Sóley Björk Stefánsdóttir: Stefnumálin mín

Sóley Björk Stefánsdóttir

Sóley Björk Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur frá Akureyri, gefur kost á sér á framboðslista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi og sækist eftir öðru sæti.  Hér kynnir hún helstu stefnumál sín.

Ég býð fram krafta mína í það mikla verk sem framundan er við að byggja upp gott samfélag hér á ný. Samfélag sem byggir á jöfnuði, jafnrétti, lýðræði og heiðarleika.

Nú hefur efnahagur landsins og trúverðugleiki verið endurreistur en mikilvægasti hluti starfsins er eftir en það er að ná samstöðu um að byggja upp réttlátt samfélag þar sem við tökum skynsamlegar ákvarðanir um okkar hagsmuni til framtíðar.

Við þurfum að efla lýðræðið og aðgengi almennings að upplýsingum

Við þurfum að passa betur upp á auðlindirnar okkar og nýta þær skynsamlega

Við þurfum að efla fjölbreytt atvinnulíf

Við þurfum að bæta samvinnu, samskipti og vinnubrögð

Við þurfum að efla stöðu landsbyggðarinnar

Núverandi ríkisstjórn hefur nú þegar byrjað á mörgu því sem ég nefni hér en framundan er mikil vinna sem byggir á samræðu og samvinnu okkar allra. Nú ríður á að við öll höfum hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Mín sýn á áðurnefnd atriði í stuttu máli:

Við þurfum að efla lýðræðið og bæta aðgengi almennings að upplýsingum

Við höfum séð þess skýr dæmi síðustu daga, mánuði og ár hvernig spilling, vanhæfni og vanræksla dafnar þar sem augu almennings sjá ekki til. Þetta mun ekki breytast fyrr en almenningur og fjölmiðlar fá aukið aðgengi að því sem fram fer í stjórnkerfinu. Við þurfum að afnema leyndarhyggju og þöggun. 

Við þurfum að passa betur upp á auðlindirnar okkar og nýta þær skynsamlega

Til þess að okkar ríkulegu auðlindir endist um alla framtíð verðum við að ganga vel um þær. Við höfum því miður verið allt of fljótfær í nýtingunni, ekki síst á orkuauðlindum. Orkan er seld erlendum stórfyrirtækjum á allt of lágu verði og mikið vantar upp á fullnýtingu hverrar virkjunar. Okkur bar gæfa til þess á sínum tíma að stýra ásókn í fiskinn með kvótakerfinu og nú verðum við að leiðrétta það óréttlæti sem snýr að skiptingu arðsins. Við þurfum að taka stjórn á öllum okkar auðlindum, efla þekkingu og fagmennsku við nýtingu á þeim. Það er algjört lykilatriði að þjóðin fái öll að njóta auðæfanna. 

Við þurfum að bæta samvinnu, samskipti og vinnubrögð

Það tapa allir á því þegar við vinnum hvert gegn öðru. Við verðum að taka höndum saman og vinna að hagsmunum samfélagsins í heild. Við verðum að geta borið virðingu hvert fyrir öðru, bæði í orði og á borði, jafnvel þótt við séum ósammála. Þegar harkan og óvinavæðingin er lögð til hliðar kemur gjarnan í ljós að það er ekki eins langt á milli okkar og virtist.

Við þurfum áfram að efla fjölbreytt atvinnulíf

Það er engin skynsemi í því að setja öll eggin í sömu körfuna. Við þurfum áfram að styðja við nýsköpun, ekki síst þá sem gengur út á fullnýtingu verðmæta. Við þurfum ekki að vera háð því að vinna fyrir stórfyrirtæki, við eigum að eiga jafna möguleika á því að koma undir okkur fótunum í þeirri atvinnustarfsemi sem við sjálf kjósum. 

Við þurfum að efla stöðu landsbyggðarinnar

Við sem höfum ákveðið að búa á landsbyggðinni höfum mörg hver tekið þá ákvörðun eftir að hafa vegið og metið kosti og galla lífsins á landsbyggðinni miðað við lífið á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir ekki að valið hafi verið auðvelt. 

Margir hafa þurft að sætta sig við takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun, fábreyttara úrval af störfum og lélegra aðgengi að upplýsingum, menntun og upplýsandi umræðu. 

Það að dreifa byggð um allt landið er ekki fjárhagslega hagkvæmt heldur snýst um lífsgæði og menningu. Vegna þess að við höfum ákveðið að gera það eigum við að gera það með fullum hug og byggja upp og viðhalda þjónustu um allt landið. 

Það þarf að halda áfram að vinna byggðastefnu sem byggir á styrkleikum hvers svæðis, möguleikum og fjölbreytileika mismunandi svæða. Brýnt er að efla samgöngur, háhraðanettengingar, menntastofnanir, nýsköpun og heilbrigðisþjónustu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.