Ég vildi að ég þyrfti ekki að fara til vinnu í Fjarðabyggð
Ég heiti Eyjólfur og er læknir á Egilsstöðum og bý þar með fjölskyldu minni. Í nokkur ár hef ég farið til vinnu í Fjarðabyggð til að létta undir þar. Það finnst mér verulega gaman; gaman að hitta nýtt fólk, gaman að breyta um umhverfi, gaman að fylgjast með uppbyggingunni sem þar hefur átt sér stað. Gaman að sjá möguleikana sem þar leynast. Samt vildi ég að ég þyrfti ekki að fara til vinnu í Fjarðabyggð.Íslenskir heimilislæknar eru ekki stór hópur, um 200 manns. Hjá HSA á Egilsstöðum og Seyðisfirði vinna 6 sérfræðingar í heimilislækningum. Allir hafa þeir komið og unnið í Fjarðabyggð í lengri eða skemmri tíma, til að aðstoða við að veita læknisþjónustu þar. Ég fullyrði og stend við það hvenær sem er að fagleg þjónusta þessara lækna þarf ekki að kvíða samanburði við það sem best gerist. Samt vildi ég að þeir væru ekki að fara til vinnu í Fjarðabyggð.
Því þó að okkur þyki gaman að vinna þar og ég telji þjónustuna góða vildi ég að íbúar Fjarðabyggðar þyrftu ekki að fá okkur. Þeir eiga rétt á nokkru betra – öflugri, sameinaðri heilsugæslu.
Sameinaðri heilsugæslu þar sem 3-4 læknar vinna hlið við hlið og eru hver öðrum félagslegur og faglegur stuðningur og hvatning. Öflugri heilsugæslu þar sem læknisþjónusta er fagleg, skemmtileg en umfram allt samfelld. Núverandi fyrirkomulag stuðlar ekki að þessu. Sameiningu heilsugæslunnar í Fjarðabyggð hefur aldrei verið lokið, hún starfar enn eins og þrjú einmenningshéruð með sameiginlega vakt. Ungum læknum í dag finnst almennt ekki eftirsóknarvert að starfa í einmenningshéraði – þeir koma, þeir sjá, þeir fara. Eitt er nefnilega að fá fólk til starfa, annað er að halda í það.
Í Fjarðabyggð eru innviðirnir sterkir og eftirsóknarvert að búa þar eins og fólksfjölgun sýnir; skv. tölunum stendur Reyðarfjörður þar upp úr. Ég tel að það væri ekki erfitt að fá lækna til að koma og ílendast EF starfsumhverfið væri bætt. Í hátt í áratug hefur það verið vilji HSA að byggja upp öfluga heilsugæslustöð á Reyðarfirði með bráðamóttöku, röntgenaðstöðu og bættri læknismóttöku. Ég veit að HSA hefur margítrekað þetta síðustu ár en lítið sem ekkert hefur þokast. Ég veit ekki hvað tefur, kannski bæjarstjórn Fjarðabyggðar geti svarað því?
Ný sókn í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Fjarðabyggð, á öllu Austurlandi raunar, stendur eða fellur með uppbyggingu öflugrar heilsugæslu á Reyðarfirði. Hún verður að koma til og það fljótt! Þá getur heilsugæslan í Fjarðabyggð orðið einhver eftirsóknarverðasti vinnustaður landsins. Þá næst að tryggja þá samfellu í þjónustunni sem svo mjög hefur verið kallað eftir. Þá munu læknar ekki koma eða fara til vinnu í Fjarðabyggð, heldur vinna – og vera.
Ritað á Reyðarfirði 25. maí 2014.