Kynnum okkur málin og myndum okkur skoðun
Nú er senn að ljúka mínu fyrsta og jafnvel eina kjörtímabili sem bæjarfulltrúi Fjarðabyggðar. Ég hef aldrei verið mjög pólitísk í þeim skilningi að skilgreina mig eftir flokkslínum heldur meira verið tilbúin að taka umræðu um málefni og hafa á þeim skoðanir. Öll höfum við nefnilega skoðanir en mismunandi er í hvaða farveg við erum tilbúin að setja þær.Þegar ég fékk fyrirspurn um þátttöku í pólitísku flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar 2010 þurfti ég eðlilega að hugsa mig aðeins um, í fyrsta lagi hvort skoðanir mínar færu saman með þeim, í öðru lagi hvort ég gæti mögulega haft áhrif á stauma og stefnur og í þriðja lagi hvort ég hefði yfirleitt áhuga á því að starfa á þessum vettvangi.
Í ljós kom að skoðanir mínar á málefnum áttu vel heima í stefnu Sjálfstæðisflokksins, ég sá fljótt að ég gat haft mikið um framtíðaruppbyggingu og þróun í sveitafélaginu mínu að segja og áhugi á að verja góðum tíma af frítíma mínum í að sinna samfélaginu var sannarlega til staðar.
En hvað stendur uppúr? Í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum fórum við fram með nokkur skýr markmið, það mikilvægasta og það sem lagt var mest áhersla á var niðurgreiðsla skulda. Það er því einstaklega ánægjulegt að sjá, fjórum árum seinna, að þessu markmiði var náð. Það sem hægt er að leggja til grundvallar næstu fjögur ár og vonandi til framtíðar er aukin uppbygging, aukin fjárfesting í framkvæmdum og síðast en ekki síst minni álögur á íbúa Fjarðabyggðar sem hafa svo sannarlega tekið þátt í að ná þessu setta marki. Þar af leiðandi eiga þeir nú að uppskera eftir því.
Það sem nefnilega heillar mig mest við hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er að treysta fólkinu sjálfu fyrir peningunum sínum í stað þess að skattfé þess sé notað í misjafnlega vel útfærð verkefni á höndum fárra pólitískt kjörinna fulltrúa sem eflaust meina vel, opinbert fé (peningana mína og þína) á hinsvegar fyrst og fremst að nýta til að efla grunnþjónustu samfélagsins.
Að þessu sögðu get ég ekki annað en stigið fram og sagt skoðun mína á einu af kosningaloforðum annarra framboða í Fjarðabyggð, en það eru hugmyndir um eitt jafnaðargjald í almenningssamgöngum innan sveitarfélagsins. Það getur verið að hugmyndin sé falleg en þar sem ég hef verið verkefnastjóri þess verkefnis að samræma samgöngur á Austurlandi síðustu 4 ár, fyrst hjá Þróunarfélgi Austurlands, nú hjá Austurbrú, þá þekki ég aðeins til málavaxta og langar að deila því með ykkur.
Almenningssamgöngukerfið á Austurlandi er ekki rekið af sveitarfélaginu Fjarðabyggð en það er samstarfsaðili að því verkefni með um 10% hlutdeild í kostnaði. Verkefnið er á ábyrgð SSA (Sambands sveitarfélaga á Austurlandi) og framkvæmt af nýsköpunar og þróunarsviði Austurbrúar. Meginstoð kerfisins er starfsmannaakstur Alcoa Fjarðaáls ásamt því að samþætta allan annan akstur í eitt heildstætt samgöngukerfi sem fékk á árinu 2013 heitið SVAUST eða Strætisvagnar Austurlands.
Í leiðarkerfinu er akstur sveitarfélaganna, starfsmannaakstur og sérleyfisakstur aðgengilegur öllum íbúum og gestum Austurlands hvort sem fólk nýtir sér ferðir til og frá vinnu, flugvallar, tómstunda, skóla eða íþróttaiðkunnar. Gjaldskrá kerfisins byggist upp á 15km gjaldssvæðum þar sem hvert svæði kostar 350kr. Þetta er samræmt yfir allt Austurland.
Kostnaður við útfærslu á jöfnun gjaldskrár fyrir Fjarðabyggð eitt og sér fer sennilega eftir því hver reiknar hverju sinni en að mínu mati gæti hlutur Fjarðabyggðar aukist um allt að 100mkr á ári. Sveitarfélagið væri með því móti ekki lengur hluti af samræmdu leiðarkerfi Austurlands og spurning er hvort tekjugrunnur og rekstargrundvöllur kerfisins myndi standa af sér slíkar breytingar þegar svo stutt er liðið á þróun verkefnisins.
Ég treysti kjósendum til að kynna sér málin til hlýtar og nýta kosningaréttinn sinn á laugardaginn, lýðræði er ekki sjálfgefið og við íbúarnir berum mikla ábyrgð á mögulegri þróun og uppbyggingu þeirra sveitarfélaga sem við búum í.
Ég hvet alla til að mynda sér skoðun og máta hana við þau framboð sem bjóða fram krafta sína í Fjarðabyggð, mitt val er einfalt, ég set X við D og kýs áfram öflugt samfélag þar sem tekist er á við tækifæri framtíðarinnar með öruggum og skýrum hætti.
Höfundur er fráfarandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.