Áfram við

heiddis ragnarsdottir 0024 webSvona endaði formaður Félags leikskólakennara alla tölvupósta sem hann sendi félagsmönnum sínum í aðdraganda nýjustu kjarasamninga. Í þessum tölvupóstum var talað um sameiginlegan óvin okkar, samninganefnd sveitarfélaganna. Hann stappaði í félagsmenn stálinu, sameinaði okkur í baráttunni fyrir betri kjörum og hvatti okkur til að standa á okkar í komandi vinnustöðvun sem átti að vera 19.júní. Áfram við, félagsmenn í Félagi leikskólakennara.

Eða svo hélt ég. Eftir að samningar tókust áttaði ég mig á því að ég var ekki partur af þessum „við". Ég er nefnilega ekki leikskólakennari. Ég er bara kennari. Meira að segja óvenjulegur kennari þar sem ég er með BA gráðu í sálfræði og kennsluréttindi sem veita mér réttindi til að kenna í grunn og framhaldsskólum. En ég kaus að vinna á leikskóla og fannst það skiljanlegt að ég væri tveimur launaflokkum lægri en leikskólakennarar þar sem ég var nú ekki með akkúrat rétta námið í þessa vinnu. En þó með góðan grunn í þetta starf og jafn langt háskólanám að baki þar sem ég var aðeins með BA þegar ég byrjaði og bætti svo við mig kennsluréttindum þar sem ég hélt að með því kæmist ég í sama launaflokk og leikskólakennarar. Það var rangt hjá mér.

Ég hef borgað í félag leikskólakennara frá því að ég byrjaði að vinna á leikskólanum. Ég var spurð í hvaða stéttarfélagi ég vildi vera og var sagt að ég gæti verið í FL og fannst mér þá tilvalið að fara í það. Ég kaus svo nýjan formann á sínum tíma, mann sem ég hélt að ætlaði að berjast fyrir alla í félaginu. Mér fannst reyndar sorglegt að það þyrfti karlmann til þess en hvað um það, hann virtist vera til í þessa baráttu, sem og allir félagsmenn. Og þessi barátta skilaði ágætum samningum.

Og aftur núna í ár vorum við tilbúin í baráttu. „Við". Ég tók þátt, kaus með verkfalli í fyrra skiptið og var til í slaginn með mínu félagi. Ég get varla lýst því hvað ég varð reið þegar ég komst að því að ég er ekki partur af þessu „við". Mér líður eins og ég hafi verið stungin illilega í bakið af manni sem ég treysti, sem ég kaus, til að starfa fyrir mig.

Þetta væri ekki svona sárt ef við sem erum með aðra háskólamenntun værum í öðru stéttarfélagi. Ef það væri bara þannig að aðeins þeir sem eru með leyfisbréf fyrir kennslu í leikskóla væru í FL. Þá myndi ég samgleðjast með FL og vona að það væri jafn baráttuglatt fólk í mínu stéttarfélagi sem næði eins góðum samningum. Hver er að vinna fyrir mig? Klárlega ekki formaðurinn sem ég kaus. Það sem er einmitt sárast er að félagið sem ég (og aðrir í sömu stöðu) valdi til þess að berjast fyrir mig, hætti því. Þeir tóku suma félagsmenn fram yfir aðra. Þeir fórnuðu hluta félagsmanna sinna til þess að „rétta fólkið" fengi betri kjör. Og í staðinn á að þvinga aðra fagmenntaða „rétta" leið. Ég hef fengið hrós frá leikskólastjóra fyrir að vera með aðra sýn á starfið en menntaðir leikskólakennarar. Það sé gott að fá fleiri sjónarhorn og það breikki sjóndeildarhring hópsins. Fer það sjónarhorn þegar ég verð búin að læra „rétta leið"?

Ég hef heyrt suma segja að þetta eigi að vera svona þar sem leikskólakennarar eru á lægri taxta en grunnskólakennarar þegar þeir ákveða að vinna í grunnskólunum. Þannig að í staðinn fyrir að berjast fyrir betri kjörum leikskólakennara í grunnskólum þá hefnum við okkur á þeim grunnskólakennurum sem velja að starfa í leikskólum. Spurning hvort að KÍ þurfi að ákveða einhverja línu fyrir sín aðildarfélög þegar kemur að þessum þætti kjarabaráttunnar.

Ef ég held áfram að vinna á leikskóla, hver ætlar að berjast fyrir betri kjörum fyrir mig? Það er nefnilega þannig að ef leikskólakennarar geta ekki lifað á þessum launum (svokölluðum skítalaunum) þá get ég það ekki heldur. Það er skítt að tala um að ná grunnskólakennurum í launum og skilja þá svo eftir í skítnum til að ná sínu fram. Skilja okkur eftir sem börðumst heilshugar með félögum okkar.

Ég auglýsi hér með eftir einhverjum til að berjast fyrir mig og hvet alla sem eru með aðra háskólamenntun í FL að fella þessa samninga. Áfram við hin.

Höfundur er leiðbeinandi A á leikskóla

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.