Grímsstaðir á Fjöllum: Umræða í herópum og æsingastíl

Stefán Bogi

Það er kunnara en frá þurfi að segja að uppi eru áform um uppbyggingu í ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum. Er það á vegum fyrirtækja í eigu hins kínverska Huang Nubo en einnig eiga aðkomu að verkefninu íslenska ríkið, vegna gerðar fjárfestingasamnings, og sex sveitarfélög sem liggja nærri Grímsstöðum í gegnum sameiginlegt einkahlutafélag sitt GáF.

Þessi áform hafa skapað mikla umræðu í samfélaginu enda er um að ræða stórar hugmyndir á íslenskan mælikvarða. Hins vegar hefur því miður minnstur hluti af þessari umræðu verið með þeim hætti sem málefnið verðskuldar heldur hefur hún farið meira fram með herópum og í æsingastíl. Eru þar því miður ekki undanskildir þeir sem hæst eru settir í þjóðfélaginu, þingmenn og ráðherrar sem ættu að geta átt greiðan aðgang að réttum upplýsingum og má því ætlast til þess að kynni sér mál áður en haldið er út í umræðuna með hátimbraðar yfirlýsingar.

Fljótsdalshérað er eitt þeirra sex sveitarfélaga sem eiga hlut í GáF ehf. en meirihluti bæjarstjórnar samþykkti á fundi sínum þann 16. maí að gerast stofnaðili að félaginu. Ásamt Fljótsdalshéraði eru það Akureyrarbær, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Norðurþing og Vopnafjarðarhreppur sem eiga hlut í félaginu. Vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um málið tel ég nauðsynlegt að gera grein fyrir stöðu þess og forsendum fyrir þátttöku Fljótsdalshéraðs í verkefninu.

Eins og velflest önnur sveitarfélög á landinu hafa bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði jafnan opin augu og eyru fyrir tækifærum til atvinnuuppbyggingar enda alveg ljóst að ný tækifæri í atvinnulífinu eru forsenda áframhaldandi sóknar í samfélaginu. Grímsstaðir eru bókstaflega næsti bær við Fljótsdalshérað og alveg ljóst að meiriháttar framkvæmdir og uppbygging í ferðaþjónustu á jörðinni myndi hafa veruleg áhrif innan Fljótsdalshéraðs og skapa ýmis tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki á svæðinu. Þegar slík áform eru uppi er það mat meirihluta bæjarstjórnar að það sé ekki bara æskilegt heldur raunar nánast skylda bæjaryfirvalda að leitast við að fylgjast með þróun mála og hafa áhrif eftir föngum til að tryggja sem best hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess. Á þessum forsendum var ákveðið að gerast stofnaðili að GáF ehf. og leggja fram 100.000 krónur í hlutafé. Fljótsdalshérað á einn stjórnarmann í félaginu sem er Björn Ingimarsson bæjarstjóri og í gegnum þann fulltrúa er fylgst með þróun mála.

Núverandi staða er sú að unnið er að samningum við fyrirtæki Huang Nubo og einnig er unnið að því að semja við núverandi landeigendur að Grímsstöðum, annars vegar um kaup en hins vegar um uppskipti jarðarinnar gagnvart þeim eigendum sem ekki vilja selja sína eignarhluta. Gert er ráð fyrir að GáF ehf. kaupi jörðina en leigi síðan hluta hennar til félags í eigu Huang Nubo. Leigusamningurinn taki til um 300 hektara af alls um 23.000 sem reikna má með að verði í eigu GáF ehf. eftir kaupin. Þannig verður öll jörðin sem fyrr í eigu íslenskra aðila. Unnið er út frá því að stærstur hluti jarðarinnar, þ.e. ríflega 20.000 hektarar, verði friðlýstur með einum eða öðrum hætti og þannig tryggt að ósnortin náttúra á svæðinu verði ekki skert og að aðgengi almennings verði tryggt enn frekar en nú þegar er. Margir aðilar koma að þessum samningum, allt tekur þetta tíma og mikilvægt er að vandað sé til verka enda miklir hagsmunir í húfi. Stjórn GáF ehf. hefur boðið fulltrúum ríkisvaldsins að fylgjast með stöðu mála enda er farsæl niðurstaða verkefnisins háð því að allir aðilar nái saman að lokum.

Þann 31. júlí birtist á vef iðnaðarráðuneytisins yfirlýsing vegna Grímsstaðamálsins. Þar kemur m.a. fram að ýmis álitamál hafi komið upp í tengslum við málið og að ýmsa fleti þess verði að skoða áfram. Undir það má taka heilshugar, enda er það einmitt tilgangurinn með stofnun félags í eigu sveitarfélaganna að vinna málið áfram og skoða þá fleti málsins sem þarfnast skoðunar. Ef að verkefnið reynist að lokinni þessari skoðun og vinnu við samninga vera fýsilegt og ljóst að það þjóni hagsmunum sveitarfélaganna og samfélagsins í heild þá er ýmislegt til vinnandi að leysa þau vandkvæði sem upp kunna að koma til þess að verða megi af þeirri uppbyggingu sem áformuð er.

Í yfirlýsingu ráðuneytisins er einnig komið inn á mikilvægi þess að tryggja að fjárhag umræddra sveitarfélaga verði ekki stefnt í hættu vegna þessa verkefnis t.d. ef ekkert verður úr fyrirhugaðri uppbyggingu. Ég get fullyrt það hér og nú að ekkert í vinnslu málsins á nokkrum einasta tímapunkti hefur gefið ástæðu til þess að hafa áhyggjur af því að fjárhag Fljótsdalshéraðs, né nokkurs annars sveitarfélags verði stefnt í voða með þátttöku í verkefninu. Unnið er út frá því að kaup á Grímsstöðum verði fjármögnuð með fyrirframgreiddri og óafturkræfri leigugreiðslu.

Þannig yrði ekki um neina skuldsetningu að ræða. Þó svo að GáF ehf. tæki lán í tengslum við kaupin að þá er félagið að auki sjálfstætt og skuldbindingar þess hafa ekki áhrif á þau sveitarfélög sem eiga eignarhlut í því. Tilfellið er nefnilega að sveitarstjórnarmenn á Norðausturhorni landsins eru alls ekki skyni skroppnir og bera ekki minni virðingu fyrir hlutverki sínu og ábyrgð gagnvart umbjóðendum sínum en þeir kjörnu fulltrúar og embættismenn sem sitja við Austurvöll eða í Arnarhváli. Það myndi ekki hvarfla að nokkrum kjörnum fulltrúa innan þessara sveitarfélaga að voga fjárhagslegri framtíð þeirra á eitt verkefni, hversu gott sem það kann að vera. Ég get því fullyrt að  ekki er ástæða fyrir fulltrúa iðnaðarráðuneytisins að taka á sig auknar áhyggjur vegna þessa þáttar enda áhyggjuefnin að líkindum ærin í ríkisfjármálum þó að ekki bætist annað við.

Uppbygging í ferðaþjónustu á Grímsstöðum er spennandi möguleiki sem gæti skapað mikil tækifæri fyrir íbúa á Norðausturhorni landsins. Það er vitaskuld ekki sama hvernig að þeirri uppbyggingu er staðið enda mun sannarlega ekki gengið að hvaða skilmálum sem er í þeim samningaviðræðum sem nú eru í gangi. Lykillinn að farsælli lausn málsins, hvort sem af framkvæmdum verður eður ei, er sá að umræða um málið fari fram án öfga og stóryrða og að aðilar málsins tali saman af skynsemi og yfirvegun en verði jafnframt opnir fyrir því að skoða hugmyndir að nýjum atvinnuþróunarverkefnum ofan í kjölinn óháð því hvaðan af landinu eða úr heiminum þær koma.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.