Austurnet: Fimm árum síðar

atvinnulífssýning Egilsstaðir Þórunn

Í lok árs 2007 settumst við nokkur niður yfir kaffibolla og stofnuðum Austurnet ehf, vettvang fyrir fagfólk í upplýsingatækni á Austurlandi. Í upphafi vorum við 4 sem vorum  að taka að okkur lítil aukaverkefni, svona til að auka fjölbreytnina og ná okkur í smá aukatekjur því við vorum öll í vinnu hjá öðrum fyrirtækjum.  Með okkur voru svo makar og velunnarar sem studdu okkur í þessu á ýmsan hátt.

Smátt og smátt fjölgaði verkefnunum á sama tíma og kreppan helltist yfir og fyrirtækin drógu saman starfsemi sína, ekki síst á landsbyggðinni.

Við héldum áfram, nutum þess auðvitað að þurfa ekki að fjárfesta í birgðum eða tækjum, því í okkar fagi, hugbúnaðargerðinni, er þekkingin aðalmálið. Við þurftum því ekki að taka lán – sem var augljóslega mikill kostur.  

Verkefnin voru af ýmsu tagi, vefsíðugerð, tölvukennsla, ráðgjöf, smærri forritunarverkefni, grafísk hönnun og auglýsingagerð. Við rákum líka um þó nokkurt skeið fréttavef, þó hagnaðurinn væri enginn. 

Á þessum tíma voru nokkrir ungir menn að læra tölvunarfræði í fjarnámi , sumir langt komnir aðrir rétt að byrja. Við veltum því oft fyrir okkur hvort það yrðu næg verkefni til fyrir þá líka þegar þeir hefðu lokið námi. Lengi vel leit ekki út fyrir það, en samt sem áður er staðan sú í dag að við höfum aflað nægilegra verkefna fyrir þá sem hjá okkur starfa og í dag erum við 10 og öll í fullu starfi  hjá okkar fyrirtækjum. Fimm tölvunarfræðingar, 2 kerfisfræðingar, 1 grafískur hönnuður,1 viðskiptafræðingur og 1 skrifstofumaður.

 

Verkefnin eru orðin færri og stærri, segja má að 3 starfsmenn vinni alfarið að verkefnum fyrir erlend fyrirtæki.  Það þýðir einfaldlega 3 vellaunuð störf, sem þar að auki eru greidd í erlendri mynt .  Allar líkur eru á að þessi verkefni verði fleiri og stærri og því erum við nú þegar búin að tryggja okkur einn starfsmann til viðbótar.

Með fleiri vel menntuðum starfsmönnum höfum við líka getað tekið að okkur stærri og flóknari verkefni fyrir innanlandsmarkað og þá mest fyri okkar næsta umhverfi, stéttarfélög, sveitarfélög og fyrirtæki.

Þegar ég var svo að fara yfir þessar staðreyndir í gær, fór ég að hugsa;  Hvar værum við í dag ef við hefðum ekki tekið þetta skref og stofnað Austurnet.  

Grafíkerinn okkar væri sennilega enn í sínum verkefnum, að hanna umbúðir og auglýsingar, en frekar ólíklegt að hann væri kominn á kaf í heimasíðugerð og vefhönnun

Sumir tölvunarfræðingarnir væru sennilega fluttir suður eða kannski í þjónustustörfum í álverinu.  Einn úr okkar liði er reyndar fluttur suður, en hann er enn að vinna hjá okkur og heldur uppi merkjum okkar á Suðurlandi.  

Aðrir væru sennilega  enn að vinna á flugvellinum, gera við og selja tölvur í einhverjum verslunum, kenna börnum eða fullorðnum, eða bara  vinna á jarðýtu eða keyra vörubíl. Alls konar störf, góð og gild, en fæst þeirra að nýta á nokkurn hátt þá menntun og kunnáttu sem við búum yfir. Og svo eru einhverjir aðrir að vinna þau störf, vegna þess að við höfum búið til ný.

Ungu mennirnir eru í góðri vinnu í sinni heimabyggð, í stað þess að þurfa að flytja búferlum, vinna fjarri heimilum eða starfa í óskyldum greinum og nýta ekki menntun sína.  

Ég velti því líka fyrir mér hvar ég væri hefðum við ekki tekið þetta skref fyrir tæpum 5 árum. Ég hefði örugglega misst vinnuna, því fyrirtækið sem ég vann hjá, skar starfsemi sína á austurlandi niður við trog skömmu eftir að ég hætti. Mínir kostir hefðu verið að fara að kenna, vinna á skrifstofu eða eitthvað annað í þeim dúr. Ég er alla vega sannfærð um að ég hefði ekki getað tekið mér neitt skemmtilegra eða meira gefandi fyrir hendur.

Að vera sinn eiginn herra, bera ábyrgð á verkum sínum og eiga þátt í að byggja upp starfsemi frá grunni, sem veitir ungu fólki vel launuð og spennandi störf, ég veit ekki um ykkur en mér líður býsna vel með að hafa átt þátt í því.

 

Hugleiðing flutt á atvinnulífssýningunni Okkar samfélag

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.