Opið bréf til sveitastjórna: Stuðningur við starfsemi svæðisbundinna miðla – til umhugsunar

austurfrett-austurgluggiTilefni þessa bréfs er yfirferð undirritaðra yfir Dagskrá síðustu viku. Af fimm sveitarfélögum þar sem framboðslistar bárust auglýsa kjörstjórnir fjögurra þeirra listana þar. Í Dagskránni, eins og alltaf. Og það var sannarlega ekki það eina sem frá sveitarfélögunum kom í þetta blað, frekar en venjulega.

Við teljum mikilvægt allra hluta vegna fara að staldra aðeins við og hugsa áður en menn framkvæma. Hvaða umhverfi vilja menn sjá í fjölmiðlum hér á svæðinu? Bara svona til þess að hafa það á hreinu, Dagskráin er ekki fjölmiðill. Þar er engin ritstjórn, þar birtist ekkert efni, hún hefur nákvæmlega ekkert gildi þegar kemur að því hlutverki sem menn hugsa fjölmiðlum. Hún veitir íbúum ekki fréttaþjónustu, hún er ekki vettvangur skoðanaskipta. Hún er bara það sem hún er. Hún er auglýsingabæklingur.

Hér er verið að berjast við að reka tvo svæðisfréttamiðla. Einn á vefnum og annan á prenti. Það er erfitt og það er dýrt. Þeir berjast báðir í bökkum. En sveitarfélögunum virðist vera algjörlega sama hvort þetta framtak lifir eða deyr. Við höfum vissulega fengið einhver viðskipti, en það er ekki nema brotabrot af því sem að streymir í gegnum samkeppnisaðila okkar, áreynslulaust, í hverri einustu viku.

Erindi sem hafa verið send frá okkar fjölmiðlum um styrki eða auglýsingar hafa oftar en ekki þurft sérstakt samþykktaferli í nefndum sveitarfélaganna. En það virðist ekki gilda þegar kemur að auglýsingum sem streyma frá öllum sviðum og deildum en líkt og Lagarfljót og Jökla, enda samt allar í einum og sama ósnum.

Þessir fjölmiðlar leggjast af ef þeir hafa ekki tekjur. Það er svo einfalt. Þeir sem í þessu standa þurfa að lifa eins og aðrir. Sveitarfélögin þurfa að gera upp við sig hvort menn vilja hafa hér fjölmiðla eða ekki.

Til að taka ákveðið dæmi, þá hefðu þessar auglýsingar kjörstjórna um framboðslistana borgað laun ritstjórans þessa vikuna, ef auglýst hefði verið í Austurglugganum. Það er reyndar bara ein af 52, en það er í áttina.

Menn verða að mynda sér einhverja stefnu um þetta. Viljið þið hafa fjölmiðla hér eða ekki? Það er nákvæmlega ekkert að því að móta sér þá stefnu að auglýsingar sveitarfélaganna birtist í fjölmiðlum sem reka ritstjórn og miðla efni. Það er ekkert að því að þannig séu íbúar hvattir til þess að kaupa og lesa þessa miðla.

En ef við höldum áfram að sjá milljónir króna á ári streyma frá sveitarfélögunum til að styrkja útgáfu sjónvarpsdagskrárinnar á prenti, þá gefumst við upp. Það er ekkert flóknara en það. En kannski er öllum bara sama.

Virðingarfyllst,

Tjörvi Hrafnkelsson, stjórnarformaður Austurfréttar ehf.
Sverrir Mar Albertsson, stjórnarformaður Útgáfufélags Austurlands ehf.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.