Styrkur og festa með Á - listanum

gunnar jonsson x14 sigadÉg hef setið í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs í tvö kjörtímabil fyrir Á-listann sem verið hefur í meirhlutasamstarfi með Framsókn síðustu 4 árin. Síðasta kjörtímabil hefur á margan hátt verið ánægjulegt. Samstarf allra bæjarfulltrúa hefur verið gott og vil ég þakka það samstarf nú í lok kjörtímabilsins.

Núverandi meirihluti tók við sveitarfélaginu í mjög erfiðri fjárhagsstöðu eftir 8 ára meirihlutastjórn D og L – lista. Það hefur farið mikil vinna í að ná tökum á fjármálunum og svigrúm til framkvæmda ekki mikið á þessu kjörtímabili. Þó voru framkvæmdir á vegum HEF og ráðist var í byggingu hjúkrunarheimilis.

Eitt af þvi fyrsta sem ég ræddi við nýjan bæjarstjóra þegar hann tók til starfa var hjúkrunarheimilið og fékk ég hann með mér í að draga þennan vagn af stað, en ég hef verið formaður bygginganefndar þess frá upphafi. Samningar náðust um framkvæmdina – hjúkrunarheimilið er að rísa og verður væntanlega tekið í notkun í byrjun næsta árs. Það mun gjörbylta aðstöðu bæði þeirra sem þar dvelja sem og starfsfólks.

Þar sem flest hefur verið afgreitt í sátt á kjörtímabilinu reynist erfitt að finna mál til að gera ágreining um nú í kosningabaráttunni. Sumir hafa þó fundið sér eitt mál til þess - málefni reiðhallarinnar við Iðavelli. Því þykir mér ástæða til að fara aðeins yfir það. Í tíð meirihluta D og L – lista var sú ákvörðun tekin að leggja fé í byggingu reiðhallar og tengja hana við félagsheimilið Iðavelli þannig að notkunarmöguleikar bæði reiðhallar og félagsheimilis yrðu meiri.

Reiðhöllin reis, en tengibyggingin ekki og ýmislegt hefur ekki verið hægt að klára vegna fjárskorts. Í vetur þegar reksturinn komst í þrot og reiðhöllin fór á nauðungaruppboð var ákveðið að Fljótsdalshérað byði í og eignaðist reiðhöllina. Þetta var gert bæði til að verja þá fjármuni sem sveitarfélagið hafði lagt í bygginguna og geta haft áhrif á að húsið yrði áfram til þeirra nota sem það upphaflega átti að vera. Í framhaldinu var skipuð stjórn sem á að sjá um reksturinn og vonandi mun hann eflast og með tímanum skapa tekjur sem geta staðið undir afborgunum lána.

Reiðhallir teljast orðið nauðsynleg aðstaða til að efla og þróa hestamennsku og eru ekki síst mikilvægar fyrir æskulýðsstarfið. Eins má nefna að ýmsir möguleikar eru til að nýta þetta hús og tengja við atvinnuuppbyggingu í ferðamennsku líkt og víða er verið að gera. Sveitarfélagið á og rekur húsnæði og aðstöðu fyrir margs konar íþrótta-, æskulýðs-, tómstunda- og félagsstarf og hestamennska á ekki að vera þar hornreka.

Með þessu tel ég að staðið hafi verið við ákvarðanir og stefnumörkun sem búið var að taka. Ég er ekki mikið fyrir að hlaupast frá hálfkláruðu verki.
Eftir talsverða umhugsun ákvað ég að gefa kost á mér áfram til starfa fyrir sveitarfélagið. Ég hef brennandi áhuga á málefnum þess. Þar hefur mér fundist gott að búa og ég vil að Fljótsdalshérað eflist og dafni þannig að það verði áfram góður staður að búa á.

Ef þú vilt áfram njóta krafta okkar á Á-listanum til að vinna fyrir þig settu þá X við Á.

Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs skipar fyrsta sæti Á – listans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar