Nýbúinn – apríl

asdis helga bjarnadottir jan14Einhverra hluta vegna svaraði enginn lesandi Austurfréttar spurningu minni um hvað fólk geri sér til skemmtunar eftir þorrablótstímann. Ég hef því legið yfir blöðum, litið á auglýsingar í verslunum og spurt hina og þessa. Aftur á móti komst ég að svolitlu án þess að hafa mikið fyrir því. Þannig var að ég fékk tölvupóst. Bréfið innihélt spurningu, hefur þú áhuga á að mæta á bændafund? Jú, ég svaraði að það gæti verið áhugavert en gaman væri að vita hvar og hvenær hann yrði.

Svo leið og beið. Í Dagskránni kom svo auglýsing frá Félagi sauðfjárbænda Héraðs og Fjarða um aðalfund í Jökuldalnum og meðal annars að ég ætti að flytja þar erindi. Fullt nafn og titill á erindinu sem ég átti að flytja! Já, svona fara bændur að hér á bæ. Undirbjó mig í snarhasti og flutti erindið.

Fjölmennt var á fundinum. Margir höfðu farið að skoða fjárhús fyrir fund og sumir fengið sér ögn í tánna. Fundarstörf gengu vel sem og þau erindi sem voru flutt. Eftir það matarveisla mikil og góðar veigar. Án þess að lýsa því sem gerðist þar nánar er skemmst frá því að segja að nú veit ég hvaða „skemmtanir" ákveðinn hópur sækir eftir þorrablótin.

Geri ráð fyrir að fólk hafi skilað sér heim löngu eftir miðnætti. Embættismanneskjan dreif sig heim sem fyrst enda hefði lengri vera þarna getað endað með ósköpum svo vitnað sé í stemningu fundarins sem komið er inná á í dálki Bændablaðsins 3. apríl – Mælt af minni fram.

Gengin í Klaustur

Í framhaldi gekk ég í Klausturregluna. Margir kváðu við þegar ég skrifaði á fésbókina að ég væri gengin í regluna. „Fer karlpeningurinn svona illa með þig þarna fyrir austan" – var m.a. skrifað. Meira að segja hérar, eins og Hornfirðingarnir kalla Héraðsbúa, vissu sumir ekkert um hvað ég var að tala.

Klausturreglan er félag fastagesta og hollvina Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri (sjá www.skriduklaustur.is). Á konudaginn fór ég á ljóðalestur á vegum stofnunarinnar og kaffihlaðborð. Góðmennt var þegar tveir heimamenn byrjuðu að flytja ljóð sín. Bæði með góðan flutning á afskaplega skemmtilegum og fallegum ljóðum. Var snortin. Síðan fluttu tveir Finnar sín ljóð – annar þeirra með fínan ljóðabálk um brúðkaup. Flutt á finnsku en þýðingu varpað upp á vegg.

Ég á vart að segja frá þessu, því það sýnir líklega hversu takmörkuð ég er. Því þegar hinn einstaklingurinn flutti ljóð sín með miklum tilþrifum á finnsku, skildi ég ekki orð af því sem stóð á veggnum. Ég skildi jú íslensku orðin en uppröðun þeirra sagði mér ekkert. Ég var engu nær. Skildi ekkert. Allt í einu fór ég að hlæja innra með mér. Hvað ef allir upplifðu það sama og ég. Sitja þarna, hlýða með miklum áhuga en skilja bara ekki eitt einasta orð – var eitthvað þarna eða var hann að fíflast í okkur. Upp í hugann kom ævintýrið um - Nýju föt keisarans. Bros og mikið klapp fékk hann að lokum. Eitt þekktasta ljóðskáld Finna í dag, miðað við að hafa komist í viðtal hjá Agli í Kiljunni.

Þessi viðburður var samt frábær, hafði mjög gaman að og ekki síður því að setjast niður með góðu fólki á eftir og gæða mér á hlaðborðinu. Þvílík veisla. Algjörlega óhætt að mæla með Klausturkaffinu.

Ljóðabálkar í Fellabæ

Í spjalli þarna kom fram að annan laugardag í hverjum mánuði hittast ljóðaunnendur á Austurlandi í Bókakaffi Hlöðum. Áhugavert þótti mér og ákvað að ganga þangað í þvílíku slagveðri. Bíllinn neitaði nefnilega að ganga eftir að hann kom austur. Þrátt fyrir lagfæringar á viðurkenndu verkstæði, virðist hann alltaf geta fundið eitthvað til að stríða mér – t.d. að hleypa mér bara alls ekki inn í sig. Þess vegna er ég að reyna að fá hrossin mín austur.

En, ég mæti á tilsettum tíma alveg rennandi blaut – næ að fara úr utan yfir flíkum og róa mig niður – gufumökkurinn í kringum mig. Inn slæðist fólk á öllum aldri. Fyrirkomulagið er að farinn er hringur milli fólks og það les upp sín uppáhalds ljóð eða úr eigin ranni. Hafði unun af því að fylgjast með einum, mér kunnugum, sem hlýddi á heilu ljóðabálkana og virtist geta munað hann allan eftir einn lestur. Kom svo með athugasemdir við rím eða bragarhátt hér og þar – ég sem mundi vart fyrstu eða síðustu línuna. Líklega alzheimer light, eins og sumir segja. Svo runnu vísur um stað og stund upp úr einum – algjörlega magnað.

Eftir afskaplega fróðlega og skemmtilega stund, með gæðakaffi við hönd og bækur allt í kring, var haldið aftur út í slagviðrið. Guð, hvað ég vona að nú haldi sólin áfram að troða sér í gegnum skýin og gróðurinn að taka við sér, er langþreytt á snjókomunni og votviðrinu.

En, eftir þessi skrif um ljóðaviðburði og klausturlíf finnst mér eins og ég hafi elst um tuttugu ár við það að flytja austur! Viðurkenni þó að ég hafði gaman af þessari skemmtan enda ávallt í góðum félagsskap – Takk.

Höfundur er búfjáreftirlitsmaður og nýbúi á Egilsstöðum

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.