Af Veiðifélagi Jökulsár á Dal, Vilhjálmi á Skjöldólfsstöðum og vælandi „kerlingunum"

asgeir birgisson fossvollumÍ vikunni sem leið var birt viðtal við Vilhjálm bónda á Skjöldólfsstöðum á síðum Fréttablaðsins og á vefmiðlinum Vísi. Í viðtalinu sendir Vilhjálmur þeim tóninn sem hann telur eiga það skilið. Margir eru það sem verða fyrir þeim ósköpum sem bóndinn á Skjöldólfsstöðum þarf að útdeila. Sá partur sem ég staldraði þó helst við var sú sneið sem við „kerlingarnar" í Hlíðinni og Tungunni fengum.

Ef lesendur eru ekki staðkunnugir þá eru staðreyndirnar helst þessar: Við gerð Kárahnjúkavirkjunar hætti jökulvatnið að renna um farveg Jökulsár á Dal. Við það varð áin að tærri bergvatnsá (fyrir utan þegar veita þarf yfirfallinu frá Kárahnjúkum um farveginn). Þessi breyting þýddi að áin var nú að margra mati vel hentug til ræktunar fyrir laxveiði.

Önnur breyting sem varð á var að yfirborð árinnar fór undir það sem ýmist hefur verið kallað Steinbogi eða grjóturð, eftir því hver er spurður, á landareignum Gilja og Sellands. Hér ætla ég þó að leyfa mér að tala um Steinboga. Þarna var hægt að ganga yfir ánna oftast nær þurrum fótum og finna hana ólga undir fótum sér. Margir töldu að þetta fyrirbrigði hamla fiskigengd upp Jökuldal og ætla ég svo sem ekki að draga í efa að það hafi verið rétt. Lengi má víst deila um hvort að Steinboginn var fagur eða ekki. Eitt er þó víst, svæðið var á náttúruminjaskrá. Um þennan Steinboga stóðu miklar deilur sem Vilhjálmur kemur inn á í viðtali sínu.

Eins fjálglega og Vilhjálmur talar væri auðvelt að afskrifa það sem taut í gömlum karli. En höfum í huga að Vilhjálmur er nýkjörinn í stjórn Veiðifélagsins Jökulsár á Dal. Viðhorf hans endurspeglar vel það viðhorf sem innan stjórnarinnar þrífst og hvernig meirihluti flestra (þó ekki allra) sem á land að vatnasvæðinu fyrir ofan Steinboga lítur á þá sem fyrir neðan hann búa. Að mínu mati hefur framkoma þeirra og hegðun gagnvart landeigendum í Hlíð og Tungu ekki verið upp á marga fiska.

Tengsl mín við málið

En svo ég kynni sjálfan mig til sögunnar. Ég er hvorki stórbóndi né landeigandi eins og Vilhjálmur og hef mér fátt til frægðar unnið. Ég heiti Ásgeir og er sonur Birgis heitins Ásgeirssonar, bónda á Fossvöllum og landeiganda í Sellandi. Steinboginn var til helminga í landi hans og bóndans á Giljum. Ég tek það fram að ætlunin með þessum skrifum er ekki að útmála föður minn sem eitthvað fórnarlamb. Þeirri orrahríð sem að honum var gerð til að knýja hann til að samþykkja framkvæmdir við Steinbogann tók hann sem hverju öðru hundsbiti og lét sér hvergi bregða. Hann var enda ýmsu vanur á langri ævi.

Það sem hryggir mig þó hvað mest við allan þann djöfulgang, sem fór í gang vegna Steinbogans, er að í hreinskilni sagt að þá var faðir minn ekki alfarið mótfallinn framkvæmdum við bogann. Hann hafði fullan skilning á því að þeir sem fyrir ofan bogann búa höfðu áhuga á að reyna að rækta fisk í ánni og drýgja þannig tekjur sínar.

Það hefðu þeir sem eiga land fyrir ofan Steinbogann komist að ef þeir hefðu getað talað við hann eins og mann. Hann vildi þó eiga sæti við borðið. Hann vildi að gengið yrði úr skugga hvort að framkvæmdin væri nauðsynleg og ef svo reyndist yrði þá framkvæmd með sem minnstu raski fyrir náttúruna. Hann vildi fá að hafa eitthvað um málið að segja. Kannski ekki ósanngjörn krafa þar sem helmingur bogans var á hans landareign.

Það viðhorf sem hann mætti var þó einfaldlega það að honum kæmi málið ekkert við og honum væri vissara að halda sig á mottunni. Að framkvæmdirnar færu fram með eða án hans samþykkis. Ég held að það sé einfaldlega mannlegt eðli að spyrna á móti þegar maður finnur hönd sína þvingaða. Það gerði faðir minn eftir bestu getu.

Útgáfa framkvæmdaleyfis

Á endanum gaf þó bóndinn á Giljum sitt leyfi fyrir framkvæmdunum. Með það í farteskinu greiddu átta af níu bæjarfulltrúum á Fljótsdalshéraði atkvæði með útgáfu framkvæmdaleyfis við Steinbogann. Framkvæmdin skildi vera á þeim parti bogans sem var í landi Gilja. Faðir minn var ekki álitinn aðili máls og þar af leiðandi var honum ekki kynntur neinn áfrýjunar- eða kæruréttur sem stjórnsýslulög hefðu annars kveðið á um. Lögbannskröfu hans á framkvæmdirnar var hafnað af sýslumannsembættinu á Seyðisfirði. Síðar var beiðni hans um upptöku umboðsmanns Alþingis á málinu hafnað þar sem hann hafði ekki að fullnýtt kærurétt sinn innan tilskilinna tímamarka. Kæruréttur sem honum var þó aldrei kynntur.

Undirbúningur við framkvæmdirnar fór í fullt gang og þær skildu fram ganga. Þegar faðir minn greindist með banvænt krabbamein í byrjun sumars 2012 og ljóst var að hann ætti ekki langt eftir þótti það ekki tilefni til þess að fresta framkvæmdunum. Þegar að stór hluti bænda sem eiga land fyrir neðan Steinbogann skrifuðu undir beiðni þess efnis að framkvæmdum yrði frestað þótti það ekki tilefni til að staldra við. Þegar að framkvæmdin vék frá gefnu framkvæmdaleyfi þar sem raufin í gegnum bogann var mun breiðari en leyfi var gefið fyrir þótti það ekki stórmál.

Óskir föður míns um að rask á náttúru yrði sem minnst fóru fyrir lítið. Þegar að næsta haft sem hamlaði fiskigegnd við það sem kallað hefur verið Vaðlabjörg var sprengt í skjóli nætur þótti það ekki tiltökumál. Enda virðist þessum mönnum flest leyfilegt.

Staða þeirra sem búa fyrir neðan Steinboga

Staðan er erfið fyrir þá sem eiga jarðir að vatnssvæðinu fyrir neðan Steinboga og eru ósáttir við vinnuaðferðir innan veiðifélagsins. Þeir eru fastir í aðstæðum sem þeir geta ekki flúið. Lögum samkvæmt er þeim skylt að vera í veiðifélaginu. Innan veiðifélagsins ríkir svo meirihlutinn. Eða eins og það er orðað í bréfi frá stjórn veiðifélagsins „Veiðifélög byggja á því fyrirkomulagi að eigendur veiðiréttar við ár eru skikkaðir til að starfa saman í félagsskap, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í veiðifélögum er byggt á því að meirihluti ráði bæði á félagsfundum og stjórnarfundum".

Bréfið ekki undirritað af neinum en stílað á þá landeigendur sem skrifuðu undir beiðni þess hljóðandi að framkvæmdum yrði frestað um sinn. Nú er það svo að sú auðlind sem Jökulsáin er, er nýtt án samvinnu við landeigendur neðan Steinboga og án samþykkis margra þeirra sem hafa ekki skrifað undir samning við veiðifélagið.

Sögulok

Nú hefur þetta allt verið til lykta leitt. Þeir sem fyrir þessum ósköpum fóru hafa sigrað allar orrustur og stríðið einnig. Þeir hafa fengið allt það sem þeir vildu, eins og þeir vildu, þegar þeir vildu, á þann hátt sem þeir vildu. Mörgum þætti það eflaust gott. En það er greinilega ekki nóg fyrir alla. Svo mikill er ofstopinn að Vilhjálmur sér sérstakt tilefni í viðtalinu til þess að ráðast að eina meðlim bæjarstjórnarinnar sem vogaði sér að greiða ekki atkvæði með framkvæmdunum. Bara svo það sé alveg á hreinu að þá sitja níu manns í bæjarstjórn á Fljótsdalshéraði. Atkvæðin átta sem féllu með útgáfu framkvæmdaleyfisins dugðu fyllilega.

Hvað varðar ásakanir um að það hafi verið ætlun okkar að hlunnfara þá sem fyrir ofan Steinboga búa svara ég þessu einu, margur heldur mig sig. Persónulega myndi ég meta það mest að vera laus undan þessu oki og þurfa ekki að horfa á veiðimenn í Jökulsánni í landareign móður minnar. Þess utan vona ég bara að allar þær ár sem renna um fríríkið á Jökuldal fyllist af fiski. Að þetta verði búdrýgindi fyrir þá og í kringum þetta byggist blómlegur iðnaður. Ég vona bara að þeir finni það í sér að njóta ávaxta erfiðisins með aðeins meiri reisn í framtíðinni.

En ég hef fjasað nóg um þetta og ætla að láta gott heita. Enda leiðist Vilhjálmi á Skjöldólfsstöðum örugglega þetta „kerlingarvæl". Mér fannst eðlilegt þar sem Vilhjálmur tjáði sig um málið á opinberum vettvangi að svara honum með opnu bréfi. Ég hef ekki hug á að tjá um þetta mál opinberlega aftur.

Að endingu vil ég bara segja þetta. Ég skil að framkvæmdum fylgja oft fórnarkostnaður. Mér finnst bara að mannleg reisn eigi ekki að falla þar undir.

Virðingarfyllst,
Ásgeir Birgisson

Lesa má viðtalið við Vilhjálm í heild sinni hér á Vísi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar