Uppbygging göngu- og hjólreiðastíga í Fjarðabyggð

kristín-gestsdottir-xd-3 webÍ lok árs 2008 opnaðist tækifæri fyrir okkur fjölskylduna að söðla um og flytja út á land. Ég er borin og barnfædd í höfuðborginni en maðurinn minn alinn upp suður með sjó. Við tókum slaginn og fluttum með það að markmiði að búa á Reyðarfirði í tvö ár, síðan eru liðin rúm fimm ár. Á þessum fimm árum hef ég reglulega ígrundað þá ákvörðun okkar fjölskyldunnar að búa hér áfram. Kostina og gallana hef ég listað upp og alltaf hefur fyrrnefndi flokkurinn vegið þyngra en sá síðari, og það umtalsvert.

Það sem hefur haft hvað mest að segja, fyrir utan að hafa vinnu og húsaskjól, er tíminn sem ég hef með fjölskyldunni. Við erum svo lánsöm hve stutt er í grunnþjónustu og vinnu þannig að tíminn sem fjölskyldan ver í bíl, búðir og biðraðir er afar lítill. Auk þess er ekki mikið áreiti um helgar svo við höfum nýtt það vel að búa í litlu samfélagi í nálægð við náttúruna. Göngu- og hjólaferðir með viðkomu á leikvöllum eru algeng fjölskylduafþreying og alltaf vinsæl hjá börnunum.

Alltaf má gott bæta og finnst mér kominn tími til að sveitarfélagið leggi natni í skipulag og gerð göngu- og hjólreiðastíga í allri Fjarðabyggð sem og uppbyggingu útivistarsvæða. Við höfum græn svæði í öllum byggðarkjörnum sem auðvelt er að gera fjölskylduvænni með betri stígum, bekkjum, útigrilli, leiktækjum og fleiru sem myndi án efa ýta undir notkun þeirra.

Það verður ekki fram hjá því litið að hreyfing utandyra, í fersku lofti, gangandi, hjólandi eða hlaupandi er gulls ígildi og bætir bæði andlega og líkamlega heilsu. Auk þess hefur hreyfing, ein og sér, ásamt samveru foreldra og barna mikið forvarnargildi.

Ég tel það vera eitt af verkefnum sveitarfélagsins, á næsta kjörtímabili, að hefja umbætur á göngu- og hjólreiðarstígum sem og uppbyggingu útivistarsvæða. Byggjum saman upp heilnæmt og heilsueflandi samfélag. Munum að við erum á góðum stað.

Höfundur skipar 3. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar