Heill Vilhjálmi Snædal sjötugum
Það er sjálfsagt engin nýlunda að tveir landeigendur á Jökuldal setjist niður við eldhúsborðið á Skjöldólfsstöðum og ræði þar landsins gagn og nauðsynjar, laxveiði, virkjanamál og framsóknarmenn. Það ber hins vegar aðeins nýrra við að slíkar viðræður endi á síðum Fréttablaðsins, eins og viðtalið við Vilhjálm Snædal gerði í dag.Það má þó kannski segja að ástæða sé til að fagna því að blaðið sýni málefnum landsbyggðarinnar aukinn áhuga. Blaðið berst mér reyndar ekki frekar en öðrum íbúum hér, en eftir að mér var bent á viðtalið gat ég nálgast það á netinu. Það var áhugaverð lesning.
Þó að margt hafi verið athyglisvert í viðtalinu staldraði ég reyndar lengst við áhyggjur Vilhjálms af lítilli kosningaþátttöku sem hann rakti meðal annars til þess að illa væri talað um stjórnmálin á heimilum landsins. Það var og! Þar mættu kannski einhverjir líta sér nær.
Miðað við lestur viðtalsins virðist manni sem Vilhjálmur sé þeirri náttúru gæddur að ætla þeim sem eru honum ósammála að vera ýmist „aular“, illa innrættir eða þá hvoru tveggja. Þessari lyndiseinkunn deilir hann með ýmsum vinsælustu einræðisherrum heims, svo sem Lenín og Stalín, og þykir þar sjálfsagt ekki leiðum að líkjast.
Vilhjálmur sakar framsóknarmenn um að hafa lagst gegn framkvæmdum við Steinbogann í Jökulsánni og verður ekki annað skilið en að af því tilefni hafi hann lagst í heilagt stríð til þess að ná manni af Framsókn í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum. Það eru nú kannski óþarflega kaldar kveðjur til þeirra tveggja bæjarfulltrúa Framsóknar sem studdu framkvæmdina í bæjarstjórn. Léði Páll Sigvaldason, sem skipaði þriðja sæti á lista Framsóknar fyrir kosningar og var því ætlað fórnarlamb krossferðarinnar, framkvæmdinni atkvæði sitt bæði í nefnd og bæjarstjórn. Um þetta vorum við Páll ekki sammála, en það er allt í lagi. Í Framsóknarflokknum á Héraði leyfist mönnum nefnilega að vera ósammála án þess að því fylgi heift og heitingar.
Ég greiddi atkvæði gegn veitingu framkvæmdaleyfis á sínum tíma. Það gerði ég á þeim forsendum að þegar um er að ræða framkvæmdir á svæðum á náttúruminjaskrá og sem eru líklegar til að raska merkilegum náttúrufyrirbærum, sé sjálfsagt að gera þá kröfu að málin séu rannsökuð almennilega og tryggt eins og framast er kostur að framkvæmdirnar skili örugglega tilætluðum árangri. Það sé með öðrum orðum ástæða til að kanna málin vel áður en beltagrafan er send á staðinn.
Í þessu máli stóð ég einn á móti veitingu leyfisins, það var veitt og búið er að framkvæma. Úr því sem komið er vona ég að sjálfsögðu að hún dugi vel til þess að koma laxi sem víðast upp eftir Jöklu. Það væri öllu svæðinu til framdráttar. En svo það sé nú sagt, og sagt á máli sem Vilhjálmur skilur, þá er það bull og þvættingur að ég eða „framsóknarmenn“ hafi beitt sér gegn styrkveitingum til verkefnisins frá Landsvirkjun og Alcoa eða unnið bak við tjöldin með óeðlilegum hætti gegn framkvæmdinni. Ég var ósammála veitingu framkvæmdaleyfis og kaus gegn málinu. Þannig er ferlið, ég varð undir með mitt sjónarmið og sætti mig við það.
Um afstöðu frænda minna á Hrafnabjörgum, Hlíðarmanna almennt eða „kerlinga“ þar get ég lítið sagt því við töluðum okkur ekki mikið saman þar um. En ég vil þó segja að það getur ekki talist óeðlilegt að einhverjir hafi sett spurningamerki við að veiðifélag, sem allir landeigendur að Jöklu eiga lögum samkvæmt aðild að, réðist í milljóna framkvæmd á eigin kostnað sem óvíst var að skilaði félaginu neinu til baka.
En eldhúsborðið á Skjöldólfsstöðum er ágætur staður til að ræða málin. Það kom fyrir hér í eina tíð að ég kom við þar til að gera það og ég vona að ég sé ekki óvelkominn til að gera það einhvern tíma aftur þó svo að mér hafi að Vilhjálms mati gengið óþarflega vel í kosningunum. Það er nú reyndar svo að kunnugir segja mér að það hafa varla mátt á milli sjá hvor okkar fékk fleiri útstrikanir þar, ég í 1. sæti á mínum lista og hann í 18. sæti á sínum. Það er stundum þannig með stórmennin, að þau eru umdeild og þetta þekkjum við báðir.
En ég get alveg lofað því að Vilhjálmur Snædal hefur ekki upplifað það að ég beiti mér af krafti gegn honum eða hans hagsmunum og ég reikna ekki með að svo muni nokkurn tíma verða. Ef ég hefði einhvern tíma gert það þá hefði hann sannarlega tekið eftir því.