Undir forystu Framsóknar

stefan bogi x2014Ef ég er spurður um það hver séu verkefni bæjarstjórnar þá er ég vanur að gefa við því eitt stutt svar: Að bæta búsetuskilyrði íbúanna. Á bak við svona einfalt svar liggur síðan flókinn veruleiki fjármála og stjórnsýslu, skólakerfis, framkvæmda og þjónustu ýmiss konar. Fjárhagslegur veruleiki sníður okkur stakk sem við þurfum að passa í á hverjum tíma. Það er ekki hægt að gera allt sem er þarft og gott, en það er hægt að reyna að forgangsraða og gera það sem mestu skiptir, verja það sem við höfum þegar harðnar á dalnum og undirbúa okkur og skipuleggja fyrir þann tíma þegar aðstæður batna.

Undir forystu Framsóknar hefur bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs tekist á við það verkefni að reka sveitarfélagið okkar, halda uppi þjónustu við íbúana en skila jafnframt nægjanlegri framlegð úr rekstri til að borga af þeim mikla skuldapakka sem við tókum við. Að okkar mati hefur okkur tekist vel til. Rekstur sveitarfélagsins er í mjög góðu horfi, okkur hefur tekist að standa vörð um mikilvæga þjónustu eins og leikskóla fyrir eins árs börn, almenningssamgöngur og framlög til menningar- og íþróttamála. Allar áætlanir og spár sýna að við erum á réttri leið.

Þetta er mikilvægt því að eina auðlindin sem við sem sveitarfélag getum litið til þegar kemur að því að skapa tekjur, eru fólk. Við þurfum á því að helda að hér sé gott og öflugt samfélag sem tekur vel á móti nýju fólki og bíður upp á tækifæri til að skjóta hér rótum og búa til heimili fyrir fjölskylduna. Á kjörtímabilinu hefur Framsókn lagt ríka áherslu á að styðja við heilbrigt umhverfi fyrir fyrirtæki á svæðinu og reynt að virkja samtakamáttinn til að nýta þau tækifæri sem hér er að finna.

Gott dæmi um þetta er stofnun Þjónustusamfélagsins, en sveitarfélagið hvatti mjög til þess að þau samtök yrðu stofnuð og leggur þeim til fé til að sinna uppbyggingarstarfi í þjónustugeiranum hér á svæðinu. Þá hefur samstarf okkar við Fjarðabyggð um markaðssetningu á sveitarfélögunum nýverið skilað þeim árangri að öflugasti sérleyfishafinn til olíuleitar á Drekasvæðinu ætlar að gera þessi tvö sveitarfélög að þjónustumiðstöð fyrir verkefni sín þar.

Við erum ánægð með hvernig til hefur tekist á kjörtímabilinu og viljum gjarnan halda áfram á sömu braut. Lykilinn að þessum árangri teljum við hafa verið gott samstarf og samvinnu innan bæjarstjórnar og þeim vinnuanda viljum við gjarnan viðhalda. Með ykkar stuðningi getum við haldið áfram að byggja hér upp gott samfélag fyrir okkur öll.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar og skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar