Austfirsk karlaknattspyrna: Meðalmennska eða á meðal þeirra bestu?

dagur skirnir odinsson webÞá styttist í sumarið með öllu sem því fylgir. Grillveislur, sólböð og ferðir á fótboltavelli hér og þar um fjórðunginn er á dagskránni hjá mér eins og hjá svo mörgum öðrum.

Í sumar ætlar höfundur að sækja fimm velli heim hér í fjórðungnum. Fara yfir Hellisheiði til þess að fylgjast með Einherja, skreppa yfir Fjarðarheiði á Seyðisfjörð þar sem Huginn spilar, rúnta á Fáskrúðsfjörð og Eskifjörð til að horfa á Leikni og Fjarðabyggð spila, auk þess að það verður ósjaldan rölt upp á Vilhjálmsvöll til þess að horfa á Hött leika.

Fimm félög en ekkert í félagsskap þeirra bestu

Þetta eru semsagt fimm lið hér á svæðinu. Tvö þeirra leika í annarri deild og þrjú þeirra í þriðju deild.

Þetta þýðir að bestu lið Austurlands leika tveimur deildum fyrir neðan þá bestu, þrátt fyrir að sumarið í fyrra hafi verið austfirskum liðum gæfusamt að Hetti undanskildu.

Það þýðir kæri lesandi að þegar þú borgar þig inn á vellina í sumar ertu ekki að fara sjá þessi lið leika við Fjölni, KR, Hauka eða Grindavík. Andstæðingarnir verða KF, Ægir, Magni, Víðir og fleiri félög í þeim dúr.

Ég endurtek, ekkert lið að austan er að fara að keppa við 24 bestu knattspyrnulið landsins, það sama var uppi á teningnum í fyrra en þá var ekkert lið héðan heldur í efstu tveimur deildunum.

Hvað er til ráða?

Nú, þá er ég búinn að fara yfir nokkrar staðreyndir, en hverjar eru lausnirnar?

Að mínu mati og eins og með allt annað á Austurlandi, þá er lykilorðið SAMSTARF.

Samgöngumál, heilbrigðismál, byggðamál, knattspyrna, eða eiginlega hvað sem er, þá erum við alltaf sterkari sameinuð en sundruð (það er kannski efni í aðra grein).
Væri sem dæmi mikið verra fyrir Seyðfirðinga eða Héraðsbúa ef Höttur/Huginn væri að spila í úrvalsdeild heldur en bara Höttur eða bara Huginn? Mér væri sama.

En hvað stoppar að hér hafi byggst upp öflugt lið í hópi þeirra bestu? Stolt? Einhver gamall rígur?
Það sem ég myndi vilja sjá gert hér, og er þetta eingöngu mín persónulega skoðun, er að Huginn og Höttur myndu koma sér saman um að halda úti einu öflugu liði og eins með Leikni og Fjarðabyggð.

Það eru 20 mínútur frá Fáskrúðsfirði til Eskifjarðar og sömuleiðis 20 mínútur frá Seyðisfirði til Egilsstaða.

Eitt sumarið bjó ég í Reykjavík og var mjög duglegur að sækja vellina, aldrei man ég eftir því að hafa verið undir tuttugu mínútum að koma mér þangað, svo fjarlægðarrök eiga varla við.

Þetta myndi þó ekki endilega þurfa að þýða fækkun liða hér á Austurlandi heldur að fókusinn og mesta fjármagnið yrði fært yfir á annað liðið og hitt liðið yrði þá mest megnis notað fyrir unga og efnilega leikmenn og þá sem hafa áhuga en skortir gæðin. Vængir Júpíters er þannig hálfgert varalið Fjölnis og Augnablik er keyrt á Breiðabliksstrákum. Það væri þá markmiðið að á Austurlandi væru tvö öflug fyrstu deildar lið og svo væru líka 3-4 deildarlið fyrir komandi kynslóð til að geta náð sér í mikilvæga reynslu.

Ástæða þess að ég minnist ekki á Einherja er einfaldlega sú að það eru 93 kílómetrar í næsta lið á svæðinu, Hött, og því eru hugmyndir um samstarf þar á milli fremur óraunhæfar.

Næsta kynslóð sett í forgang

Í fyrra tefldu Leiknir, Fjarðabyggð og Höttur fram sameiginlegu liði í öðrum flokki. Það er nefnilega staðreynd að ekkert eitt lið getur haldið úti öðrum flokki.

Með þessu fyrirkomulagi sem ég tala fyrir væri brýnt að þeir piltar sem virkilega vilja bæta sig en hafa ekki öðlast nægileg gæði eða þroska til þess að spila á hæsta leveli hafi forgang í leiki með varaliðinu. Þannig myndu liðin vinna saman, annað liðið myndi horfa til árangurs sem við söknum svo sárt á Austurlandi en hitt væri notað til að þroska leikmenn og gefa mönnum tækifæri til að sanna sig.

Það er ströggl að reka knattspyrnulið á Austurlandi, ferðakostnaður er brjálæðislegur og oft er erfitt að sannfæra efnilega stráka um að koma austur. Því leita menn mikið í útlendingalottóið og þegar maður tekur þátt í lottói þá eru ágætar líkur á að maður komi illa út úr því. Því er enn meiri ástæða fyrir lið á svæðinu til að sameina krafta sína og vanda til verka. Það er helvítis hark að reka lið hér.

Er þetta kannski í lagi svona?

Þessi grein er eingöngu skrifuð til þess að vekja upp umræður um stöðu karlaboltans hér í fjórðungnum og hvernig við getum tryggt að hér spili lið gegn bestu mótherjum landsins. Það þarf ekkert að vera að þessi leið sem ég set hér fram sé betri en einhver önnur. Öllum er frjálst að hafa sína eigin skoðun. Það er heilbrigt.

Staðreyndin er samt sú að þetta fyrirkomulag sem við þekkjum núna hefur ekki tryggt okkur að hér leiki lið í hópi þeirra bestu. Ekki einu sinni nálægt því.

Ég er spenntur fyrir hugmyndinni um að KR-ingar eða Blikar komi hingað austur á sumrin í náinni framtíð til þess að spila knattspyrnu í stað varaliða þeirra. En þú?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar