Opinn hugbúnaður í stjórnsýslu

Garðar Valur HallfreðssonAð vinna á opinn hugbúnað og nota svokölluð opin skráarsnið er ekki víðtekin venja hér á Fróni. Slíkt hefur þó notið vaxandi vinsælda erlendis, ekki síst í opinberri starfsemi. Slíkur hugbúnaður byggir á forritunarkóða sem er gerður aðgengilegur notendum en er að öðru leyti ekki frábrugðin öðrum hugbúnaði í eðli sínu. Með auknum vinsældum opins hugbúnaðar hefur slíkt stuðlað að aukinni samkeppni á markaði sem áður einkenndist af yfirburðarstöðu fárra framleiðenda.

Á Íslandi virðist notkun opins hugbúnaðar almennt ekki vera útbreidd. Þó hefur hugbúnaður vefþjóna náð umtalsverðri markaðshlutdeild. Nokkuð skortir á að þjónusta við annan opinn notendahugbúnað sé nægilega aðgengileg en líklegt er að framboð slíkrar þjónustu aukist við aukna útbreiðslu hans.

Með því að opna aðgang að forritunarkóða er verið að aðlaga hann að því umhverfi sem hugbúnaðurinn er notaður í. Ef framleiðandi hættir þróun á slíkum hugbúnaði getur einhver annar tekið keflið og haldið áfram að þróa hugbúnaðinn. Kostur er að leyfiskostnaður á opnum hugbúnaði er talsvert lægri en á séreignarhugbúnaði, jafnvel enginn í sumum tilfellum.

Annar kostur er að líftími vélbúnaðar getur verið framlengdur með tilkomu opins hugbúnaðar, til að mynda getur opinn hugbúnaður oft keyrt á eldri tölvum svo eitt dæmi sé tekið. Ókostur getur hins vegar verið kostnaður við fjárfestingu á sérþekkingu hugbúnaðarins, en slík þekking er oft af skornum skammti. Þó eru helstu ókostir opins hugbúnaðar samskipti við séreignarhugbúnað, skortur á framboði lausna og skortur á þjónustuaðilum.

Mögulega er ég að stikla í stórum skrefum yfir málefnið en kostir eru eflaust fleiri en ókostir þegar kemur að fjárhag og frelsi. Aðalatriðið er að mínu mati það að einstaklingar geri sér í hugarlund þá möguleika sem fyrir hendi eru á hinum opna hugbúnaðarmarkaði.

Með þessari grein er ég ekki að halda því fram að hægt sé að skipta yfir í opinn hugbúnað í opinberri stjórnsýslu á einni nóttu. Slíkt krefst undirbúnings ásamt skilningi á þeirri staðreynd að slíkt mun kosta fjármagn og tíma. Aftur á móti ef stjórnsýslan, eða sveitarfélög, myndu gera alvöru úttekt á þeim möguleika að skipta yfir í opinn hugbúnað er ég nánast fullviss að slíkt myndi spara okkur gríðarlega fjármuni um ókomna framtíð.

Þýskaland

Til að taka raunverulegt dæmi vill ég benda á að opinbera stjórnsýslan í München í Bæjaralandi í Þýskalandi hefur náð markmiðum sínum og skipt alfarið yfir í opinn hugbúnað. Þessi vinna hefur tekið um 10 ár í framkvæmd en yfirvöld í München lýstu yfir í desember 2013 að markmiðum hafi verið fullnægt.

Stjórnsýslan í München samanstendur samtals af 15.500 tölvum. Bæjarar fóru þá leið að flytja sig úr hefðbundnum Windows NT kerfum yfir í sína eigin Linux útgáfu sem þeir kalla LiMux en það stýrikerfi er byggt á opnu stýrikerfi. Markmið þeirra var í upphafi að flytja 12.000 af sínum tölvum yfir í LiMux en á endanum fluttu þeir 14.800 tölvur. Einnig tók stjórnsýslan þá ákvörðun að skipta yfir í opið skráarsnið, svokallað Open Document Format (.odf), í stað sérsniðs eins og t.d. .doc svo eitthvað sé nefnt. Flestir Íslendingar kannast sennilega mest við .doc eða .docx skráarsniðin, fyrir þá sem vinna ritvinnslustörf af einhverju tagi.

Á þessum árum hefur München sparað samtals 11 milljónir evra í samanburði við að uppfæra Microsoft kerfin sem notuð voru áður. Reiknað var með að með því að uppfæra úr Windows 2000 upp í Windows 7 og Microsoft Office 2010 hefðu borgin borgað rétt rúmlega 34 milljónir evra. Að skipta yfir í LiMux og OpenOffice kostaði borgina 22,8 milljónir evra, samkvæmt samanburði á kostnaði við flutning á 11.000 notendum yfir í LiMux. Borgin tók einnig inn í myndina hvað það hefði mögulega geta kostað að færa yfir í Windows 7 og OpenOffice en slíkt hefði kostað í kring um 29,9 milljónir evra.

Öll þessi verð innifela kostnað við hugbúnaðarleyfi, nauðsynlegar uppfærslur á vélbúnaði, þjálfun notenda, breytingar á ferlum og ytri aðstæðum, ásamt ýmsum öðrum þáttum. Af hagnýtum ástæðum mun borgin sennilega alltaf keyra einhverjar tölvur áfram á Windows stýrikerfum þar sem flutningur á sumum forritum er erfiður eða nánast ómögulegur. Því mun borgin sennilega uppfæra þær tölvur, sem keyra Windows XP í dag, í Windows 7.

Frakkland

Franska lögreglan er annað dæmi sem mig langar að nefna. Hún tók þá ákvörðun árið 2005 að skipta út Microsoft Office fyrir OpenOffice á öllum 4.500 lögreglustöðvunum í Frakklandi, ásamt því að skipta yfir í netvafrann Firefox og póstforritið Thunderbird. Árið 2006, þegar Microsoft gaf út stýrikerfið Windows Vista, var ákveðið að skipta út Windows stýrikerfinu fyrir Ubuntu stýrikerfi en það er afleiða af Linux. Einnig voru 4.500 eldri tölvur endurnýttar sem staðbundnir netþjónar fyrir hverju lögreglustöð. Árið 2007 skipti lögreglan einnig myndvinnsluforriti út fyrir opið myndvinnsluforrit sem heitir Gimp og einnig myndbandsspilara fyrir opinn myndbandsspilara sem heitir VLC.

Verkefnið var stórt enda keyrir franska lögreglan eitthvað í kringum 85.000 tölvur á sínum 4.500 lögreglustöðvum og þar starfa hvorki meira né minna en 100.000 manns í það heila. Markmiðið var í raun einfalt, þ.e. skipta um 10.000 tölvum á ári úr Windows stýrikerfi yfir í Ubuntu Desktop uns árið 2015 verði þær allar uppsettar með því. Verkefnið gekk brösuglega en það reyndist erfiðara að skipta sumum tölvum úr Windows yfir í Ubuntu en upphaflega var gert ráð fyrir. Fyrir vikið gekk ekki að skipta 10.000 tölvum á ári.

Miðað við þær tölur sem lágu fyrir í desember 2013 þá voru tæplega 43.000 tölvur komnar yfir í opið stýrikerfi sem þeir kalla GendBuntu. Franska lögreglan ákvað árið 2011 að útbúa sitt eigið stýrikerfi byggt á Ubuntu stýrikerfinu. Nafnið samanstendur af franska orðinu Gendarmerie, sem þýðir franska lögreglan, og Ubuntu sem er búið að nefna áður. Þetta ár (2011) voru 25.000 tölvur teknar í einu ferli yfir í GendBuntu og hefur ferlið gengið eins og smurt síðan þá. Þeir spá því að í september árið 2014 verði 75.000 tölvur farnar að keyra GendBuntu stýrikerfið.

Hvað þýðir þetta fyrir rekstur frönsku lögreglunnar? Þó lögreglan telji sjálf að það sé ómetanlegt að vera ekki lengur háð sérleyfishugbúnaði þá hefur þetta vissulega haft jákvæð áhrif á rekstrarkostnað hennar. Með GendBuntu sparast um 2 milljónir evra á ári í leyfisgjöld og tvær milljónir í viðbót í rekstur samanborið við leyfisgjöld fyrir Windows eins og sér. Einnig hafur verið metið að heildarkostnaður á eignarhaldi hafi lækkað um allt að 40% á árunum 2008 til 2014 með því að skipta yfir í opin hugbúnað.

Ísland

Með þessi tvö dæmi að leiðarljósi er vel hægt að gera sér í hugarlund þann sparnað sem íslenska ríkið og stjórnsýsla gætu skapað sér. Eins og dæmin gefa til kynna eru aðgerðir af þessu tagi ekki framkvæmdar á einni nóttu en krefjast frekar skipulagningar og staðfestu í framkvæmd. Allt hagkerfi okkar þrífst á því að keyra tölvur og er því vel við hæfi að skera þann kostnað niður eins og kostur er fyrir utan þá staðreynd að öðlast frelsi í hugbúnaði.

Þetta gæti verið atvinnuskapandi verkefni þar sem öll sérþekking myndi krefjast menntaðra einstaklinga sem myndu starfa hvar sem er hér á Fróni. Að vera fastur í viðjum erlendrar séreignar er eitthvað sem við þurfum ekkert endilega að láta fjötra okkur við, íslensk smákóngapólitík ætti alveg að geta gengið með þetta að leiðarljósi. Eitthvað til að hugsa um.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.