Nýtum tæknina betur

orvar johannsson x14Þann 31. maí n.k. verður gengið að kjörkössunum þar sem við munum velja þá einstaklinga sem við viljum fela það ábyrgðarfulla verkefni að stýra bænum okkar næstu fjögur árin. Ég ákvað fyrir nokkru síðan að ég væri tilbúinn að gefa kost á mér til þeirra starfa og var treyst til þess að skipa 3. sæti á B-lista Framsóknar-, samvinnu- og félagshyggjufólks og er þar með fólki sem bæði hefur mikla reynslu úr bæjarmálunum sem og nýju fólki sem jafnframt kom þar inn með nýjar hugmyndir.

Ég ætla ekki að hafa hér langan texta til kynningar á mér sjálfum þar sem flest ykkar vita deili á mér en ef vera skyldu einhverjir nýjir kjósendur sem ekki þekkja til mín þá læt ég fylgja hér örstutta kynningu. Örvar heiti ég og er 30 ára gamall fæddur og uppalinn Seyðfirðingur og hef búið á Seyðisfirði öll árin 30 að undanskyldum nokkrum vetrum sem ég gekk til mennta á Akureyri þar sem ég lauk námi í rafvirkjun.

Ég hef því miður ekki tök á að vera sýnilegur í firðinum fagra nú í aðdraganda kosninga þar sem ég er staddur í Reykjavík vegna væntanlegrar fjölgunar í fjölskyldunni og undirbúnings fyrir sveinspróf sem fer fram strax að loknum kosningum en ég mun þó senda frá mér einhverjar kynningar á stefnumálum okkar. Í þessum pistli ætla ég fara yfir stefnu okkar hvað varðar stjórnsýsluna og upplýsingagjöf til bæjarbúa.

Með nútímatækni opnast sífellt fleiri leiðir sem hægt er að nýta til að efla og bæta upplýsingagjöf til bæjarbúa. Við teljum mikilvægt að kjörnir fulltrúar þekki innviði stjórnsýslunnar til að hún sé ávalt í samræmi við lög og leggjum áherslu á að þeim verði gefinn kostur á námskeiðum og efni til undirbúnings þeim störfum sem þeim verður trúað fyrir.

Til að auka upplýsingagjöf til bæjarbúa sjáum við fyrir okkur endurbætur á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem t.d. mætti koma upp íbúagátt á vefsvæðinu þar sem nálgast mætti ýmsar upplýsingar sem snúa að stjórnsýslunni, senda inn ábendingar og fyrirspurnir til stofnana og kjörinna fulltrúa, þar væri einnig möguleiki á að senda inn formleg erindi til bæjaryfirvalda til umræðu í nefndum og ráðum. Við teljum að slíkt svæði myndi opna stjórnsýsluna til muna fyrir íbúa sveitarfélagsins og auk þess bæta möguleika þeirra á að koma sínum skoðunum á framfæri.

Einnig viljum við koma á reglubundnum viðtalstímum bæjarfulltrúa þar sem íbúar gætu mætt á staðinn og spjallað um þau málefni í bæjarfélaginu sem helst brenna á þeim. Einnig viljum við huga að því að upptökur verði gerðar af bæjarstjórnarfundum sem aðgengilegar yrðu t.d. á bókasafninu og/eða vefnum, þar sé ég helst fyrir mér eitthvað í líkingu við svokallaða Youtube-rás, sem eins og nafnið gefur til kynna er rás sem stofnuð væri á myndbandavefnum Youtube.com í nafni bæjarins og þar yrði hægt að nálgast upptökurnar frá þessum fundum auk annars efnis tengdu bænum, eins og kynningarmyndbönd fyrir ferðamenn og fleira.

Ég tel að tæknin bjóði upp á mikla möguleika á að koma á fót góðri og ekki síður gagnvirkir upplýsingagjöf og er mikilvægt fyrir þá fulltrúa sem ná kjöri í komandi kosningum að vera vakandi fyrir nýjungum sem oft er jafnvel hægt að nýta sér í þessu skyni án mikils tilkostnaðar.

Ég er tilbúinn að bjóða fram mína krafta til starfa fyrir bæinn okkar næstu 4 árin og vonast eftir þínum stuðningi með því að þú setjir X við B þann 31. maí n.k.

Höfundur skipar 3. sæti B-lista Framsóknar-, samvinnu og félagshyggjufólks á Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar