skuldir. Viðskiptaumhverfið er heldur ekki hagstætt vegna gjaldeyrishaftanna. Það er enn nokkuð í land en Ísland væri í mjög góðum málum ef þessi mál væru leyst.“

Þjóð sem er stolt af menningunni

Eric er líka sérstaklega hrifinn af íslenskri náttúru sem hann lýsir sem „stórkostlegri. Þeir hlutar Vatnajökuls sem við höfum séð eru virkilega einstakir,“ segir hann og telur síðan upp hverina, Jökulsárlón og jarðhitasvæðin. „Það eru svæði sem þú sérð ekki annars staðar í heiminum.“

Menningarlífið finnst honum ekki síður athyglivert. „Það er magnað hversu öflugt það er miðað við fámennið. Þið rekið óperu og sinfóníu, eigið frábæra popptónlistarmenn og haldið jazzhátíðir og ýmsar menningarhátíðir. Að geta viðhaldið slíkri fjölbreytni er tákn um mikið stolt og þjóðfélag sem lítur á menntun í menningu sem forgangsatriði. Ég var búið að lesa um þetta allt en mér fannst ótrúlegt að sjá virknina með eign augum.“

Og það eru forsetakosningar...

Sendiráðstarfsmennirnir fylgjast, líkt og margir Íslendingar, spenntir með bandarísku forsetakosningunum. Sendiráðið styrkti fyrirlestra um bandarísk stjórnmál og stendur annað kvöld fyrir kosningavöku í Reykjavík.

„Ójá, við fylgjumst með! Við lesum blöðin heima á netinu, niðurstöður skoðanakannana og skoðanir dálkahöfunda. Við vitum að stjórnmálafíklarnir fylgjast mjög náið með kosningunum og miðað við þá athygli sem þær fá í íslenskum fjölmiðlum virðast Íslendingar almennt hafa mikinn áhuga á þeim.“

- Hvern styðurðu?

„Ég má ekki gefa það upp opinberlega. Við í utanríkisþjónustunni erum ópólitísk. Við vinnum fyrir þau stjórnvöld sem eru við lýði hverju sinni og styðjum ekki einn umfram annan opinberlega,“ útskýrir Green.

„Verk okkar er að framfylgja stefnu stjórnvalda og í tilfelli landa eins og Íslands held ég að hún sé fremur stöðug. Í mörgum löndum eru ákveðnir grunnhagsmunir Bandaríkjanna sem breytast lítið hvort sem Repúblikanar eða Demókratar eru við völd.“

Austurfrétt stendur fyrir kosningavöku í Sláturhúsinu á Egilsstöðum sem hefst klukkan 22:00. Léttar veitingar eru á boðstólnum og allir velkomnir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.