Sátt í „stóra“ Nesgötumálinu

Dyrunn Pala Skaftadottir webEitt stærsta deilumál yfirstandandi kjörtímabils er bygging nýs leikskóla á Neseyrinni og þá einna helst hvort færi eigi Nesgötuna niður fyrir fyrirhugaðan leikskóla. Í mínum huga er það fagnaðarefni að nú skuli loksins glitta í byggingu nýs skóla – eftir um 20 ára langþráða bið fjölskyldufólks í Neskaupstað.

Núverandi meirihluti tók þá ákvörðun nú á dögunum að byggja 8 deilda leikskóla í stað 6 deilda sem átti að byggja. Er þetta viðbótarkostnaður uppá um 150 milljónir en með þessu mætum við þeirri þörf sem nú þegar er til staðar. Þetta er ánægjulegt og skemmtilegt verkefni að stækka skólahúsnæði til að mæta fjölgun barna.

Minnihlutinn hefur sett á oddinn að aðalmálið sé að færa Nesgötuna niðurfyrir nýjan leikskóla – niður á Eyrina, annaðhvort með 90° beygju upp með renniverkstæði G.Skúlasonar eða niður fyrir björgunarsveitarhúsið með tilheyrandi uppfyllingu. Meirihlutinn ákvað að höggva á þennan hnút – og setja byggingu leikskólans í gang og nota frekar fjármagnið í að stækka skólann úr 6 deildum í 8 deildir. Fyrir lá að gera miklar breytingar á Nesgötunni til að ná umferð niður. Á íbúafundi sem haldinn var í Neskaupstað kom Jeff Clemensen með frábæra hugmynd um að setja umferðina um Nesgötu í stokk.

Markmið okkar með íbúafundum er einmitt að eiga samræður og skoðanaskipti við íbúana og fá nýjar og góðar hugmyndir. Tillaga Jeffs er einmitt hugmynd sem við teljum að geti sætt öll sjónarmið. Með því að setja umferðina í stokk erum við að tryggja enn frekar öryggi gangandi vegfarenda, komast hjá því að fara í vegaframkvæmdir uppá 130 – 150 milljónir í andstöðu við atvinnufyrirtækin og björgunarsveitina og tryggja leikskólanum nægt rými fyrir útisvæði og mögulega stækkun í framtíðinni.

Okkar markmið er að ná sem víðtækastri sátt og með því að byggja stokk teljum við að því markmiði sé náð. Setjum frekar aukið fjármagn í að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda t.d á Mýrargötu og innanverðum Þiljuvöllum, þar sem ekki síður er þörf á að bæta úr. Ég vona að íbúar Neskaupstaðar geti slegist í för með okkur Sjálfstæðisfólki í Fjarðabyggð í að hrinda þessu í framkvæmd ásamt ótal fleiri brýnum og góðum verkefnum.

Höfundur skipar fjórða sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar