„Það þarf tvo til að dansa Tangó"
Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið uppi umræða um hugmyndir forsvarsmanna Smyril Line að flytja aðstöðu fyrirtækisins frá Seyðisfirði yfir í Fjarðabyggð og hefur Eskifjörður verið nefndur í því sambandi. Komið hefur fram að frumkvæðið hafi alfarið komið frá talsmönnum úrgerðarfyrirtækisins og að erfitt sé fyrir talsmenn sveitarfélagsins að ljá ekki máls á ósk hinna fyrrnefndu um viðræður um málið.Undirritaður ætlar sér ekki að hafa neina skoðun á því, hvernig málið hefur borið að. Ég vil samt undirstrika strax í upphafi að ég tel að fjölmargir íbúar Fjarðabyggðar deili áhyggjum Seyðfirðinga o.fl. vegna málsins og hafi fullan skilning á því hvílíkt reiðarslag það yrði fyrir byggðarlagið, gengju framangreind áform eftir.
Alla vega er ljóst að ég styð þá heilshugar í þeirri viðleitni að sporna af öllum kröftum við því að Norröna hætti að sigla til Seyðisfjarðar að hluta til eða alveg. Vart þarf að taka fram - og ekki skal gert lítið úr því - að tilflutningur vinnustaðar af því tagi sem móttaka farþega og ökutækja Norrænu myndi skipta máli fyrir hinn nýja viðtökustað og nágrenni, fari svo illa að mínu mati að áformin gangi eftir.
Undirritaður hefur verið þátttakandi í samstarfi sveitarfélaganna á Austurlandi í áratugi, jafnframt því að starfa beint fyrir 3 sveitarfélög (þótt 2 þeirra hafi síðar runnið undir stærri heildir). Ég tel mig þekkja nokkuð vel til mála á þessum vettvangi og leyfi mér að halda fram að ég hafi alla tíð verið talsmaður aukins samstarfs, sem eftir atvikum kynni að leiða til beinna sameininga, þar sem það ætti við. Það hefur vissulega gengið eftir í nokkrum tilfellum og má halda því fram að það hafi bæði styrkt fjórðunginn í heild og einstök svæði hans.
Mikil samstaða hefur verið um framgang ýmissa mála á fjórðungsvísu og nægir að benda á hið mjög svo læsilega rit Smára Geirssonar „Samstarf á Austurlandi" í því sambandi. Líklega er langstærsta málið af þessu tagi ákvörðunin um öfluga virkjun uppi á hálendi Austurlands samhliða markmiðum stjórnvalda að sjá til þess að byggður yrði upp öflugasti vinnustaður hér eystra með tilkomu Alcoa Fjarðaáls.
Vissulega var ekki algjör samstaða á starfssvæði Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) um málið. Með því á ég við að einstakir sveitarstjórnarmenn höfðu miklar efasemdir um jafn stórvægilegt rask á náttúru fjórðungsins og við blasti. Hugnuðust þeim heldur ekki hin sjónrænu áhrif, sem mannvirki af þessu tagi myndu valda. Engu að síður var til staðar órofin samstaða innan sveitarstjórna eystra um málið og studdu þær allar framgang þess, þegar litið er til samþykkta á samstarfsvettvangi þeirra. Slíkar samþykktir eru ekki bindandi fyrir einstakar sveitarstjórnir, en litið hefur verið svo á að virða beri þær og óheiðarlegt hefur verið talið að vinna gegn þeim heima í héraði eftir að hafa staðið að annarri niðurstöðu á hinum sameiginlega vettvangi.
Í aðdraganda ákvörðunarinnar um virkjun Kárahnjúka, samhliða því að vinna jákvætt að framgangi hugmynda um samgöngubætur og byggingu álvers í Reyðarfirði höfðu Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og Þorvaldur Jóhannsson, framkvæmdastjóri SSA komið fram - bæði inn á við og út á við - fyrir hönd hins sameiginlega samstarfsvettvangs í 3 ár eða frá því að Smári tók við formennsku í SSA. Í samræmi við samþykktir SSA lá ljóst fyrir að Smári þyrfti að láta af formennsku haustið 2001.
Ég starfaði þá sem bæjarstjóri Austur-Héraðs með aðsetur á Egilsstöðum. Fyrir lá að svonefnt Norðursvæði og þá mjög líklega bæjarfulltrúi á Austur-Héraði myndi taka við formennskunni að öllu óbreyttu. Í ljósi þess að Smári og Þorvaldur voru orðnir að sterku „teymi" og raunar andlit hinnar næstum órofa samstöðu út á við hvað varðaði framangreind áform, beitti ég mér fyrir því að lögð yrði fyrir aðalfund SSA þetta haust tillaga um breytingu á samþykktum SSA, sem miðaði að því að tryggja að Smári gæti verið form. SSA 2 ár í viðbót.
Þetta gekk eftir og má því segja að sú niðurstaða sem fékkst að lokum eftir að talsmenn Norsk Hydro heyktust á því að koma endanlega að ákvörðun um byggingu álversins, hafi m.a. byggt á hinni órofa samstöðu sem var til staðar á vettvangi SSA, þótt fyrir lægi að jaðarsvæðin myndu ekki nema þá óbeint hagnast á framgangi málsins.
Í þessu sambandi skal þó ekki gert lítið úr framsýni sveitarstjórnarmanna í byggðarlögunum 3, sem leiddi til tilurðar Fjarðabyggðar hinnar fyrri. Forystuhlutverk í þeirri vinnu höfðu að öðrum ólöstuðum títtnefndur Smári Geirsson og Guðmundur Bjarnason, síðar bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Ljóst er að Fjarðabyggð hefur mestan hag af áverinu sem vinnustað, auk þeirra fjölmörgu þjónandi fyrirtækja, sem þrífast flest ágætlega í nágrenni við álverið. Það er því ekki ósanngjarnt að halda því fram að miðsvæði Austurlands og raunar langstærsti hluti Fjarðabyggðar eigi m.a. jaðarsvæðunum skuld að gjalda í atvinnulegu tilliti.
Vissulega sitja einstakir sveitarstjórnarmenn uppi með þá ábyrgð að horfa á hagsmuni eigin sveitarfélags og þeim ber vissulega að vinna að vexti og viðgangi þess. Meðan þeir eru þátttakendur í víðara samstarfi og ef svo kynni að vera að menn setji upp sanngirnisgleraugun geta margir vonandi fallizt á að þeir eigi nágrönnum sínum a.m.k. óbeina skuld að gjalda. Vil ég trúa því staðfastlega að þótt talsmenn Fjarðabyggðar láti til leiðast að dansa þann tangó, sem Smyril Line hefur nú boðið þeim upp í,muni þeir ekki láta til leiðast að fara með hinum síðar nefnda „heim eftir ballið".
Ég vil að lokum láta koma skýrt fram að ég mun ekki kalla eftir því við þau framboð, sem eftir eiga að koma formlega fram í sveitarfélagi því, er ég tilheyri, að þau hafi það á stefnuskránni að vinna að framgangi þess máls sem hér um ræðir. Jafnframt hvet ég talsmenn framboðanna til að gera það á engan hátt að kosningamáli.
Núverandi bæjarstjórn hvet ég til þess að leiða málið sem fyrst þannig til lykta að Seyðfirðingar og við hin sem styðjum þá í viðleitni þeirra, getum borið höfuðið hátt og gert sem flest okkar fylgjandi áframhaldandi samstarfi, þar sem hagsmunir heildarinnar verða bornir fyrir brjósti, þegar það á við.
Austurlandi allt;
Björn Hafþór Guðmundsson, Stöðvarfirði.