Sýklalyf og sýklalyfjaónæmi: Þarftu sýklalyf, eða batnar þér án þess?
Fyrsta sýklalyfið kom fram fyrir rúmum 70 árum og umbylti meðferð bakteríusýkinga og til dæmis varð lungnabólga, sem oft jafngilti dauðadómi, almennt læknanleg. Undanfarin ár hefur borið á sýkingum sem þessi lyf vinna illa eða ekki á og eru í versta falli ólæknanlegar.Ástæðan er að bakteríur sem verða fyrir áhrifum af sýklalyfi geta þróað mótstöðu gegn lyfinu, orðið ónæmar og sumar fjölónæmar (þola mörg sýklalyf). Slíkar bakteríur eru vaxandi ógn og auka veikinda- og dánartíðni. Vandinn einskorðast ekki við hefðbundna meðferð sýkinga, því ýmsir þættir háþróaðrar heilbrigðisþjónustu eru mjög háðir því að til séu virk sýklalyf. Hér má nefna krabbameinsmeðferð, líffæraflutninga, nýburagjörgæslu, stórar skurðaðgerðir og fleira.
Tilkoma ónæmra baktería og dreifing þeirra vex með aukinni sýklalyfjanotkun. Mikilvægt er að nota lyfin á rökréttan og ábyrgan hátt; þegar þeirra er þörf, í réttu magni og hæfilega lengi.
Hér á landi eins og víðast á vesturlöndum er öll notkun sýklalyfja háð því að læknir ávísi þeim með lyfseðli og þannig eru læknar ábyrgir fyrir notkun þeirra. Við Íslendingar notum mikið af sýklalyfjum, mest allra Norðurlandaþjóða og hjá okkur eins og mörgum þjóðum er hluti notkunarinnar óþarfur. Ástandið er enn verra í suður-Evrópu þar sem kaupa má sýklalyf í lausasölu án lyfseðils og rétt er að vara sólarlandafara við slíkum innkaupum.
Hvers vegna eru þessi mikilvægu en viðkvæmu lyf notuð að óþörfu? Skýringin er ekki síst sú að of oft er gripið til þeirra þegar kvef og aðrar umgangspestir eiga í hlut; hálsbólgur, skútabólgur (ennis- og kinnholubólgur), berkjubólgur (bronkitis), augnsýkingar o.fl.
Mjög stór hluti þessara sýkinga eru veirupestir sem læknast af sjálfu sér og sýklalyf hafa engin áhrif á þær og þó bakteríur valdi sumum pestanna, þá læknast þær líka oft án meðferðar.
Handþvottur og ónæmiskerfi, það er málið
Munum að ein mikilvægasta smitvörn gegn alls kyns pestum er handþvottur. Þar við bætist að ónæmiskerfi líkamans læknar oftast kvef, flensur, pestir og ýmsar vægar bakteríusýkingar og það án sýklalyfja. Þegar þú leitar læknis vegna slíks þá er eitt mikilvægasta hlutverk hans að meta hvort ónæmiskerfi þitt muni ekki vinna á sýkingunni sjálft og án lyfja.
Vitund þín og vönduð vinna okkar lækna skipta miklu máli til að draga úr myndun ónæmra baktería. Saman getum við stuðlað að því að þessi dýrmætu lyf nýtist áfram þeim sem þurfa þau hverju sinni og verði nothæf fyrir næstu kynslóð(ir).
Höfundur er heimilislæknir
HEILL HEILSU
- úr þekkingarbrunni heilbrigðisþjónustu -
Innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands starfar afar hæft fagfólk sem býr yfir mikilli þekkingu. Að áeggjan stofnunarinnar birtist nú greinaflokkur á vef Austurfréttar um heilbrigðistengd málefni. Eru höfundar greinanna starfandi á ýmsum sviðum innan HSA og hafa brugðist vel við þeirri málaleitan að miðla af þekkingu sinni út fyrir stofnunina. Höfundar skrifa þó í eigin nafni en ekki á ábyrgð stofnunarinnar.