Opið bréf til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar

magnus gudmundsson sfkÍ vetur hafði ég einhvern pata af því að Smyril-Line ætti í viðræðum við yfirvöld í Fjarðabyggð um hafnaraðstöðu fyrir Norrænu yfir vetrartímann. Í einfeldni minni taldi ég víst að Fjarðabyggð vísaði slíku erindi kurteislega á bug. Það er svo margt í nútíð og fortíð sem æpir á slíka afgreiðslu.

Mig rak því í rogastans þegar ég las frétt Austurfréttar 27. mars um viðræður yfirvalda í Fjarðabyggð og Smyril-Line um að Norræna hefði Eskifjörð en ekki Seyðisfjörð sem viðkomustað.

Ég skal bara játa það að mér svall móður, varð öskuillur og ekki síst sár og ástæðan er eftirfarandi.

Í gegnum tíðina hafa Austfirðingar alls ekki verið sammála um alla hluti, þó ekki væri, en að fenginni niðurstöðu í stórum málum hefur hún alla jafna verið virt. Undirritaður sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar árin 1978 til 1994, var virkur þátttakandi í stjórnmálum á Austurlandi á þeim tíma, og þekkir þá sögu á við hvern annan.

Þetta voru breytingatímar. M.a. var mikil gerjun í málefnum framhaldsskólanna. Iðnskólar höfðu verið starfandi á Seyðisfirði og í Neskaupstað, og samhliða því að Menntaskólinn á Egilsstöðum var settur á laggirnar þurfti að ákveða staðsetningu verkmenntaskóla, og ná samstöðu innan fjórðungs um uppbyggingu hans og rekstur. Það var ekkert sjálfgefið að hann yrði staðsettur í Neskaupstað. Sú varð þó raunin og ég fullyrði að það var ekki síst fyrir atbeina okkar Seyðfirðinga að svo varð. Okkar hefð í þessum efnum var síst minni en granna okkar á Norðfirði. Þeir höfðu hins vegar á þessum árum lagt töluverðan metnað og fjármuni í uppbyggingu framhaldsnáms hjá sér. Við mátum það frumkvæði og lögðumst á árarnar með þeim. Niðurstaðan var samhljóða ákvörðun á aðalfundi SSA. Austfirðingar sameinuðust um uppbyggingu Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.

Það var líka mikil umræða um jarðgöng, og til að byrja með var útgangspunkturinn alltaf sá, að leysa þyrfti vetrareinangrun. Sú umræða beindist síðar einnig að styttingu vegalengda. Og hver var niðurstaðan? Fáskrúðsfjarðargöng, sem fyrst og síðast stytta vegalengdir, voru tekin á dagskrá og urðu að veruleika. Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar gerði sérstaka samþykkt þar sem hvatt var til þeirrar framkvæmdar, vitandi það að með því myndu Seyðisfjarðargöng frestast um langan tíma. Hins vegar eru þessi göng ein af grunnforsendum þess að sveitarfélagið Fjarðabyggð þrífst í sinni núverandi mynd.

Það vita fáir betur en íbúar Fjarðabyggðar að atvinnuhættir á Austurlandi hafa snarbreyst á síðustu áratugum. Álverið er þar stærsti bitinn, en það var ekki sjálfgefið að það yrði að veruleika og lögðu ýmsir hönd á plóginn við þann undirbúning. Það vantaði ekkert upp á stuðning Seyðfirðinga, þeirra sem á annað borð vildu slíka starfssemi í fjórðunginn, í þeim efnum. Á landsvísu vakti það athygli hve samhent tvíeykið Smári Geirsson í Fjarðabyggð, formaður SSA og Þorvaldur Jóhannsson á Seyðisfirði, framkvæmdastjóri SSA var á þessum tíma.

Þessi dæmi sýna, að Seyðfirðingar hafa stutt dyggilega við nokkur af stærstu hagsmunamálum Fjarðabyggðar og forvera hennar síðustu áratugina. En nú hefur sannast hið fornkveðna. Sjaldan launar kálfur ofeldi.

Víkjum í því sambandi til Seyðisfjarðar, handan Fjarðarheiðar. Frá 1975 hefur ferjan Norræna, og á undan henni gamli Smyrill, siglt til Íslands og átt örugga höfn á Seyðisfirði. Smám saman hefur byggst þar upp fyrirmyndar aðstaða til að taka á móti ferjunni, sem og öðrum farþegaskipum. Framlag ríkis og sveitarfélags í þessu sambandi nemur hundruðum milljóna, og ekki verið tjaldað til einnar nætur. Þar fyrir utan hafa ótal aðilar fjárfest í tengdum atvinnurekstri á staðnum, og eflst ár frá ári. Öll þessi starfssemi er nú burðarás í atvinnu- og mannlífi á Seyðisfirði.

Og þá að fyrrnefndum kálfi, eða eigum við að kalla hann úlf eða varg. Þegar vandamál tengd vetrarsiglingum Norrænu koma upp vegna færðar á Fjarðarheiði býðurhann ekki fram aðstoð sína. Nei, hann stekkur á bráðina og reynir að hremma hana. Sjaldan launar úlfur ofeldi.

Réttlæting bæjarstjóra Fjarðarbyggðar í áðurnefndri frétt á framkomu bæjaryfirvalda er eitt aumasta yfirklór, sem ég hef séð í há herrans tíð. Er þá langt til jafnað í pólitískri umræðu síðustu ára. Lesendum til upprifjunar var hún svona.
Ég geri mér grein fyrir að þetta er ekki létt eða auðvelt mál vitandi hversu mikil áhrif þetta getur haft á það sveitarfélag sem þjónustan er veitt í dag en við gátum ekki neitað fyrirtækinu um viðræður. Það er svo óljóst hvert þær leiða.
Þetta mætti orða svona á barnamáli þar sem stóri Palli ávarpar Villa litla.
Villi minn. Þrándur frændi okkar vill ekki leika við þig lengur, bara mig. Þess vegna verð ég að taka boltann þinn og nestið þitt. Við Þrándur ætlum að leika og við erum svangir. Mér finnst þetta sárt en ég verð að gera þetta fyrir Þránd. Hertu upp hugann og farðu bara að gera eitthvað annað.
Það væri mannsbragur að því hjá bæjarstjórn Fjarðabyggðar að hætta nú þegar öllum þreifingum varðandi siglingu Norrænu til Eskifjarðar, hvort heldur er að sumri eða vetri. Og leggjast svo í alvöru á árar með Seyðfirðingum varðandi bættar samgöngur á Fjarðarheiði og Seyðisfjarðargöng. Má ég minna ykkur á staðreyndirnar varðandi aðkomu Seyðfirðinga að Verkmenntaskólanum, Fáskrúðsfjarðargöngunum og álverinu?

Mig langar svo að rifja upp fyrir ykkur samþykkt aðalfundar SSA um skemmtiferðaskip og ferjur á liðnu hausti. Einhver ykkar sátuð þann fund, og mér er ekki kunnugt um að fulltrúar Fjarðabyggðar hafi gert athugasemd við afgreiðslu á eftirfarandi kafla í samþykktum fundarins.
Skemmtiferðaskip - ferjurAðalfundur SSA haldinn í Fjarðabyggð 13. og 14. september 2013 telur mikilvægt að sveitarfélög í fjórðungnum vinni saman að markaðsetningu og móttöku skemmtiferðaskipa og tryggi um leið að kröftunum verði ekki dreift of víða. Mikilvægt er að nýta uppbyggingu ferjuhafnar á Seyðisfirði og byggja undir reynslu og þekkingu sem þar hefur skapast á móttöku ferju og skemmtiferðaskipa með því að markaðssetja aðstöðuna sem helstu ferju- og skemmtiferðaskipahöfn Austurlands.
Samþykktirnar í heild sinni eru annars á slóðinni: http://ssa.is/images/stories/skjol/2013/ssa_adalf_47_alyktanir.pdf

En blekið var varla þornað á þessum samþykktum þegar fréttir bárust af viðræðum Fjarðabyggðar og Smyril-Line. Í títt nefndri frétt segir:

Fjarðabyggð samþykkti í byrjun nóvember að verða við ósk Smyril-Line um viðræður um mögulegar siglingar ferjunnar til Fjarðabyggðar. ....... en við gátum ekki neitað fyrirtækinu um viðræður.

Í frétt tveim dögum síðar er haft eftir forstjóra Smyril-Line:
Við vitum að Fjarðabyggð hefur áhuga á að bjóða fram Eskifjörð sem hugsanlegan áfangastað Norrænu en þar fyrir utan höfum við ekkert frekar um þau mál að segja,

Og þá vaknar spurningin. Hvort kom á undan eggið eða hænan?

Að lokum. Virðum gerðar samþykktir og hvort annað. Stöndum saman vörð um það sem vel er gert á Austurlandi.

Læt þetta duga að sinni.

Með vinsemd en takmarkaðri virðingu að svo komnu máli.

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi á Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar