Yfirlýsing Fjarðabyggðar vegna beiðni P/F Smyril Line um hafnaraðstöðu fyrir Norrænu
Sú staða er komin upp, að útgerð Norrænu, P/F Smyril Line, hefur óskað eftir viðræðum um hafnaraðstöðu fyrir ferjuna í Fjarðabyggð. Á engum tímapunkti hafa forsvarsmenn Fjarðabyggðar nálgast stjórn útgerðarinnar um flutning Norrænu frá Seyðisfirði.Þessi beiðni P/F Smyril Line barst Fjarðabyggðarhöfnum þann 30. október sl. Var bæjarfulltrúum á Seyðisfirði þegar tilkynnt um efni hennar, svo að þeir gætu brugðist strax við og leitað mögulegra lausna. Einnig var bæjarfulltrúum á Seyðisfirði gerð grein fyrir, að erindið fengi sömu formlegu afgreiðslu og önnur sem berast sveitarfélaginu frá atvinnu- og viðskiptalífi.
Að íhuguðu máli mat hafnarstjórn Fjarðabyggðar það svo, að henni væri skylt að verða við beiðni P/F Smyril Line um viðræður og brýnt væri að fá fyrirætlanir útgerðarinnar upp á borðið, svo taka mætti upplýsta og málefnalega afstöðu til málsins.
Aðilum málsins er ekki síður skylt, að leita málefnalegra svara við þeim áleitnu spurningum sem meðferð þess vekur. Getur sveitarfélag synjað fyrirtæki um viðræður á þeim forsendum að annað sveitarfélag eigi viðskiptin? Hvernig bregst viðkomandi fyrirtæki við, að sveitarfélag dregur í efa réttmæti viðskiptalegra ákvarðana þess? Hvers konar áhrif hefur slík synjun á orðspor hlutaðeigandi sveitarfélaga eða landshluta gagnvart öðrum innlendum og erlendum fyrirtækjum eða fjárfestum?
Einnig ber að líta til þess, að sveitarfélögin á Austurlandi hafa staðið sameiginlega að samþykktum á vettvangi SSA um ferjuhöfn á Seyðisfirði sem byggst hefur á samstarfi P/F Smyril Line og bæjaryfirvalda. Sú ákvörðun útgerðarinnar að horfa annað með starfsemi sína, setur slíkar samþykktir í ákveðið uppnám sem Fjarðabyggð líkt og önnur sveitarfélög gátu ekki séð fyrir.
Viðræður við P/F Smyril Line hafa leitt í ljós, að útgerðin óskar fyrst og fremst eftir aðstöðu á Eskifirði. Um þá afstöðu fjallaði hafnarstjórn og bæjarráð Fjarðabyggðar á sameiginlegum fundi 25. mars sl. Ákveðið var að halda áfram viðræðum á þeim grunni og var fulltrúum bæjarstjórnar Seyðisfjarðar gert grein fyrir því í samræmi við góða starfshætti og gegnsæja.
Ekki er enn ljóst hver endanleg niðurstaða viðræðnanna verður.
Samfara megináherslu P/F Smyril Line á viðkomu á Eskifirði, hefur umræðunni einnig verið beint að komum skemmtiferðaskipa. Fjarðabyggð hefur markvisst stefnt að því að fjölga komum þeirra til Austfjarða, en af þeim heildarfjölda sem siglir til Íslands, hefur aðeins 6% viðkomu á austurströndinni. Nú bregður svo við að væntanleg skemmtiferðaskip hafa aldrei verið fleiri eða 20 alls, en að óbreyttu sigla í sumar 10 skip á Seyðisfjörð og 10 á Eskifjörð.
Þá er mikilvægt fyrir samstarf og samstöðu sveitarfélaga á Austurlandi, að sanngirni sé gætt í þessari vandmeðförnu umræðu, sem snertir á heildina litið efnahagslega uppbyggingu landshlutans.
Uppbygging Alcoa Fjarðaráls hefur ekki aðeins eflt Fjarðabyggð heldur einnig önnur sveitarfélög og myndar með því móti efnahagslega og samfélagslega viðspyrnu fyrir Mið-Austurland í heild sinni. Að afleiddum störfum ótöldum, má benda á tekjur Fljótdalshrepps af virkjunarmannvirkjum ásamt þeim mikla fjölda fólks á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði sem vinnur hjá fyrirtækinu og skiptir hundruðum og tugum manna. Uppbygging síðustu ára er frumforsenda þess að landshlutinn geti sótt markvisst fram í enn öflugri atvinnu- og verðmætasköpun.
F.h. Fjarðabyggðar,
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar
Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs
Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri