Málefnalegi Fjarðalistinn
Augu mín stóðu á stilkum þennan fallega miðvikudagsmorgun er ég las frétt á Vísi.is undir fyrirsögninni "Frambjóðandi getur ekki hugsað sér að búa á Stöðvarfirði".Telst það virkilega fréttnæmt hvar einstaklingar vilja og vilja ekki búa? Hugur minn lagði strax saman tvo og tvo. Það styttist nefnilega í sveitastjórnarkosningar í Fjarðabyggð. Ég sá mig því knúinn til þess að rita þessa örstuttu grein enda mér leiðist ómálefnaleg stjórnmálaumræða, sama hvaða flokkur á í hlut.
Neikvæður uppsláttur
Það er mér hulin ráðgáta afhverju Fjarðalistinn tekur það á sig, kosningar eftir kosningar, að aðgreina sig frá öðrum framboðum með almennum tittlingaskít og leiðindum. Frambjóðendur og yfirlýstir stuðningsmenn listans slá sér nú upp með því að hengja hana Pálínu Margeirsdóttur, þá heiðarlegu konu, sem sagði einfaldlega að hún gæti ekki hugsað sér að búa á Stöðvarfirði.
Hvar vill Fjarðalistinn búa?
Fjarðalistinn reynir nú að pönkast í Pálínu fyrir hreinskilin svör hennar, eins og hún þurfi að vera "pólitískt rétthugsandi" og veiðandi atkvæði með einhverjum fagurgala. Í stað þess að gera sér mat úr þessu ætti Fjarðarlistin að vita að þetta snýst ekkert um Stöðvafjörð, Fáskrúðsfjörð, Reyðarfjörð eða aðra staði, heldur persónulegan smekk Pálínu. Eru ykkar frambjóðendur tilbúnir að búa allsstaðar? Það efast ég um. Þurfa frambjóðendur í Reykjavík að vera tilbúnir að búa í hvaða hverfi eða götu borgarinnar sem er? Það vona ég ekki.
Það virðist litlu breyta hvort um almenna framboðsfundi er að ræða eða útgefið rafrænt efni. Einhvernvegin virðist Fjarðalistanum takast reglulega að vera með ómálefnaleg leiðindi. Nýleg mynd, sem sjá má með að smella hér, þar sem stuðningsmaður listans segjist styðja Fjarðalistans til að vinna gegn framgangi annarra framboðs er dæmi um það.
Ég er viss um að flestir sjái að þetta sé einkar ómálefnalegt innlegg í kosningabáráttuna sem getur annars verið mjög skemmtileg. Meira að segja hundurinn á myndinni virðist ekki vilja kenna sig við þessi vinnubrögð Fjarðalistans og lítur því undan.
Gerum betur
Þetta er ekki í anda okkar frábæru Fjarðabyggðar, þar sem samhugur og samvinna allra flokka hefur einkennt bæjarstjórnarmálin síðstu ár. Það að vera ómálefnalegur og með almennan tittlingaskít er lélegt PR og engum til gagns. Eða er það til of mikils ætlast að menn tali frekar um eigin stefnumál og ágæti í stað þess að ráðast á aðra?
Ég ætla allaveganna að styðja við áframhaldandi málefnalegt og uppbyggilegt starf í anda samvinnu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Áframhaldandi ábyrg fjármálastjórn, aukin búsetugæði og lífsgæðasókn er á dagskránni.
Ég mun því styðja Pálínu ásamt félögum hennar á B lista frjálsra með Framsókn, laugardaginn 31. maí næstkomandi. Um fram allt vona ég þó að fólk mæti á kjörstað og nýti lýðræðislegan rétt sinn. Þannig höfum við áhrif.
Góðar stundir.