Frjálst skólaval á Fljótsdalshéraði

thordur Mar thorsteinsson sigad webNú líður senn að sveitarstjórnarkosningum og línurnar farnar að skerpast hjá hinum pólitísku framboðum. Skólamál á Héraði hafa löngum verið ofarlega á baugi við slík tímamót. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram í þeim málum m.a. sameining grunnskóla, frekara samstarf þeirra eða einfaldlega óbreytt ástand.

Eitt framboð öðrum fremur hefur viljað halda skólunum sem faglega sjálfstæðum einingum eins og kostur er, það er Á-listinn. Rökin fyrir sjálfstæði skólanna eru mörg, og við frambjóðendur Á-listans telum þau vega þyngra en fjárhagsleg rök fyrir sameiningu þeirra.

Í fyrsta lagi teljum við einfaldlega að ekki hafi verið sýnt fram á með nægilega skýrum hætti, að sparnaður verði við sameiningu Fellaskóla og Egilsstaðaskóla. Eflaust væri hægt að fækka kennurum eitthvað við sameiningu en á móti kemur aukinn stjórnunarkostnaður. Bæði þarf deildarstjóra við Fellaskóla, og laun skólastjóra Egilsstaðaskóla myndu hækka vegna aukins fjölda nemenda.

Í öðru lagi hefur val um tvo, að mörgu leyti ólíka skóla, gert nemendum sem ekki gengur vel í stórum skólum kleyft að sækja annan (eða aðra) skóla sem eru minni og hentar þeim betur.

Í þriðja lagi stendur rekstrargrundvöllur Fellaskóla traustum fótum. Aldrei hafa fleiri nemendur stundað nám við skólann, en þeir voru 109 skólaárið 2013-14.

Vilji foreldra nemenda í Fellaskóla stendur klárlega til þess að reka skólann sem sjálfstæða einingu. Þessi skýri vilji foreldranna kom fram í könnun sem gerð var í skólanum nú í vor. Einnig kom fram skýr vilji um að Fellaskóli verði áfram heildstæð eining með öllum bekkjarárgöngum.

Möguleg fækkun í sveitaskólum á Héraði gæti orðið til þess að við þyrftum í framtíðinni að styrkja skólana í þéttbýlinu enn frekar. Af þeim sökum teljum við öll rök standa til þess að viðhalda fjölbreytni í skólavali í þéttbýlinu.

Á – listinn vill standa vörð um sjálfstæði grunnskólanna á Fljótsdalshéraði. Þannig teljum við að sveitarfélagið uppfylli best lagalega skyldu sína um að veita sem besta grunnþjónustu, og við teljum augljóst að sú þjónusta nýtist best með sjálfstæði grunnskólanna.

Höfundur skipar 3. sæti Á-listans, áhugafólks um sveitarstjórnarmál á Fljótsdalshéraði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.