Annað opið bréf til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar

magnus gudmundsson sfkSæll Jens Garðar

Þú hefur kvartað yfir því að einhverjir netverjar séu með dylgjur og óhróður um íbúa Fjarðabyggðar, vegna umræðna um hafnaraðstöðu fyrir ferjuna Norrænu, og bent mönnum á að snúa sér beint til þín. Þó ég taki þessa kvörtun ekki til mín tek ég þig samt á orðinu, og ávarpa þig sem fulltrúa bæjaryfirvalda í Fjarðabyggð. Allt sem hér er sagt er þó ætlað bæjarstjórninni allri. Þið berið pólitíska og samfélagslega ábyrgð á þessu máli. Hins vegar vona ég að sem flestir íbúar Fjarðarbyggðar lesi það sem hér er sagt, og leggi sitt sjálfstæða mat á það.

Ég tek þetta fram þar sem kveikjan að þessari umræðu virðist vera opið bréf, sem ég sendi ykkur á þessum vettvangi þann 2. apríl sl. Eitthvað hefur það hreyft við ykkur því tveim dögum síðar kom frá ykkur yfirlýsing um málið, nokkuð sem þið sáuð ekki ástæðu til að gera þegar ákvörðun um áframhaldandi undirbúning að ferjulægi á Eskifirði var tekin þann 25. mars.

Í umræðu liðinna daga hefur þú haldið því fram að það væri rangt að gagnrýna ykkur sbr. „Vandinn felst í að þarna er einkafyrirtæki að skoða færslu á sinni starfsemi. Það er ekkert bundið af samþykktum SSA. Þeir[Seyðfirðingar] eiga að einbeita sér að Smyril-Line."

Það er rétt hjá þér að Smyril-Line hefur ekkert með SSA að gera. En þið hafið það svo sannarlega. Og eins og Björn Hafþór Guðmundsson benti réttilega á í sinni grein á dögunum, þá þarf tvo í tangó. Þar erum við komin að kjarna málsins. Það mun engin bílferja, hvorki Norræna né einhver önnur hafa viðkomu á Eskifirði nema þið viljið dansa tangó. Nema þið ákveðið að verja hundruðum milljóna, jafnvel milljarði í nýja ferjuaðstöðu, aðstöðu sem þegar er til á Seyðisfirði. Nema þið ákveðið að neyta aflsmunar með þeim myljandi tekjum sem Mjóeyrarhöfn gefur í aðra hönd. Tekjum hafnarinnar, sem allt Austurland studdi ykkur til að fá, með ráðum og dáð.

Við aldamótin síðustu stóð byggð á Austurlandi á tímamótum. Sjálfvirkni og tækniframfarir í grunnatvinnuvegunum kröfðust sífellt færri handa, og ný atvinnutækifæri bráðvantaði. Þá sögu þekkja Seyðfirðingar vel, jafn vel aðeins of vel. Til að gera langa sögu stutta varð stóriðja í Reyðarfirði og virkjanir á hálendinu að veruleika. Efnahagsleg þungamiðja á Austurlandi færðist til og sveitarfélögin í nágrenni álversins, sem runnin voru saman í eitt, gengu í endurnýjun lífdaganna. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér og ein helstu rök heimamanna var að efla með þessu atvinnulíf og byggð á Austurlandi.

Þegar ráðist er í svona uppbyggingu þarf að skoða áhrifin á svokölluð jaðarsvæði, sem og var gert. Slík svæði hafa oft goldið þess að vera ekki nógu nálægt uppbyggingarsvæðum, en samt svo nálægt að áhrifin hafa orðið neikvæð. Í þeim tilvikum hefur ráðleggingin gjarna verið sú að „gera eitthvað annað" og það var gert á Seyðisfirði. Ekki svo að samfélagið tæki hamskiptum á einni nóttu, því góðir hlutir gerast gjarnan hægt. Stóraukin áhersla var lögð á uppbyggingu í ferðaþjónustu, listum og menningu, og reynt að flétta þetta saman í eina heild. Hryggjarstykkið í þessari uppbyggingu eru ferjusiglingarnar, og sú ímynd, sem Seyðisfjörður hefur smám saman fengið á alþjóðavettvangi í tengslum við þær, móttaka skemmtiferðaskipa og uppbygging bæði listamiðstöðvarinnar í Skaftfelli og listahátíðarinnar LUNGA. Nú síðast hefur þetta getið af sér fyrsta íslenska lýðháskólann hér á landi um langa hríð.

Í þessu ljósi þarf að skoða samþykktir SSA um grunnuppbyggingu samgöngumannvirkja á Austurlandi. Þið, stjórnendur Fjarðabyggðar, getið ekki skotið ykkur undan fullri ábyrgð í þeim efnum. Reyndar er siðferðisleg ábyrgð ykkar í þessum efnum ríkari en allra annarra. Fyrir utan Fljótsdalshrepp, sem hýsir virkjunina, hefur ekkert, ég fullyrði ekkert sveitarfélag á Austurlandi hagnast á fyrrnefndri uppbyggingu eins Fjarðabyggð.

Í frétt hér á Austurfréttum 15. apríl er haft eftir þér orðrétt: „Við höfum alltaf verið með allt upp á borðum, gagnvart Seyðfirðingum og öðrum...." . Og er þá ekki rétt að fá allt upp á borðið? Þegar ég les það sem haft er eftir ykkur og að hluta til samningsaðila vakna spurningar um eðli og framvindu þessa máls.

1. Á vef RÚV 3.4.2014: „Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að fyrst og fremst hafi verið ræddur sá möguleiki að flytja vetrarsiglingarnar."
Á vef RÚV 10.4.2014: „Hún[Linda Björk Gunnlaugsdóttir stjórnarmaður í Smyril-Line] ítrekar að Smyril-Line sé aðeins að skoða vetrarsiglingar".
Á vef RÚV 10.4.2014: „Bent hefur verið á í umræðunni að Fjarðabyggð myndi varla leggja í mikinn kostnað einungis fyrir vetrarsiglingar Norrænu. Sumarsiglingarnar þyrftu líka að flytjast til Eskifjarðar til að réttlæta svo dýra fjárfestingu. Páll Björgvin segir að viðræðurnar séu ekki komnar það langt að hann geti tjáð sig um þetta með nákvæmum hætti en hluti aðstöðunnar myndi nýtast farþegum annarra skemmtiferðaskipa".

Og þá er spurningin. Um hvað er verið að semja? Bara vetrarsiglingar, fyrst og fremst vetrarsiglingar eða allan pakkann?

2. Á vef RÚV 3.4.2014: „Páll Björgvin segir framkvæmdir á Eskifirði verði ekki borgaðar með afgangi af rekstri annarra hafna. Hafnasjóður muni alltaf skoða hvort farið verði í uppbyggingu á Eskifirði með hliðsjón af arðsemi verkefnisins. Ekki liggi fyrir hver nákvæmur kostnaður yrði við Ferjuafgreiðslu á Eskifirði en lílegt sé að hafnarsjóður myndi ráða við hann".

Og þá er spurningin. Hver er áætlaður kostnaður og hvaða arðsemisútreikningar liggja á bak við ákvörðun stjórnenda Fjarðarbyggðar frá 25.03. um áframhaldandi skoðun á byggingu ferjuafgreiðslunnar?

3. Á vef Austurfréttar 15. 04. er haft eftir þér: „Mér skilst að Seyðfirðingar hafi fengið þingmenn kjördæmisins til að lýsa því yfir að þeir styðji ekki fjárveitingu til uppbyggingar ferjuaðstöðu í Fjarðabyggð," segir Jens sem telur þá yfirlýsingu hafa verið „skrýtinn gjörning" bæði af hálfu bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og þingmannanna og aftur ranga forgangsröðun af hálfu þeirra fyrrnefndu."

Ja, mikil eru völd Seyðfirðinga að geta sagt handfylli af þingmönnum fyrir verkum. Skrýtið að jarðgöng til Seyðisfjarðar séu þá ekki löngu komin. En spurningin er. Finnst þér eðlilegt að ríkið skelli hundruðum milljóna í ferjulægi á Eskifirði, þegar það er nýbúið að leggja sinn hlut fram í samskonar mannvirki á Seyðisfirði? Finnst þér þessi afstaða þingmannanna ekki ábyrg?

Á vef Austurfréttar 15.04. er haft eftir þér: „SSA er leiðarljós en við verðum alltaf að taka tillit til þess hvar fyrirtækin ákveða að setja sig niður." Jens segir einnig að fulltrúar Fjarðabyggðar hafi „ekki haft hugmynd um að þetta væri í vændum" þegar þeir sátu síðasta SSA-þing þar sem samþykkt var að aðal ferju- og skemmtiferðahöfn Austurlands skyldi vera á Seyðisfirði."

Eitt er víst í þessum efnum. Þið hafið ítrekað samþykkt stefnumörkun SSA varðandi hafnaraðstöðu fyrir ferjur og skemmtiferðaskip á Seyðisfirði. En nú er komið á daginn að það var bara allt í plati. Ég klóraði mér líka lengi í kollinum þegar ég sá eftirfarandi haft eftir bæjarstjóra Fjarðabyggðar í frétt á RÚV þann 3.4. s.l. „Við eigum erfitt með að hafna óskum um viðræður við fyrirtæki sem leita eftir þjónustu hér. Það er mjög erfitt að gera það. Það er þeirra ákvörðun að velta þessu fyrir sér og á endanum eru það fyrirtækin sem ráð för. "

Það er rétt að það er almenn kurteisi að svara fyrirspurnum, en ber að líta svo á að það séu á endunum fyrirtækin sem ráða för? Ímyndum okkur að flugrekandi vilji fljúga inn á Mið-Austurland, vilji ekki nota Egilsstaðaflugvöll og leitar til ykkar um aðstöðu. Þið talið við hann, kynnið honum landshætti, hann velur úr(fyrirtækin ráða för) og þið kostið flugvöll. Hafnarsjóður Fjarðarbyggðar borgar. Bingó!

En að öðru. Hefurðu heyrt um hugtakið „samfélagsleg ábyrgð" fyrirtækja? Ertu sammála því að eðlilegt sé að krefjast hennar af fyrirtækjum? Hvað þá með sveitarfélög? Nær samfélagsleg ábyrgð þeirra ekki út fyrir eigin sveitarfélagsmörk? Er hún engin gagnvart sameigninlegri stefnumótun samtaka sveitarfélaga? Gufar hún upp þegar eigin hagsmunir „setja samþykktir í uppnám"?

Og í lokin. Þér er tíðrætt um að Seyðfirðingar og málsvarar þeirra beini spjótum sínum að röngum aðila. Það er ekki rétt hjá þér, eins og fram hefur komið í þessu bréfkorni. Við erum að kalla eftir því að þið takið á þessu máli á eðlilegan og sanngjarnan máta gagnvart grönnum ykkar, og sýnið jafnframt í verki þakklæti fyrir stuðning liðinna áratuga. Við lýsum eftir raunverulegri samfélagslegri ábyrgð þess, sem er að taka út vöxt og vill verða fullorðinn og ábyrgur þegn í samfélagi sveitarfélaga á Austurlandi.

Það er ekki fleira í bili.

Með vinsemd og óbreyttri virðingu að sinni

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi á Seyðisfirði

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.