Undrabarn í fótbolta, þunglyndið mitt, vonbrigði og aðrar pælingar

sigurdur donys sigurdsson webUndanfarið hafa hugrakkir leikmenn stigið fram og lýst sinni reynslu af geðsjúkdómum og langar mig að bætast í hóp þeirra um leið og ég þakka þeim fyrir að rjúfa þögnina.

Það er margt í lífinu sem mér finnst skemmtilegt að gera og eitt af því er að spila fótbolta. Ég þakka guði í dag fyrir að leyfa mér að spila fótbolta með heimaliðinu.

Þar sem ég er að verða 28 ára langar mér að segja mína sögu. Ég var talinn sem undrabarn í fótbolta og fékk mjög mikla athygli frá liðum hér á landi og erlendis. Ég komst í meistaraflokk hjá Einherja þegar ég var 14 ára, ég var lítill snöggur og taktískur leikmaður með gott auga fyrir mörkum. Það gekk allt vel hjá mér frá 14 ára til tvítugs. Þetta var ótrúlegur tími. Ég var búinn að fara nokkrum sinnum út til reynslu og neitaði samning þar sem mér fannst ég ekki tilbúinn. Ég hef alltaf verið lítill í mér og feiminn.

Á þessum tíma spilaði ég með Einherja síðan skipti ég yfir í Þór þegar ég var 17 ára. Ég varð strax fastamaður hjá Þór í fyrstu deild og stóð mig vel en síðan komu áföllin hver á eftir öðru. Ég fór úr axlarlið tvisvar fyrsta árið og ég missti mjög mikið úr sumrinu. Ég kom síðan til baka um veturinn og var búinn að standa mig vel í undirbúningstímabilinu, var valinn í 19 ára landsliðið og fór út með þeim og spilaði þar, allt gekk vel og síðan kom sumarið.

Ég var aftur orðinn fastamaður hjá Þór þegar stóra áfallið kom á móti Víkingi. Ég var að berjast um boltann og var tæklaður illa af markmanninum. Þarna lá ég eftir að drepast í hnénu og það bólgnaði upp einn, tveir og þrír. Ég var með slitin krossbönd í hægra hné og allt ónýtt í hnénu. Farið var með mig upp á spítala og mér sagt þar að ég myndi ekki spila fótbolta aftur og að ég þyrfti til Svíþjóðar í aðgerð.

Það tók 6 tíma að laga allt og búa til ný krossbönd. Eftir aðgerðina var mér tjáð að ég væri ekki að fara að spila fótbolta aftur og ætti varla eftir að hreyfa mig aftur, hvorki hlaupa né annað. Þá tók erfiðasti kaflinn í lifi mínu við. Allur draumurinn úti sem ég var búin að plana. Ég laug að sjálfum mér að þetta væri ekkert og lagðist í þunglyndi. Ég var með gifs í sex mánuði og ég laug svo mikið að sjálfum mér að ég var byrjaður að ljúga að fjölskyldunni minni og vinum líka og öðrum liðum sem höfðu áhuga á mér.

Þau spurðu hvernig ég væri og ég sagði alltaf að ég myndi vera í góðu standi eftir sjúkraþjálfun. Svoleiðis gekk það í 4 ár. Á meðan var ég alltaf meiddur og ég skipti um fjölda liða. Þetta voru alltaf vond tímabil og stundum entist ég bara í hálft tímabil.

Á þessum tíma eignast ég dóttur og ég var ekki einu sinni tilbúinn að sýna henni áhuga eins og alvöru pabbi, sem ég hef alltaf séð eftir. Ég laug alltaf að sjálfum mér að ég yrði atvinnumaður í fótbolta og að fótbolti væri eina sem væri til í lífi mínu. Það var ekki fyrr en fjölskylda mín náði mér út úr þessu rugli og sagði mér að byrja uppá nýtt og ég hef gert það í dag.

Ég vil þakka foreldrum mínum, vinum og Einherja fyrir að gefa mér ný tækifæri í lífinu, fá að þjálfa börnin og vera leikmaður Einherja og hafa trú á mér. Ég lít allt öðrum augum á líf mitt í dag og ég vill gefa af mér og miðla þeirri reynslu sem ég fékk úti og í minni baráttu til barna sem ég þjálfa og standa mig vel í því sem ég er að gera í dag og vil ég biðja alla að hafa í huga gullnu regluna: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir kom fram við þig.

Ef þú ert vingjarnleg(ur) við fólk verður það vingjarnlegt við þig og treystir þér. Alls ekki dæma aðra ef þú veist ekki um fortíð þeirra.

Burtséð frá þessu þá hlakka ég til þess að fylgjast með íslenska fótboltanum (og HM) í sumar og langar mig að enda þetta á því að nýta tækifærið til að senda kærar kveðjur til vina og vandamanna, knattspyrnuáhugamanna og iðkenda nær og fjær.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.