Rangfærslur í garð Seyðfirðinga og þingmanna Norðausturkjördæmis

vilhjalmur jonsson sfk des13Á vefmiðlinum austurfrett.is var í gær eftirfarandi haft eftir Jens Garðari Helgasyni, formanni bæjarráðs Fjarðabyggðar:

„Mér skilst að Seyðfirðingar hafi fengið þingmenn kjördæmisins til að lýsa því yfir að þeir styðji ekki fjárveitingu til uppbyggingar ferjuaðstöðu í Fjarðabyggð," segir Jens sem telur þá yfirlýsingu hafa verið „skrýtinn gjörning" bæði af hálfu bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og þingmannanna og aftur ranga forgangsröðun af hálfu þeirra fyrrnefndu.

Í ljósi þeirra ótrúlegu fullyrðinga og aðdróttana í garð bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og þingmanna Norðausturkjördæmis sem Jens viðhefur, er umrætt bréf birt.

Að auki er eftirfarandi haft eftir formanni bæjarráðs Fjarðabyggðar:

„Fyrir mitt leyti þá er það skýrt forgangsatriði að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar en á meðan það er ekki búið að ákveða hvar þau verði þá hef ég það málfrelsi að segja að menn ættu frekar að einbeita sér að Samgöngum heldur en Fjarðarheiðagöngum.

Á það hafa ýmsir sérfræðingar bent. Við verðum að tengja betur saman þetta litla 10.000 manna samfélag sem er á Austurlandi."

Eins og fram kemur í bréfi þingmanna Norðausturkjördæmis hefur Alþingi samþykkt tilraunaboranir vegna Fjarðarheiðarganga svo sem fram kemur í samgönguáætlun. Um er að ræða fjárfrekar rannsóknir sem ekki er að öllu jöfnu farið í nema leiðarval liggi þegar fyrir. Það er nokkuð ljóst að tenging milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs með Fjarðarheiðargöngum er liður í betri tengingu byggðarlaga á Austurlandi og stór áfangi á þeirri leið; Samgöngum.

Seyðfirðingar hafa ekki gert athugasemdir um legu jarðganga um Fjarðarbyggð heldur stutt Fjarðarbyggð fyrr og síðar sbr. nú síðast Norðfjarðargöng. Að gefnu tilefni færast Seyðfirðingar undan afskiptum forsvarsmanna Fjarðabyggðar á hvern hátt samgöngum til og frá Seyðisfirði verður háttað.

Atburðir og framkoma forsvarsmanna Fjarðarbyggðar í garð Seyðfirðinga undanfarna mánuði gefa ekki tilefni til að fara að ráðleggingum og afskiptum þeirra.

Lesa má bréfið frá þingmönnum með því að smella hér.

Höfundur er bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar