Skiptir þitt atkvæði einhverju máli?

sigrun blondal x2014Sveitarstjórnarkosningar eru á næsta leiti. Fólk talar um að lítill áhugi sé fyrir kosningunum og fáir ræði um þær. Hvernig stendur á þessu? Við, sem daglega veltum fyrir okkur stöðu sveitarfélagsins og möguleikum, eigum erfitt með að skilja þetta. En um leið verðum við að spyrja okkur hver geti verið ástæðan fyrir þessu áhugaleysi kjósendanna. Höfum við sveitarstjórnarfólkið e.t.v. ekki staðið okkur í að miðla til íbúa hver verkefni sveitarfélagsins eru og hvernig stendur til að leysa þau? Sjá íbúarnir ekki tilgang í að láta skoðanir sínar í ljós því ekkert sé gert með þær?

Mánaðarlega hafa bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði viðtalstíma. Yfirleitt nýta einhverjir sér þetta en alltof fáir. Það virðist ekki vera mikið mál að skreppa upp á bæjarskrifstofu og setjast með tveimur manneskjum og spjalla. En þetta hefur ekki slegið í gegn, svo mikið er víst.

Fólk segir þegar kynntar eru vinnustaðaheimsóknir framboða í aðdraganda kosninga; „Þið komið bara fyrir kosningar og sjáist svo ekki þess á milli". Þetta er því miður alveg rétt. En hitt verður að hafa í huga að bæjarfulltrúar eru flestir í fullri vinnu og eiga misgott með að skreppa úr vinnu sinni til að sinna bæjarpólitíkinni að frátöldum föstum fundum og samkomum sem þeir verða að mæta á.

Hvernig má vekja áhuga á málefnum sveitarfélagsins? Það er verkefni sem við í Héraðslistanum höfum mikinn áhuga á. Því tölum við um lýðræðisstefnu en það er fallegt orð yfir það að virkja íbúa til þátttöku í málefnum og stefnumótun sveitarfélagsins. Íbúarnir eiga að fá meira tækifæri til að móta nærumhverfi sitt sem getur svo leitt til meiri sáttar um stefnumótun og ákvarðanir sveitarstjórnar.

Nú þegar hafa nokkur sveitarfélög sett sér lýðræðisstefnu svo við erum ekki að finna upp hjólið. Við teljum að það sé aðeins til bóta að auka upplýsingaflæði og að fólk geti frekar mótað sér skoðanir hafi það fengið réttar upplýsingar.

Þetta og margt annað hefur Héraðslistinn – Samtök félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði, á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar í maílok. Við viljum gjarnan ræða við ykkur, ágætu íbúar og heyra ykkar skoðanir. Við höfum opnað kosningaskrifstofu að Lagarási 8, Egilsstöðum en opnunartímar eru aðgengilegir á heimasíðu okkar www.heradslistinn.is eða á Facebook-síðu okkar Héraðslistinn.

Hafið hugfast að það skiptir máli að allir fari á kjörstað. Valið er ykkar en það skiptir máli að hafa skoðun og láta hana í ljós.

Höfundur er oddviti L-lista, Héraðslistans – Samtaka félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar