Gott heimilisbókhald

jens gardar x2014Að reka sveitarfélag er ekki ólíkt því að reka heimili – sem við öll jú þekkjum.

Í upphafi kjörtímabilsins voru skuldir sveitarfélagsins miklar og verkefnið ærið að ná tökum á skuldum sem sliguðu okkar stóra heimili. Það hefur tekist. Með samhentu átaki höfum við tekið skuldaviðmið sveitarfélagsins úr 230% í 168% ! Enn er mikið starf framundan en þó hefur skapast svigrúm til að koma á móts við íbúana og þá ekki síst ungu fjölskyldurnar sem eru með stóra útgjaldapósta.

Fjölskylduvænt samfélag

Stefna Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð er að létta undir með fjölskyldunum í Fjarðabyggð – til að undirstrika enn frekar að hér er gott að búa og við viljum styðja við þá hugmyndafræði að Fjarðabyggð sé fjölskylduvænt samfélag. Þess vegna ætlum við að lækka leikskólagjöld um 25% á kjörtímabilinu og skólafæði um 25%. Við ætlum að halda gjaldskrá tónlistarskólanna, sem er ein sú lægsta á landinu, óbreyttri og gera þannig öllum börnum, óháð efnahag, kleift að stunda tónlistarnám.

Eldri borgarar

En einnig viljum við koma á móts við eldri borgara Fjarðabyggðar – fólkið sem í sveita síns andlits í áratugi hefur byggt upp það samfélag sem við erum svo lánsöm að búa í í dag. Stór hluti eldri borgara hefur litlar árstekjur en býr í stóru húsnæði sem er dýrt í rekstri. Þess vegna ætlar Sjálfstæðisflokkurinn í Fjarðabyggð að lækka fasteignagjöld á 70 ára og eldri um 20%.

Framkvæmdir og tækifæri

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur mörgu verið hrint í verk á kjörtímabilinu – hafnarframkvæmdir, fegrun bæjarkjarnanna, bygging leikskólans í Neskaupstað er að hefjast og stórsókn og markaðssetning á sveitarfélaginu sem heldur betur hefur borið árangur sbr. nýjustu fréttir um komu Eykon til Fjarðabyggðar.

Við höfum sýnt að við göngum hreint til verka – göngum alla leið í að bæta mannlíf og fjölbreytt atvinnulíf í Fjarðabyggð. Við óskum eftir þínum stuðningi til að halda áfram á sömu vegferð með þína hagsmuni að leiðarljósi.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar