Heill heilsu: Verum meðvituð í núinu.

kristin bjorg albertsdottir hsaÍ þessum pistli kýs ég að víkja örstutt að andlegri heilsu og hvað við getum gert til þess að bæta andlega líðan okkar hér og nú. Rétt eins og með líkamlegt heilbrigði, ráðum við miklu um það hvernig okkur líður andlega á líðandi stundu.

Ytri aðstæður, umhverfi og jafnvel hegðun annarra, kunna ómeðvitað að vekja með okkur neikvæðar tilfinningar, s.s. óánægju, streitu, reiði, gremju, vonbrigði eða kvíða. Þessar neikvæðu tilfinningar kalla jafnframt fram tiltekin óæskileg líkamleg áhrif s.s. öran hjartslátt, hraðari og grynnri öndun, hækkun á blóðþrýstingi og vöðvaspennu. Einkennin verða meiri eftir því sem tilfinningin er neikvæðari og sterkari. Stundum þarf ekki einu sinni ytri aðstæður til, heldur duga hugsanir einar eða ímyndun til þess að ýfa upp neikvæðar tilfinningar og valda andlegri og líkamlegri vanlíðan.

Við erum gjörn á að samsama okkur huganum og láta hann stjórna okkur í stað þess að nýta hugann til þess að hafa hemil á tilfinningum okkar og þar með hegðun í daglegu lífi. Hvað getum við gert til þess að ná tökum á hugsunum okkar og tilfinningum þegar við finnum að þær eru ekki af jákvæðum toga og sporna þannig við óþarfa vanlíðan og öðrum neikvæðum afleiðingum?

Fyrsta skrefið er aukin meðvitund, núvitund. Þegar við upplifum eitthvað sem vekur upp neikvæðar hugsanir og tilfinningar er mikilvægt að vera meðvitaður og finna hvernig okkur líður með því að beina athyglinni inná við og gerast áhorfandi. Þannig getum við bægt neikvæðum hugsunum frá og forðast vanlíðan.

Þetta hljómar frekar einfalt en er það alls ekki alltaf í raun, því hugurinn vill telja okkur í trú um að þessi viðbrögð okkar séu algjörlega réttlætanleg af því að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Það krefst sjálfsstjórnunar að læra að aga eigin huga og það er í raun eilífðar verkefni. Á líðandi stundu eigum við val um það hvernig við bregðumst við því sem að höndum ber.

Það er best að byrja strax, verum meðvituð og eins og segir í gamalli ritningu; Stjórna geði þínu. Ef reiðist, tel til tíu, ef þörf er allt að hundrað. Reynum að temja okkur jákvæðar hugsanir og hafa gleði og kærleika að leiðarljósi, okkur og öðrum til farsældar.

Lifið heil.

HEILL HEILSU
- úr þekkingarbrunni heilbrigðisþjónustu -

Innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands starfar afar hæft fagfólk sem býr yfir mikilli þekkingu. Að áeggjan stofnunarinnar birtist nú greinaflokkur á vef Austurfréttar um heilbrigðistengd málefni. Eru höfundar greinanna starfandi á ýmsum sviðum innan HSA og hafa brugðist vel við þeirri málaleitan að miðla af þekkingu sinni út fyrir stofnunina. Höfundar skrifa þó í eigin nafni en ekki á ábyrgð stofnunarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar