Hátíðarræða 17. júní

gunnarg april1306„Allt hefur áhrif – einkum við sjálf" er eitt af þessum boðorðum sem reglulega eru höfð fyrir okkur. Í því felst að besta leiðin til að fá einhverju breytt er að leggja okkar af mörkum til að móta umhverfi okkar eins og við viljum hafa það. Eigingjarnari útgáfa gæti hljómað: „Ef þú vilt að eitthvað sé gert rétt skaltu gera það sjálfur" og amma mín reyndi að troða því inn í mig að „guð hjálpaði þeim sem hjálpuðu sér sjálfir."

Hvaða útgáfu sem við svo veljum er útgangspunkturinn sá að það þýðir ekki alltaf að bíða eftir að aðrir geri hlutina fyrir mann. Það er undir okkur komið hvernig við viljum hafa samfélagið sem við lifum og hrærumst í. Ef við höfum hugmyndir eigum við að koma þeim á framfæri og fylgja þeim eftir. Jafnvel þótt það mistakist einu sinni, kannski tvisvar. Eins og Matt Damon sagði í myndinni: „Það skiptir ekki máli þótt þú sért sleginn niður, það sem skiptir máli er hvað þú gerir þegar þú stendur upp aftur."

Það getur verið yndislegt að mistakast. Reyndar ekki á þeirri stundu sem það gerist. Mistök eru djöfulleg og að sætta sig við þau er þrautaganga. En þetta snýst um hvernig við lærum af þeim. Ótti er eitt af því sem er innbyggt inn í flestar dýrategundir. Honum er ætlað að koma í veg fyrir að við stórslösum okkur eða hreinlega drepum okkur en þar með er gagnsemi hans að mestu upptalin. Hann á ekki að koma í veg fyrir að við reynum á okkur eða breytum til. Hann á ekki að koma í veg fyrir að við reynum ekki þannig við gerum aldrei mistök. Það endar með því að við gerum aldrei neitt.

Ágætur félagi minn talaði eitt sinn um réttinn til að „fá að sökka," að fá að koma fram og vera ömurlegur án þess að vera dæmdur þannig fyrir lífstíð. Við vorum að tala um listaviðburð sem ungt fólk stóð að baki. Atriðin voru, í hreinskilni sagt, mis góð. En vettvangurinn var mikilvægur. Hæfileikinn til að læra er eitt af því mikilvægasta í manninum.

Sums staðar er meira að segja kennt að fagna mistökunum. „Frábært – við gerðum mistök!" segja menn og halda svo áfram. Ef við erum tilbúin að brosa og hvetja áfram þrátt fyrir klúður í fyrstu atrennu verða menn síður hræddir við að reyna og það er aldrei að vita hvað einstaklingurinn eða samfélagið græðir á næstu tilraun. Það getur betri raun að leiðbeina heldur en skamma.

Störf mín hjá Austurfrétt og fyrir ungmennafélagshreyfinguna gefa einmitt tækifærið til að þvælast um og kynnast fólki sem er stendur fyrir viðburðum, skipuleggur íþróttamót eða heldur tónleika. Yfirleitt er það að gera samfélaginu sínu gagn eitthvað sem vakir fyrir þessu fólki. Það gerir hlutina af mismiklum efnum og hæfileikum en fyrst og fremst ástríðu og áhuga sem er lykilinn að því að þeir gangi vel.

Þessi hátíð hér í dag er dæmi um það, skipulögð af fimleikadeild Hattar sem er eitt af aðildarfélögum UÍA. Víða um land eru það ungmennafélögin sem staðið hafa fyrir hátíðahöldum á þjóðhátíðardaginn. Þau hafa ekki alltaf verið flókin eða íburðarmikil en hafa farið fram og fólk hefur tekið þátt í þeim og notið dagsins.

Ungmennafélagshreyfingin hefur löngum verið þekkt fyrir slíkar hátíðir. Í upphafi menningarvöku sem haldin var í Valaskjálf fyrir páska sagði Jón Arngrímsson frá því að samkoman yrði eins og gömlu ungmennafélagssamkomurnar, menn myndu skemmta hver öðrum. Ég mætti á kvöldvökuna því ég taldi hana besta fréttaviðburðinn í dagskránni og maður sem ég taldi vin minn dró mig þangað til að hlusta á sig flytja ljóð. Í raun langaði mig að vera heima og horfa á fótbolta. Og ég var í hreinskilni sagt ekkert sérstaklega jákvæður framan af dagskránni, enda helmingi yngri heldur en flestir gestirnir og með töluvert annan smekk. En ég endaði á að fara skælbrosandi heim því ég vissi sannarlega ekki fyrirfram að Siddi Ragnars, miðaldra bókari og virðulegur fjölskyldufaðir væri í hópi fyndnustu grínista Austurlands. Þegar við gengum út úr Valaskjálf tveimur dögum síðar af skemmtun grínhópsins Mið-Íslands sagði einmitt bóndinn á Egilsstöðum, ytri: „Jú – þeir voru ágætir – en mér fannst Siddi miklu fyndnari."

Þetta getum við allt tengt við þjóðhátíðardaginn okkar. Ísland er ekki best í heim. Íslenska þjóðin er ekki sú gáfasta, duglegasta, eða fallegasta í heimi. Fljótsdalshérað er ekki besta sveitarfélag landsins. En við eigum heldur ekki verstu stjórnmálamennina, vonlausasta efnahagskerfið eða lélegustu jólatrén. Þetta snýst um að viðurkenna kosti okkar og galla, nýta styrkleikanna en vinna í veikleikunum. Á sumum sviðum erum við afleit – á öðrum framúrskarandi. En þegar allt kemur til alls erum við manneskjur af holdi og blóði og sennilega jafngóð og allar hinar sem búa á Jörðinni.
Samfélagsmótunin og þátttakan er ekki alltaf auðveld. Við þurfum að spyrja okkur erfiðu spurninganna. Við þurfum að spyrja okkur hvernig samfélag viljum við hafa? Erum við sátt við stöðuna núna? Ef ekki – hvað getum við gert til að bæta úr henni? Ekki hvað maðurinn í næsta húsi ætti að gera fyrir okkur. Við þurfum að vera tilbúin að breyta eigin hegðun til að ná þeirri heild sem við viljum. Og ekkert er erfiðra en breyta sjálfum sér.

En samfélagið byggist á samvinnu og taka þátt – því, eins og maðurinn sagði – þá mætir enginn í jarðarförina þína ef þú mætir ekki í þeirra!

Gleðilegan þjóðhátíðardag – Íslandi allt!

Höfundur er formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands og ritstjóri Austurfréttar


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.