Sveitarfélög og svæðisbundin fjölmiðlun

hrafnkell larusson headshotSvæðisfjölmiðlun er mikilvæg fyrir samskipti íbúa, þróun lýðræðis og sköpun sjálfsmyndar. Aðgangur að upplýsingum um samfélagið og möguleiki til þátttöku í umræðum um þróun þess hafa sérstaklega verið tilgreind meðal mikilvægra þátta í lífsgæðum í dreifðari byggðum. Það skiptir máli að hafa „eigin rödd" sem ber á borð málefni samfélagsins og skapar samtal um mál sem kannski hafa litla þýðingu á landsvísu – og koma ekki til umræðu á þeim vettvangi – en geta skipt íbúa í ákveðnum byggðarlögum eða landshlutum miklu máli.

Styrkur „eigin raddar" felst ekki aðeins í fjölda svæðismiðla heldur ekki síður í gerð þeirra. Ljósvakamiðlar hafa í þessu tilliti ákveðið forskot yfir prent- og netmiðla. Þjónusta starfandi ljósvakamiðla við landsbyggðina í samtímanum er hins vegar mjög takmörkuð. Þeir sinna upplýsingahlutverki að vissu marki en litlu sem engu aðhalds- og umræðuhlutverki og hafa því lítið vægi fyrir svæðisbundið lýðræði.

Lýðræðishlutverk fjölmiðla

Það er óumdeilt að fjölmiðlar þjóna hlutverki í lýðræðislegri umræðu. Hvernig það hlutverk er skilgreint og hvernig því er best sinnt er hins vegar umdeildara. Eigi almenningur að geta myndað sér upplýstar skoðanir á samfélagsmálum þarf hann að hafa aðgang að sem gleggstum upplýsingum um þá valkosti og þau sjónarmið sem tengjast hverju viðfangsefni. Í þeim efnum spila hefðbundnir fjölmiðlar veigamikið hlutverk, bæði svokallaðir landsmiðlar (sem leitast við að þjóna landinu öllu, t.d. RÚV, Morgunblaðið og DV) en einnig svæðismiðlar. Þeir skapa opið rými fyrir upplýsingadreifingu og umræðu sem er miðlægari en umræða á samskiptavefjum.

Síðastliðið ár hef ég (á vegum Háskóla Íslands) stundað rannsókn á svæðisbundinni fjölmiðlun, þróun hennar og hlutverki. Sú rannsókn dregur skýrt fram mikilvægi svæðisfjölmiðla fyrir þróun lýðræðis í nærsamfélagi, ekki síst opinnar umræðu um sveitarstjórnarmál á landsbyggðinni. Lýðræði byggist á virkri þátttöku íbúanna (einkum íbúalýðræði) og að þeir geti með upplýstum hætti tekið þátt í að móta tillögur um mál er varða þá og nærumhverfi þeirra. Svæðisfjölmiðlun er þó ekki bundin við dreifbýli, slíka fjölmiðlun má einnig finna í þéttbýli og eru bæjar- og hverfisblöð dæmi um slíkt.

Fjölmiðlar þjóna þremur meginhlutverkum; aðhalds-, upplýsinga- og umræðuhlutverkum. Öll skipta þau máli fyrir þróun og viðhald lýðræðis.

Með nokkurri einföldun má lýsa muninum á svæðismiðlum og landsmiðlum með eftirfarandi hætti: Þeir svæðisbundnu dreifa upplýsingum innan svæðis og skapa þar umræðu. Landsmiðlar segja þeim sem búa utan viðkomandi svæðis hvað er að gerast þar. Það hlutverk er vissulega mikilvægt en gerir lítið fyrir lýðræðislegt samtal á svæðinu. Þessi skipting er þó ekki alltaf skýr því hér á landi starfa landsmiðlar í raun sem svæðismiðlar fyrir sitt nánasta umhverfi.

Frá almannaþjónustu til afþreyingar

Samfelld og skipuleg dreifing upplýsinga, aðhald gagnvart valdi og opin lýðræðisleg umræða er nauðsynleg fyrir öll samfélög – fjölmenn sem fámenn. Hlutverk fjölmiðla er þar fyrst og síðast að veita upplýsingar um frambjóðendur og málefni og vera vettvangur umræðu. Meðan starfsstöðvar RÚV á landsbyggðinni stóðu fyrir svæðisbundnum útsendingum sinntu þær þessum hlutverkum fyrir sín svæði. Á vettvangi þeirra var stofnað til samtals og skoðanaskipta um ýmis málefni, t.d. skipulags- og skólamál einstakra byggðarlaga eða umhverfis- og atvinnumál heils landssvæðis. Þar skapaðist á tíðum öflug umræða um samfélagsmál viðkomandi svæðis, sem hafði mikla þýðingu fyrir íbúana en takmarkaða skírskotun út fyrir svæðið.

Þróun í fjölmiðlun hér á landi og í nágrannalöndunum dregur dám af aukinni markaðsvæðingu þar sem skemmtun og afþreying er að ryðja fræðslu og upplýsingagjöf til hliðar. Haldi þessi þróun áfram í sömu átt mun það leiða til einsleitari efnistaka, þar sem umfjöllun um málefni sem ekki þykja „skemmtileg" eða „söluleg" – t.d. sveitarstjórnarmál, félagsleg mál og heilbrigðismál – lætur undan síga fyrir léttara og sölulegra efni, þ.m.t. ýmiskonar vöru- og þjónustukynningar eða „lífstíls-umfjallanir".

Þingsályktunartillaga

Það er ekki algildur mælikvarði á mikilvægi málefna hvort það sé mat ritstjórna eða einstakra frétta- og dagskrárgerðarmanna hvort efnið eigi erindi til allra landsmanna eður ei. Málefni með þrönga skírskotun geta haft mikið gildi fyrir samfélög, en mál með víða haft litla. Það er því brýn þörf að skapa sterka vettvanga um allt land fyrir lýðræðislega umræðu, fréttamiðlun og upplýsingadreifingu í nærsamfélagi. Ef fólk hefur ekki greinargóðar fréttir af heimasvæði sínu veikir það samfélögin.

Veturinn 2004-2005 var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga þess efnis að kannað yrði með hvaða hætti (beinum eða óbeinum) ríkisvaldið gæti stutt við svæðisbundna fjölmiðla svo þeir gætu eflt lýðræðislega umræðu á sínu svæði.

Þrjú meginrök komu fram í umræðunni til stuðnings tillögunni. Í fyrsta lagi að svæðisbundnir miðlar væru mikilvægir fyrir innri umræðu í samfélögum. Í öðru lagi að styrkja ætti miðla sem mættu ákveðnum ritstjórnarlegum kröfum. Og í þriðja lagi væri svæðisfjölmiðla þörf sem vettvangs skoðanaskipta og upplýsingadreifingar vegna fyrirsjáanlegrar sameiningar sveitarfélaga og hættu á að með fleiri íbúum í nýju sveitarfélögunum ykist fjarlægðin milli íbúa og stjórnsýslu.

Þingsályktunin fór í gegnum fyrstu umræðu og var að henni lokinni samþykkt með 46 samhljóða atkvæðum. Seinni umræðan náði ekki að fara fram fyrir þinglok og málið dagaði uppi.

Sveitarfélög og fjölmiðlar

En hvað geta sveitarfélögin gert til að efla fjölmiðlun og lýðræðislega umræðu á sínu svæði?

Þau geta ákveðið að styðja markvisst við svæðisbundna fjölmiðlun. Í því skyni er mikilvægt að sveitarfélög komi sér upp fjölmiðlastefnu. Hún þarf ekki að vera flókin eða langorð. Gæti t.d. miðaðst við tvö meginatriði. Annað væri almennar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa og embættismenn sveitarfélaga varðandi umgengni við fjölmiðla, þar sem leitast væri við að bæta flæði upplýsinga og girða fyrir óeðlileg afskipti af fréttum og umfjöllun. Hitt væri að sveitarfélög styrki upplýsingadreifingu og umræðu á sínu svæði með því að beina auglýsingum (t.d. um framkvæmdir, reglu- eða þjónustubreytingar) í fjölmiðla sem innihalda ritstjórnarefni. Í dag rata slíkar auglýsingar oftar en ekki í landsmiðla, sem sinna viðkomandi sveitarfélagi kannski tilviljunarkennt eða lítið, eða þær birtast í vikulegum auglýsingabæklingum sem innihalda ekkert ritstjórnarefni en hafa góða dreifingu.

Með fjölmiðlastefnu myndu sveitarfélögin efla fjölmiðlun á sínu svæði og uppskera vonandi öflugari samfélagsumræðu og þátttöku. Slíkt mætti líka nota til að þrýsta á ríkið að gefa nærfjölmiðlun meiri gaum. Það er undarleg staða að stofnanir ríkisins, t.d. ráðuneyti eða sýslumannsembætti, styrki ákveðna landsmiðla með því að beina flestum sínum auglýsingum til þeirra. Einkum verður þetta sérkennilegt varðandi auglýsingar sem eiga við svæði á landsbyggðinni þar sem svæðisfjölmiðlar hafa mun meiri útbreiðslu og lestur.

Sú þróun sem hér er lýst (og varað er við) gerist hægt en ekki í stökkum. Vandamálið við slíka þróun er að oft varar fólk sig ekki á henni fyrr en hún hefur gengið svo langt að ekki er aftur snúið. Standa þarf gegn því að markaðsvædd afþreying taki yfir fjölmiðlana meir en orðið er og ryðji burt umfjöllun og umræðu um mikilvæg samfélagsmál. Þetta er stórt hagsmunamál fyrir íslenskt samfélag.

Höfundur er sagnfræðingur og verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar